Liðnir viðburðir

Meistaramót í hrútadómum 2004

Meistaramót í hrútadómum – stórhátíð – var haldin í Kirkjubólsrétt og Sævangi 22. ágúst. Keppt var í tveimur flokkum, flokki vanra hrútaþuklara og þeirra sem óvanir eru að leggja mat á hrúta. Dýrindis kaffihlaðborð, leikir á vellinum, glens og gaman. Þetta var annað árið sem keppnin var haldin.

Framkvæmdin er með þeim hætti að dómnefndin sem samanstendur af valinkunnum ráðunautum og hrútaþuklurum tekur nokkra hrúta til skoðunar áður en keppni hefst með aðstoð allra nýtísku tóla og tækja og raðar fjórum þeirra í gæðaröð. Yfir þessari röð dómnefndarinnar hvílir síðan mikil leynd. Hrútarnir sem valið var úr að þessu sinni komu frá bændum í Tungusveit, frá bæjunum Tröllatungu, Húsavík, Miðdalsgröf og Þorpum.

Keppt er í tveimur flokkum. Annar er hugsaðir fyrir vana bændur og fleiri vitringa, en hinn fyrir óvana sem þurfa þó að vita hvað snýr aftur og fram á hrútnum. Þeir sem eru vanir hrútadómum þurfa að stiga hrútana á hefðbundinn hátt, gefa þeim einkunn fyrir einstaka þætti og raða þeim í gæðaröð. Hjálpartæki eru engin, aðeins má nota hendurnar og önnur meðfædd skynfæri. Þeir óvönu þurfa ekki að nota stig, en gera tillögu um röðina á hrútunum – hver sé bestur og hver næstbestur og svo koll af kolli. Keppendur í báðum hópum rökstyðja dóma sína og vegur snjall rökstuðningur og lýsingar þungt, sérstaklega í flokki óvanra.

Keppendur að þessu sinni voru yfir 30 talsins, en á annað hundrað manns mætti á svæðið og fylgdist með og nutu lífsins í blíðskaparveðri. Verðlaunahafar voru víðsvegar að, en á síðasta ári hirtu Strandamenn öll verðlaun sem í boði voru. Nú var aðeins einn Strandamaður í hópi sigurvegara – Jón Valur Jónsson frá Kirkjubóli (4 ára) sem vann 3. verðlaun í flokki óvanra hrútaþuklara með góðri aðstoð móður sinnar. Í öðru sæti í þeim flokki varð Svala Einarsdóttir og í fyrsta sætinu lenti Guðlaug Elíasdóttir, en þær komu frá Bolungarvík.

Í flokki þeirra sem vanir eru hrútadómum varð Gréta Karlsdóttir á Efri-Fitjum í Húnaþingi vestra í þriðja sæti, en jafnir í fyrsta sæti urðu Eiríkur Helgason í Stykkishólmi og Björn Sigurvaldason á Litlu-Ásgeirsá í Víðidal. Deila þeir því heiðrinum og titlinum hrútameistari Sauðfjársetursins næsta árið.

Vanir hrútaþuklarar:

1.-2. Eiríkur Helgason í Stykkishólmi og Björn Sigurvaldason á Litlu Ásgeirsá í Víðidal, Húnaþingi vestra.
3. Gréta Karlsdóttir, Efri-Fitjum Húnaþingi vestra

Óvanir:

  1. Guðlaug Elíasdóttir frá Bolungarvík
  2. Svala EInarsdóttir frá Bolungarvík
  3. Jón Valur Jónsson á Kirkjubóli

Góð verðlaun voru í boði í báðum flokkum – gefin af Kaupfélagi Skagfirðinga, Sölufélagi Austur-Húnvetninga, Álafossi og heimafyrirtækjunum Strandagaldri og Sauðfjársetrinu. Dómnefndina skipuðu Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur hjá BÍ, Svanborg Einarsdóttir hjá Ráðunautaþjónustu Húnaþings og Stranda og Lárus Birgisson hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands. Kaffihlaðborð var á boðstólum eins og venjan er á Sauðfjársetrinu í Sævangi á sunnudögum og í tilefni af hrútadómunum var einnig boðið upp á bláber og rjóma.

Sumardagskrá Sauðfjársetursins 2004 var styrkt af Menningarborgarsjóði.