Almennt um kindur

Í þessu fróðleikshorni er að finna ýmsan almennan fróðleik um íslensku sauðkindina og flest sem hana snertir. Smellið á tenglana hér fyrir neðan til að sjá umfjöllun um hvert efni:

Um íslensku sauðkindina

Kindur eru jórturdýr og klaufdýr. Karlinn heitir hrútur, stundum kallaður bekri eða dorri. Kvendýrið heitir ær eða kind. Afkvæmið heitir lamb, gimbur eða hrútur eftir því hvort kynið er. Landnámsmenn fluttu sauðkindina með sér ásamt öðrum húsdýrum þegar þeir settust að á Íslandi.

Íslenska sauðféð er með stuttan dindil og tilheyrir því svokölluðu stuttrófufé. Það var algengt um alla Norðvestur-Evrópu áður fyrr en er nú aðeins til á Norðurlöndunum og í Rússlandi, Hjaltlandseyjum, Orkneyjum og Færeyjum.

Íslenski fjárstofninn er harðger og sterkur. Kindur verða oft um 10 vetra gamlar og eignast yfirleitt tvö lömb á hverju vori. Þau geta þó verið fleiri, allt upp í 3-4 og dæmi eru um að kindur eignist sex lömb. Fé á Íslandi er ýmist hyrnt, hníflótt eða kollótt.

Á Ströndum er aðallega kollótt fé, þó er hyrnt fé áberandi fleira í Hrútafirði og er á bæjum um alla sýsluna. Fé á Ströndum virðist oft styggara en ættingjar þeirra við hringveginn annars staðar á landinu. Sjálfsagt kemur það til af því að það býr ekki við jafn mikla umferð manna og bíla.

Sauðalitirnir

Íslensku sauðalitirnir eru fjölmargir. Fjáreigendur, ekki síst yngri kynslóðin, hafa alla tíð haldið upp á mislitt fé og það hefur lifað góðu lífi hér á landi.

Á 19. öld fylltust bændur í Evrópu áhuga á því að hreinrækta stofna. Í því fólst meðal annars í að láta kindur verða sem allra líkastar hvorri annarri í útliti og vexti. Þetta varð til þess að víða erlendis var mislitum kindum nánast útrýmt. Þessi ræktunarstefna náði aldrei sömu fótfestu hér á landi. Íslendingar virðast alltaf verið veikir fyrir öllu sem er sérkennilegt og fallegt og því standa þeir betur að vígi hvað varðar litaúrval.

Uppruni litanna

Ef marka má þjóðsögur eru mislitar kindur komnar af hulduhrúti. Sá hrússi var bíldóttur og glæsilegur á velli. Hann kom að Náttfaravíkum í Þingeyjarsýslu þegar fengitími stóð sem hæst. Hrússi gaf sig að ám bóndans og um vorið gerðust þau undur að ærnar eignuðust mislit lömb. Fram að því hafði allt sauðfé hér á landi verið einlitt.

Bónda brá í brún, en hafði þó rænu á því að gefa litaafbrigðunum þau nöfn sem þekkjast enn í dag. Þetta fé, sem síðar dreifðist um allt land, reyndist einnig vera harðgerðara og með meira vit í kollinum en fólk átti að venjast. Þess vegna var það síðar kallað forystufé.

Þjóðtrú um sauðaliti

Það var trú manna ef jörð var hvít um fengitímann að flest lömbin yrðu þá hvít um vorið. Ef hún var rauð urðu mörg lömb mórauð, grá og svört, en ef jörð var flekkótt mátti eiga von á mörgum mislitum lömbum.

Mórauði liturinn skipar sérstakan sess í þjóðsögum. Margar sagnir fjalla um mórautt fé og yfirnáttúruleg fyrirbæri. Grátt græðir, svart særir, hvítt gerir hvorugt en mórautt myrðir, segir máltækið. Draugar klæddust líka oft mórauðum fötum.

Málshættir tengdir sauðfé

  • Allt er hey í harðindum
  • Allt er ullu blautara
  • Betra er hey en hagi
  • Ekki á sauðurinn samrekstur við selinn
  • Hver hefur sinna sauða nokkuð
  • Hver sauður er svartur í myrkri
  • Höfuð er stærst á hverjum hrút
  • Man sauður hvar lamb gekk
  • Margt er kvikra kinda kyn
  • Margur er smala krókurinn
  • Margur er úlfur í sauðargæru
  • Menn reyta sauðinn sakir ullar
  • Misjafn er sauður í mörgu fé
  • Ofskipað er sauð hjá kiðum
  • Sér eignar smali fé, þó engan eigi sauðinn
  • Sveltur sauðlaust bú
  • Þar gætir sauður sauða, sem enginn hirðir er
  • Það munar ekki um einn kepp í sláturtíð
  • Öllum kindum er eitthvað til annmarka

Orðtök tengd sauðfé

Íslenskt mál er auðugt af líkingum sem tengjast sauðkindum og búskap. Skýringasagnir um uppruna slíkra líkinga eru oft skemmtilegar.

Oft er talað um svarta sauðinn í einstökum fjölskyldum. Ekki er vitað um uppruna þess.

Orðtakið að launa einhverjum lambið gráa er komið úr Heiðarvígasögu. Hafði Styr drepið Þórhalla bónda á Jörfa og gefið Gesti syni hans gráan heimalning sem ekki vildi þrífast í föðurgjöld. Nokkru síðar læddist Gestur að honum við matarborðið og launaði honum lambið gráa með því að höggva í höfuð hans með öxi.

Nöfn sauða

Misjafnt er á milli manna hvort þeir nefna kindurnar sínar eða ekki. Þess eru dæmi að menn sem eigi mörg hundruð kindur gefi þeim öllum nöfn og þekki þær allar með nafni. Eins eru til sagnir um kindur sem hafa lært að hlýða kalli. Hitt er líka til og býsna algengt að menn láti sér nægja að tala um kind númer 949 og lamb númer 603 eða bara þessa flekkóttu þarna. Það þýðir þó engan veginn að þeim þyki eitthvað minna vænt um kindurnar sínar en þeim sem gefa þeim nafn.

Þegar bóndinn ákveður að finna gott nafn á kindina sína hefur hann úr mörgu að velja. Hægt er að nefna hana eftir lit, útliti, líkamlegum og andlegum eiginleikum, uppruna, atvikum úr ævi hennar, sveitungum, ættingjum, stjórnmálamönnum og mörgu öðru. Oftast er sú aðferð notuð að nefna kindina eftir lit, t.d. Flekka, Eygla, Móra eða Grána, og eftir útliti, t.d. Hyrna, Kolla eða Litla-Ljót.

Í dag eru yngstu fjáreigendurnir sennilega duglegastir við að gefa kindunum nöfn. Telja má fullvíst að Barbie og Pocahontas leynist í einhverju fjárhúsi landsins. Og einhver hrúturinn hefur eflaust fengið sæmdarheitið Æðstistrumpur þó það nafn hafi líklega ekki ratað í fjárbókhald og skýrsluhald bóndans.

Nafnavísur

Það hefur lengi þekkst að menn geri það að gamni sínu að raða nöfnum kindanna sinna saman í vísur. Þessar nafnavísur birtust í Frey árið 1919:

Flegða, Héla, Frenja, Dröfn,
Flekka, Sauðarhyrna,
Gletta, Hnúða, Gráleit, Sjöfn,
Gullbrá, Fjóla, Birna.

Bláleit, Hekla, Blökk, Dilkhvít
Bjartleit, Ófríð, Næpa,
Svanhvít, Drífa, Sóley, Hít,
Selja, Bússa, Læpa.

Margir bændur gera þetta enn í dag og sumir eru stórvirkari en aðrir. Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir bóndi og skólastjóri á Hólmavík og starfsmaður Sauðfjársetursins nokkur sumur er ein af þeim sem hefur gaman af því að setja nöfn kindanna sinna saman í vísur. Hér eru vísur sem Hrafnhildur setti saman árið 2004:

Brúða, Tása, Birta, Snör,
Blíða, Gæfa, Skrudda,
Þoka, Skvísa, Þúfa, Vör,
Þruma, Næla, Budda.
 
Bóla, Spíra, Bolla, Rösk,
Bylgja, Þota, Sletta,
Skotta, Krúna, Skeifa, Vösk,
Skrúfa, Fjöður, Bletta.
 
Bjalla, Frekna, Blesa, Grá,
Brúska, Gulla, Þribba,
Sóley, Toppa, Súla, Gná,
Sunna, Trilla, Gibba.
 
Kríma, Grána, Krulla, Dís,
Krumpa, Hlóra, Svala,
Snotra, Perla, Snoppa, Flís,
Snerpa, Dimma, Vala.
 
Ófeig, Kisa, Ugla, Svört,
Elding, Rófa, Skella,
Móra, Freyja, Móleit, Björt,
Móbotna og Rella.
 
Ekki reyndist auðvelt mál
öllum koma í vísu
Eftir sitja Ögn og Nál
og yngri dóttir Skvísu. 

Um hrúta

Það er flestum bændum kappsmál að eiga sem allra besta hrúta, enda liggur mikið við í ræktunar-starfinu. Einn góður hrútur getur breytt fjárstofninum á bænum mjög til hins betra. Á tímabili voru hrútasýningar ómissandi þáttur í lífi margra bænda. Á mörgum stöðum hafa þær nú verið lagðar niður, aðallega í varúðarskyni vegna smithættu.

Hrútasýningar

Fyrsta hrútasýningin sem vitað er um hér á landi fór fram árið 1879 í Eyjafirði. Búnaðarfélag Íslands sá um að skipuleggja sýningarnar og árið 1931 voru settar fastar reglur um sýningahaldið. Ráðunautar félagsins ferðuðust um landið og komu við á stöðum þar sem ákveðið hafði verið að hafa sýningu.

Í dag er algengt að ráðunautar fari á hvern bæ til að meta hrúta. Fullorðnir hrútar eru yfirleitt dæmdir eftir karlkyns afkvæmum á svokölluðum afkvæmasýningum á haustin. Við afkvæmamatið er notuð svokölluð ómsjá en í henni er skoðað vöðva- og fitulag á spjaldhrygg auk þess sem lömbin eru mæld á hefðbundinn hátt. Þetta er mikilvægt framþróun og hefur ásamt sæðingum hjálpað til við að gera íslenska fjárstofninn enn betri.

Hrútasýning í Árneshreppi

Hrúturinn veginn og metinn

Á hrútasýningar koma fagmenn og ráðunautar og dæma hvern hrút fyrir sig. Dómararnir mæla spjaldbreidd, lengdina á leggnum og brjóstmál. Áður fyrr var hæð á herðakambi mæld, sumir gera það enn í dag. Ullin er skoðuð, flest allir vöðvar þuklaðir og hrúturinn vigtaður. Hann er yfirleitt betri því þyngri sem hann er, en þó má hrúturinn ekki vera með of mikinn kvið.

Blóðugur bardagi

Þegar hrútar koma út á vorin berjast þeir sem mest þeir mega. Þá er algengt að blóð renni úr höfðum og dæmi eru um að hrútar hafi legið rotaðir eftir langan slag. Einstaka sinnum hefur það meira að segja gerst að hrútar hafi verið stangaðir til bana. Það er þó fátítt, sem betur fer.

Þessa hegðun hrútanna er erfitt að skýra með óyggjandi hætti. Kannski er það gleðin sem fylgir nýfengnu frelsi sem fær þá til að bregða á leik. Það gæti líka verið að þeir séu ergilegir eftir langan vetur í fjárhúsunum og þurfi að fá útrás. Líklegast er þó að bardaginn sé þáttur í valdabaráttu. Þeir séu að útkljá hver verði leiðtoginn yfir sumarið því hrútar eru vanir að halda hópinn.

Þjóðtrú tengd hrútum

Sumir notuðu lambhrúta frekar til ánna, þótt búmönnum þætti það ekki ráðlegt. Víða héldu menn að lömbin yrðu stærri undan lambhrútum en fullorðnum.

Ef bónda fæðast fleiri hrútar en gimbrar fyrsta búskaparárið verður sá mikill fjármaður.

Ef bóndi missir hrút fyrstan kinda á nýju ári, mun sá missa fleiri kindur það ár.

Forystufé

Forystufé finnst hvergi í heiminum nema á Íslandi. Það er talið hafa meira vit í kollinum en aðrar kindur og áður fyrr var það tvöfalt dýrara en annað fé. Þetta fé getur leitt fjárhóp og stundum smalamenn í gegnum hríðarbyl, vatnsföll, snjóþekju og aðrar ófærur og er veðurglöggt með afbrigðum.

Ef forystuféð fer síðast frá húsi eða stendur innst í garðanum þegar kindurnar eru settar út er von á stormi, ef ekki er það fyrst út. Forystuféð er ákveðið og kjarkmikið og sagt er að það geti haldið stórum fjárhóp í einum hnapp þegar stormur skellur á, með því að hlaupa í kringum hópinn.

Flest forystufé er þægilegt í umgengni og meðfærilegt, en þó eru á því undantekningar. Sumt forystufé er svo skapmikið að það veldur vandræðum.

Flestir bændur sem eiga forystufé taka ástfóstri við einstaka sauði. Þeir eiga það oftast sameiginlegt að vera á einhvern hátt sérstakir í útliti og fasi. Sumir þeirra hafa jafnvel orðið víðfrægir fyrir að bjarga stórum fjárhópum og leitarmönnum úr lífsháska.

Sjúkdómar í sauðfé

Fjárkláði

  • Hefur tvisvar borist til landsins, 1760 og 1855, í bæði skiptin með innfluttu fé.
  • Var læknaður með böðun en var ekki útrýmt að fullu og hefur eimt eftir af honum fram á síðustu ár.

Mæðiveiki og garnaveiki

  • Bárust til landsins með innflutningi Karakúlfjár árið 1933.
  • Votamæði og þurramæði var útrýmt með stórfelldum niðurskurði þar sem landinu var skipt niður í fjárskiptahólf.
  • Á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum er unnið að rannsóknum á garnaveikinni. Þar var fundið upp og framleitt bóluefni gegn garnaveiki.

Ormaveiki

  • Hefur oft gert usla hér á landi.
  • Iðraormar valda skitupest sem magnast þegar fé er illa fóðrað. Ormalyf gegn þeim kom til sögunnar á fjórða áratug seinustu aldar.
  • Lungnaormar valda vanþrifum í fé og ormalyf eru notuð gegn þeim.

Höfuðsótt og sullaveiki

  • Ásótti sauðfé mjög áður fyrr.
  • Höfuðsótt stafaði af því að kindin át egg höfuðsóttarbandormsins og lirfan úr egginu gróf sér leið úr meltingafærum til heila kindarinnar. Þar bjó hún um sig og varð að vökvafylltri blöðru sem nefnist sullur.
  • Unninn var bugur á sullaveikinni með skipulagðri hundahreinsun.

Riðuveiki

  • Riða er ólæknandi taugasjúkdómur í sauðfé sem hefur verið þekktur hér á landi frá því á 19. öld. 
  • Riðuveiki er þekkt víða um land og enn finnast nýir staðir sem hún hefur stungið sér niður á.
  • Til varnar hefur fé verið skorið niður á bæjum þar sem riða hefur fundist og nálægum bæjum.
  • Fjárflutningar frá sýktum svæðum til ósýktra eru bannaðir.

Bráðafár og garnapest

  • Bráðafár er bráðdrepandi bakteríusjúkdómur sem einkum leggst á lömb og veturgamalt fé á haustin.
  • Bráðafár hefur verið þekkt í landinu frá 18. öld.
  • Garnapest er einnig kölluð garnaeitrun, túnveiki, flosnýrnaveiki og þarmalömum.
  • Garnapest kemur fyrir á öllum tímum árs og í fé á öllum aldri og er bráðdrepandi. Til er bóluefni við bæði við bráðafári og garnapest.

Hvanneyrarveiki

  • Baktería veldur Hvanneyrarveiki sem kemur stundum upp þegar fé er fóðrað á lélegu votheyi og stundum í samband við skemmt þurrhey.
  • Er einnig kölluð votheysveiki.

Hættur og ógnir

Háski steðjar að sauðkindinni

Það eru fjölmargar ógnir sem sauðkindin þarf að glíma við í daglegu lífi sínu. Oft þarf hún að taka á honum stóra sínum til að halda velli í heimi sem versnandi fer. Sem betur fer hafa styrjaldir verið fátíðar hér á landi síðustu árhundruðin, en erlendis eru jarðsprengjur og slík andstyggðarfyrirbæri eitt af því sem ærnar óttast mest.

Hér á landi leggst fækkun bænda sjálfsagt þungt á blessaðar skepnurnar. Það er öllum ljóst að þegar bændum fækkar þá fækkar sauðfénu einnig. Og eftir því sem fleiri kindur eru í eigu hvers bónda hefur hann minni tíma fyrir hverja og eina.

Sjálfsagt eru lélegir bílstjórar helsta banamein sauðkinda á sumrin. Eftir að bifreiðar fóru að þeysa um vegi landsins á hraða sem varla er nokkurri skepnu skiljanlegur, hefur mörg sauðkindin orðið fyrir bíl. Lömbin eiga erfiðast með að verja sig, enda kunna þau ekki umferðarreglurnar.

Alltaf er nokkur hætta á að kindur fari afvelta úti í haganum. Ef kindur lenda á bakinu, geta þær enga björg sér veitt. Þær liggja þá bara áfram þannig og sprikla með fótunum út í loftið, nema einhver hjálplegur velti þeim við. Það verður að gerast áður en þær örmagnast eða krummi ræðst á þær og kroppar í augun eða magann.

Víða um land eru pyttir og djúpir skurðir sem sauðfé getur álpast út í. Þá þarf vart að spyrja að leikslokum.

Í óveðrum á haustin er alltaf hætta á að kindur fenni. Það hefur líka komið of oft fyrir að þær hafi drukknað í ám í stórrigningum eða lent á flæðiskeri og drukknað þegar þær hafa verið að næla sér í gómsætar þangblöðkur til bragðbætis.

Vargfuglinn er líka vágestur. Til eru fjölmargar sagnir af því að haförninn, konungur fuglanna, hafi náð sér í nýfædd lömb þegar sauðburður stóð sem hæst. Slíkt er að vísu fátítt nú á tímum þar sem flestar ær bera inni og ernir eru sjaldséðir gestir víðast hvar um landið.

Tófan er býsna klók við að krækja sér í lömb og eins hafa hundar átt það til að drepa kindur. Það er þó sem betur fer frekar sjaldgæft að hundar gerist dýrbítar.

Fjörulallar

Sjávar- og þjóðtrúarkvikindi sem nefnist Fjörulalli og oftsinnis hefur sést, einkum við Breiðafjörðinn, getur verið skaðlegur kindum um fengitímann. Borið hefur við að þetta fyrirbæri gangi þá á land og leitist við að gagnast ánum. Afleiðingarnar eru þær að ærnar eignast vanskaplinga.

Einn veturinn bar mjög á ásókn Fjörulalla í sauðkindur við Breiðafjörð um brundtíðina og áttu þá margar þeirra ýmislegan óskapnað vorið eftir. Til dæmis var munnur neðan á hálsi, sex eða jafnvel átta fætur á lömbum og löng rófa eins og á hundi.

Sauðfjárveikivarnir

Þótt Strandalömb séu þekkt fyrir hreysti og heilbrigði er íslenska sauðkindin langt frá því að vera ónæm fyrir sjúkdómum af ýmsu tagi. Þeir hafa valdið miklum skaða í sauðfjárrækt víða um land og nokkrum sinnum hefur þurft að grípa til þess örþrifaráðs að skera niður stóran hluta af sauðfjáreign landsmanna.

Stórir faraldrar eins og fjárkláðinn á 18. og 19. öld vöktu bændur og yfirvöld til umhugsunar um margt sem betur mætti fara. Glögglega kom í ljós hversu mikilvæg sauðfjárræktin var fyrir þjóðarbúið, enda olli fyrri kláðinn miklu tjóni. Þá var um 60% fjár í landinu skorið niður og gríðarlegur skortur varð á mjólk, kjöti og ull.

Seinni kláðafaraldurinn varð til þess að settar voru upp varnarlínur á heiðum og í byggðum og varðmenn voru í skálum allt sumarið fram að göngum. Því fé sem kom af sýktum svæðum yfir varnar­línuna var lógað strax og tök voru á. Byrjað var að setja upp varnargirðingar árið 1937 til að vinna á mæðiveikinni sem þá herjaði á landið. Þær girðingar hafa síðan verið notaðar til að einangra og afmarka fjárskiptasvæði, en unnið hefur verið að því að fjarlægja þær undanfarin ár á vissum svæðum og stækka einangruð svæði – t.a.m. eru Vestfirðir allir í einu hólfi í dag.

Dýralækningar fyrr á öldum

Talsvert er vitað um þær aðferðir sem bændur notuðu til að vinna á sjúkdómum fyrr á öldum. Margar þeirra koma nútímafólki eflaust spánskt fyrir sjónir, t.d. var í katólskum sið notað vígt vatn og fyrirbænir til lækninga, líklega með misjöfnum árangri.

Í galdrafári 17. aldar kenndu menn oft kukli óvinveittra nágranna um þá kvilla sem hrjáðu fé þeirra. Og það er ljóst að trúin spilaði stórt hlutverk í lækningum á mönnum og dýrum. Það sést vel á því að ráðið sem talið var best til að verjast bráðapest, sem stráfelldi kindur víða um land á 18. öld, var að setja róðukross úr tré undir taðhnaus sem settur var innan við þröskuld fjárhúsanna. Þá var ófært fyrir pestina þangað inn.

Sumir höfðu önnur ráð, eins og það sem Jónas á Hrafnagili lýsir í bók sinni um íslenska þjóðhætti: Þegar fjárdauði kemur í hús er heillaráð að taka hrútsvinstur, sjóða hana með víni og gefa sauðum í drykk; bjuggust menn þá við að faraldurinn hyrfi.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: