Liðnir viðburðir

Íslandsmeistaramót í hrútadómum – stórhátíð (2013)

Laugardaginn 17. ágúst var Íslandsmótið í hrútadómum haldið í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Mótið fer þannig fram að keppt er í flokki vanra og óvanra hrútaþuklara. Til skoðunar eru 4 hrútar og þurfa keppendur að raða þeim upp í sömu gæðaröð og dómnefnd setur þá í fyrir keppni. Keppendur hafa ákveðnar grunnupplýsingar um gripinn, þunga, lengd framfótar og ómmælingu. Dómnefndin var skipuð þremur ráðunautum frá RML. Viðburðurinn hófst kl. 14:00, kaffihlaðborð í Kaffi Kind frá 14:00-18:00.

Alls voru 48 keppendur sem tóku þátt, 26 í flokki óvanra og 22 í flokki vanra. Ásamt því að raða hrútunum í rétta gæðaröð þurftu keppendur í flokki óvanra að rökstyðja val sitt en keppendur í flokki vanra að stiga hrútana með sama dómsskala og ráðunautar nota við sauðfjárdóma. Af 48 keppendum voru 14 keppendur sem röðuðu hrútunum í sömu gæðaröð og dómarar, 6 í flokki óvanra og 8 í flokki vanra.

Hrútarnir sem menn skoðuðu komu frá bæjunum Broddanesi og Húsavík. Meðal rökstuðnings í flokki óvanra hrútaþuklara var meðal annars að finna rökstuðning eins og: „Vöðvamikill eins og græni kallinn Shrek“, „Full rýr á bakhlutann en myndi sóma sér ágætlega sem síðvetrarhangikjöt“, „Pollrólegur og eflaust góður á grillið“ og „Slarkfær í súpukjöt“.

Í flokki óvanra hrútaþuklara var það Maríus Þorri Ólafsson, ættaður frá Hólmavík sem bar sigur úr bítum. Í öðru sæti varð Andri Snær Björnsson frá Ytra-Hóli í Skagabyggð og þriðji var Gunnlaugur Þorsteinsson ættaður frá Hornsstöðum í Laxárdal.

Í flokki vanra hrútaþuklara var það Kristján Albertsson frá Melum í Árneshreppi sem sigraði og er þetta í fjórða skipti sem hann verður Íslandsmeistari. Í öðru sæti var Úlfar Sveinsson frá Ingveldarstöðum í Skagafirði og í þriðja sæti var svo Björn Torfason frá Melum í Árneshreppi. Að keppni lokinni var haft á orði að efna þyrfti til nýrrar samkeppni um farandverðlaunagrip þar sem Kristján hlyti eiginlega að vera búinn að vinna hann til eignar og jafnframt ætti hann rétt á því að vera í dómnefndinni á næsta Íslandsmeistaramóti.