Liðnir viðburðir

Furðuleikarnir 2004

Fyrstu Furðuleikar á Ströndum sem sögur fara af voru haldnir sunnudaginn 20. júní 2004 í blíðskaparveðri á Sævangsvelli. Sauðfjársetrið stóð fyrir skemmtuninni. Hæfilega mannmargt var á leikunum, sjálfsagt um 100 manns eða svo, en enginn vafi leikur á að þeir sem mættu skemmtu sér konunglega við allra handa trúðslæti, grín og glens, bæði börn og fullorðnir. Félagar úr Leikfélagi Hólmavíkur settu skemmtilegan svip á skemmtunina, en margir þeirra mættu uppáklæddir og tóku þátt í hinum ýmsustu keppnisgreinum. Börnin fengu andlitsmálun við hæfi á staðnum og einstaka fullorðinn fékk líka málningu á smettið. Furðuleikarnir 2004 gengu býsna vel og voru menn kátir með daginn. Aðsókn hefði getað verið betri, en veður var ljómandi gott og þeir sem mættu skemmtu sér konunglega.

Keppnisgreinar voru nærri 10 talsins. Keppt var meðal annars í Prikhlaupi, Belgjahoppi, Afturgöngu, Öskri, Kvennahlaupi, Girðingastaurakasti og Trjónufótbolta. Loks mældu menn hver Strandamanna hefði breiðustu tunguna og kom þar ýmislegt óvænt í ljós, m.a. að tungubreiddin er ættgeng. Á milli drukku menn kaffi og borðuðu dýrindis krásir í kaffistofu setursins eða keyptu sér sætindi í sjoppu Sauðfjársetursins en þetta er fyrsta sumarið sem sjoppa er rekin á staðnum.

Á Furðuleikunum var margt að sjá. Kynnir og stjórnandi hátíðarinnar, hinn virðulegi þjóðfræðingur Jón Jónsson, klæddi sig að sjálfsögðu í sparipeysufötin í tilefni dagsins. Frænka Charley´s mætti á svæðið og reyndi sig í girðingastaurakasti. Hún bætti reyndar kvennametið í greininni um 20 sentimetra, en fljótlega eftir að keppni lauk bárust vísbendingar um að frænkan væri í raun og veru karlmaður í dulargerfi og var þá metið fellt úr gildi. Er því met Svanhildar Jónsdóttur enn í gildi, en það er 12 metrar sléttir. Hins vegar jafnaði Alfreð Símonarson húsvörður og skólabílstjóri heimsmetið í girðingastaurakasti í karlaflokki, sem er 17,49 m. Er hann nú meðeigandi í metinu ásamt Guðbrandi Sverrissyni á Bassastöðum. Ragnheiður bassi reyndi sig í öskurkeppninni, en hafði ekki sigur að þessu sinni þrátt fyrir góð tilþrif. Lýður Jónsson frá Gili öskraði margfalt hærra en allir aðrir keppendur. Hann er líka í æfingu, enda í kirkjukórnum. Keppni í Belgjahoppi var jöfn og spennandi, en keppt var í nokkrum riðlum. Í yngri flokki varð Hadda Borg Björnsdóttir frá Þorpum hlutskörpust, en í eldri flokki fór Jón Gústi Jónsson með sigur af hólmi.