Förufólk og flakkarar

Laugardaginn 26. júní kl. 14 var sýningin: Förufólk & flakkarar, opnuð á Sauðfjársetrinu í Sævangi, í litlu sérsýningaherbergi. Á sýningunni er sagt frá förufólki sem flakkaði um Ísland fyrr á öldum. Þetta var fjölbreyttur hópur og umtalaður. Í sögunum sem sagðar voru um þau, eru þau stundum líkari þjóðtrúarverum en raunverulegum manneskjum.

Þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson eru höfundar sýningarinnar og sögðu frá gerð hennar og einnig förufólkinu sjálfu við opnunina. Þá var á boðstólum kaffihlaðborð í Sævangi á milli kl. 14-18 og var hvort tveggja hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar Hamingjudagar á Hólmavík, sem Sauðfjársetrið tekur jafnan þátt í. Að þessu sinni var opnunarviðburðurinn í Sævangi færður frá sunnudegi fram á laugardag vegna veðurútlits, með aðeins dags fyrirvara. Þetta varð til þess að undirbúningur við uppsetninguna var í nokkurri tímaþröng, en allt tókst þó í tæka tíð.

Á sýningunni eru textaspjöld, myndir og fróðleikur um förufólkið. Textar á veggjum eru á íslensku, en á ensku í möppum. Einnig er leikin heimildamynd á sýningunni, nýr leikþáttur sem tekinn var upp í tilefni af sýningunni og Leikfélag Hólmavíkur tók þátt í að gera. Myndin var tekin upp í baðstofunni á Byggðasafninu á Reykjum. Ung listakona, Sunneva Guðrún Þórðardóttir frá Laugarholti við Djúp, málaði síðan heilmikla veggmynd á tvo veggi í sérsýningarherberginu.

Sýningin Förufólk & flakkarar

Hönnun, textagerð og uppsetning: Dagrún Ósk Jónsdóttir & Jón Jónsson
Umbrotsvinna: Jón Jónsson
Þýðingar: Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar
Veggmynd: Sunneva Guðrún Þórðardóttir
Myndefni: Að mestu leyti úr póstkortasafni Jóns Jónssonar og bókinni Á mörkum mennskunnar
Prentun: Pixel

Förufólk fyrri alda – leikin heimildamynd

Handrit leikinnar heimildamyndar: Jón Jónsson & Dagrún Ósk Jónsdóttir
Leikarar: Leikfélag Hólmavíkur – Eiríkur Valdimarsson, Sigfús Snævar Jónsson, Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir og Jón Jónsson
Tökumaður og framkvæmdastjóri: Dagrún Ósk Jónsdóttir
Framleiðandi: Sauðfjársetur á Ströndum – Ester Sigfúsdóttir
Klipping & frágangur: Sigfús Snævar Jónsson & Dagrún Ósk Jónsdóttir
Tökustaður: Byggðasafnið á Reykjum (bestu þakkir fyrir að hleypa hópnum í baðstofuna)

Leikhópurinn í baðstofunni á Byggðasafninu á Reykjum – ljósmynd: Gunnar Rögnvaldsson