Útgáfuverkefni

Myndir og minningar af Ströndum (væntanleg fyrir jól 2022)

Bókin Myndir og minningar af Ströndum er gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum. Yfir 40 manns skrifa í bókina og fjalla um lífið á Ströndum, frá ólíkum sjónarhornum. Hver höfundur valdi viðeigandi ljósmynd sem þeim þykir vænt um til að láta fylgja sínum pistli.

Hér er að finna skemmtilegar og fjölbreyttar frásagnir Strandafólks, sem bregður upp svipmyndum frá síðustu öld. Daglegt líf, eftirminnilegar persónur og einstakir viðburðir eru rifjaðir upp. Sögur, ljóð og vísur fá að fljóta með, enda er sagnamennska íbúum Stranda í blóð borin.

Verkefnastjóri er Ester Sigfúsdóttir og í ritstjórn voru þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir, Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson.

Stefnt er að því að bókin komi út í byrjun desember 2022. Áhugasamir geta keypt eintak hjá Sauðfjársetrinu s. 693-3474 (Ester), saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða með því að panta í gegnum Facebook.

.

Álagablettir á Ströndum

Fyrir jólin 2021 kom út bókin Álagablettir á Ströndum og var útgáfuhófið haldið sunnudaginn 12. desember í Hnyðju á Hólmavík og einnig sent út á Facebook síðu Sauðfjársetursins. Höfundar bókarinnar eru þjóðfræðingarnir og feðginin Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð.

.

Hægt er að kaupa bókina beint frá Sauðfjársetri á Ströndum sem er útgefandi ásamt Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Einnig er bókin til sölu í verslunum Pennans Eymundsson í Reykjavík, Hafnarfirði og á Ísafirði og Akureyri. Hafið samband við saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða s. 693-3474 (Ester) ef þið viljið eignast bókina.

Í bókinni Álagablettir á Ströndum er að finna fróðleik og sögur um álagastaði á Ströndum, þjóðtrú og bannhelgi. Þetta geta ýmist verið grasblettir eða klettaborgir, hólar og haugar eða jafnvel ár og vötn. Á Ströndum eru fjölmargara þjóðsögur og sagnir sem tengjast slíkum stöðum. Margir álagablettir eru tengdir huldufólki, en aðrir fornköppum, fjársjóðum eða jafnvel tröllum. Stundum eru þetta grasblettir sem tilheyra huldum bættum og bannað er að slá. Þeim sem brýtur gegn banninu hefnist fyrir. Hér eru sagðar áhugaverðar og krassandi sögur, stundum sorglegar, um álagabletti á Ströndum, yfirnáttúruleg öfl og þjóðtrú sem hefur lifað með þjóðinni.

.

Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar

Jólabókín 2020

Fyrir jólin 2020 kom út bókin Strandir 1918 og var útgáfuhófið haldið sunnudaginn 6. desember, í beinni útsendingu á Facebook vegna Covid19. Sagt var frá bókinni og höfundar lásu upp. Sauðfjársetur á Ströndum er útgefandi ásamt Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Bókin er nú, ári seinna, uppseld hjá útgefanda, en fáein eintök óseld af bókinni má finna í verslun Pennans Eymundsson í Austurstræti (og eitt eintak á Akureyri).

Í bókinni Strandir 1918 er að finna fræðigreinar, ferðasögur og dagbókarbrot frá þessum tíma. Ritstjóri er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og hún er einnig höfundur greinar í bókinni, eins og Eiríkur Valdimarsson, Hafdís Sturlaugsdóttir og Jón Jónsson. Frásagnir frá ferðum um Strandir eru eftir Guðmund Hjaltason alþýðufræðara og Sigurð Sigurðsson ráðunaut. Einnig eru birt dagbók Þorsteins Guðbrandssonar á Kaldrananesi og hluti dagbókar eftir Níels Jónsson á Grænhól á Gjögri í bókinni. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ritaði formála að bókinni.

Árið 1918 var merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Ísland fékk fullveldi og ýmsir stórviðburðir settu svip á mannlíf og samfélag. Hér er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og fræðigreinar. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum.