Sláturtíðin

Hér gefur að líta umfjöllun um slátrun og sláturtíðina, sem er órjúfanlegur hluti af starfi bóndans allt frá upphafi sauðfjárbúskapar. Tækni í þessum geira hefur fleygt mjög fram undanfarna áratugi, ekki síst þegar haft er í huga að í byrjun síðustu aldar var enn slátrað víða á svokölluðum blóðvelli; frumstæðu sláturhúsi undir beru lofti.

Haustskurður

Fyrr á tímum var fé alltaf slátrað heima, í síðari hluta októbermánaðar. Þá er grasið fölnað, veturinn skammt undan og kindurnar hættar að vaxa eftir sumarið. Þá er líka farið að kólna í veðri. Vegna kuldans gátu bændur fyrri tíma geymt sláturafurðirnar lengi í útihúsunum. Það kom sér vel því það tók oft langan tíma að vinna mat úr öllum afurðunum. Víða var gömlum kindum slátrað þegar lengra var liðið á vetur því margir trúðu því að þær væru alltaf að fitna, þó hinar legðu af.

Skorið og svæft

Áður fyrr slátruðu flestir fé sínu úti. Svæðið sem slátrað var á var kallað blóðvöllur. Sláturhúsin komu ekki til sögunnar fyrr en í byrjun 20.aldar, en þá voru margir farnir að slátra fé sínu í fjárhúsum og skemmum.

Lengst af var fé skorið, þ.e. skorið á háls og höfuðið tekið af. Þessi aðferð var fljótleg ef verkfærin voru góð og beitt, og menn vönduðu sig. Síðan var stungið á mænuna, það var kallað að svæfa.

Helgrímur voru einnig notadrjúgt hjálpartæki. Helgríman var sett yfir hausinn á kindinni og út úr henni stóð pinni sem var sleginn inn í höfuðkúpu kindarinnar með hamri. Margir héldu áfram að nota helgrímu eftir að byssur komu til sögunnar, því byssuskot voru dýr.

Í dag nota flestir byssur til að slátra fé sínu, flestir bændur eiga kindabyssur og í sláturhúsum eru notaðar loft- eða rafmagnsbyssur.

Sláturhús á Ströndum

Sláturhúsin á Ströndum hafa verið fjölmörg í gegnum tíðina. Lengst af voru fjögur hús með fulla vinnslu  á Ströndum á hverju hausti en nú er ekkert þeirra starfandi.

Borðeyri

Árið 1912 byggði Richard P. Riis sláturhús á Borðeyri sem var eitt það fullkomnasta sem gert hafði verið á þessum tíma. Þetta sláturhús var notað til ársins 1968. Á árunum 1962-1965 reisti Kaupfélagið nýtt sláturhús, og var þá gamla sláturhúsið notað sem fjárrétt fyrir hið nýja. Nýja húsið var notað fram á lok 20. aldar, en þá lagðist slátrun af á Borðeyri.

Óspakseyri

Kaupfélag Bitrufjarðar hóf slátrun á Óspakseyri frá 1945, en þá var lagður þangað vegur. Áður hafði verið slátrað í fjárhúsunum í Guðlaugsvík – þangað var bílfært og kjötið komst fljótlega til Reykjavíkur. Sláturhúsið á Óspakseyri var tekið til gagngerra endurbóta á árunum 1988-89 og stóðst þá fyllilega samanburð við bestu sláturhús landsins. Slátrun á Óspakseyri var hætt árið 2003 og var sláturhúsið því það síðasta, í bili að minnsta kosti, sem var starfrækt á Ströndum.

Hólmavík

Um 1910 ráku bæði Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Riis-verslun sláturhús á Hólmavík. Milli þeirra var mikil samkeppni þar til kaupfélagið keypti sláturhús Riis árið 1937. Sláturhús Kaupfélagsins brann 1931 og nýtt var byggt árið eftir. Á árunum 1955-59 var slátrað í gömlu frystihúsi á Kaldrananesi, en þá var byggt stórt sláturhús á Hólmavík, og slátrað þar í fyrsta sinn haustið 1959. Árið 1973 var skipt um allar innréttingar og keðjufláning tekin upp. Norðvesturbandalagið og Goði sáu um rekstur og slátrun í húsinu síðustu árin. Síðasta slátrun á Hólmavík fór fram haustið 2000.

Sláturhúsin á Ströndum hafa verið fjölmörg í gegnum tíðina. Lengst af voru fjögur hús með fulla vinnslu  á Ströndum á hverju hausti en nú er ekkert þeirra starfandi.

Norðurfjörður

Í Norðurfirði í Árneshreppi var reist sláturhús laust eftir síðustu aldamót. Verzlunarfélag Norðurfjarðar stóð fyrir byggingu þess. Þar var einnig saltað kjöt, en saltkjöt var aðalútflutningsvara félagsins. Húsin voru síðan bætt og haldið vel við næstu áratugi. 1962 var tekið í notkun nýtt sláturhús. Sláturhúsið á Norðurfirði var alla tíð rekið af Kaupfélagi Norðurfjarðar, en hætt var að slátra í því árið 1992.  

Líf og fjör í sláturhúsi

Þeir sem hafa unnið í sláturhúsi eða komið þangað vita að þar ríkir afar sérstök stemmning. Virðulegir bændur sem mæta alvarlegir í bragði til vinnu sinnar haga sér oft á tíðum eins og lítil börn og ráða sér ekki fyrir kæti og gleði. Það er stundum eins og sláturhúsin smiti sumt fólk af einhvers
konar sprell­sjúkdómi sem enginn kann lækningu við.

Gott dæmi um þetta er vatnsslagurinn. Það tíðkaðist lengi í mörgum sláturhúsum landsins að fara í harðan vatnsslag síðasta dag sláturtíðar. Þetta voru oft harðar rimmur og stundum sló í brýnu milli manna, en í flestum tilfellum endaði slagurinn í góðu, fyrir utan það að allir voru rennandi blautir.

Þjóðtrú tengd slátrun

Það var víða siður þegar kind er slátrað að láta flagbrjóskið í blóðið; sá sem fær það í blóðmörs-sneiðinni sinni þegar blóðmör er gefinn um haustið mun enga kind missa vetrarlangt og þó hann vanti kind á heimtir mun hún koma.

Þegar kind er slátrað skal sá sem það gerir ávallt sletta höfðinu við strjúpann aftur og mæla fyrir munni sér: Guð uppveki aðra og gefi þeim sem átti. Á þá eigandanum að bætast kind aftur.

Þegar fénaður er skorinn til slátrunar skal gæta þess ævinlega að skera með flóði, því þá verður blóðið þriðjungi meira í skepnunni.

Það kom fyrir að snörlaði í kindunum þegar skorið var. Af því er komið máltækið „að skera hrúta” um þá sem hrjóta hátt og mikið.

[Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar]

Kaflarnir í fróðleikskistunni: