Gamlar myndir frá Hólmavík – úr myndamöppum Karls E. Loftssonar (2021)

Sýning í Hnyðju á Hólmavík á hátíðinni Vetrarsól 15.-17. janúar 2021.

Á Covid-tímum grípa menn til ýmissa ráða til að halda myndasýningar. Á menningarhátíðinni Vetrarsól sem haldin var í byrjun árs 2021 var slík sýning í gangi á Hólmavík og aðstæður og uppstilling frekar óvenjuleg. Um er að ræða útisýningu á stórum sjónvarpsskjá í glugganum á salnum Hnyðju í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Þar rúllaði alla helgina sýning á gömlum ljósmyndum frá Hólmavík úr myndamöppum Karls E. Loftssonar frá Hólmavík. Gestir sáu sýninguna svo í gönguferð eða bílferð um bæinn og höfðu margir gaman af. Sumir höfðu þó á orði að þeir hefðu ennþá verið að að reyna að þekkja fólkið á myndunum þegar næsta mynd ruddist inn á skjáinn og sú fyrri hvarf.

Sýningin var gerð í samvinnu Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Sauðfjársetursins og er hluti af verkefninu Menningararfur í ljósmyndum sem Safnasjóður styrkir. Frekari vinna og miðlun á myndum Karls E. Loftssonar er framundan, en þarna er um að ræða mikið og dýrmætt myndasafn.