Strandir 1918 (2018-2020)

Sýning opnuð haustið 2018 og uppi til vors 2020, í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslendinga.

Í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar 2018 var sett upp sögusýning með yfirskriftinni Strandir 1918 í veitingasalnum Kaffi Kind. Sýningin var opnuð 11. nóvember og var uppi til vors 2020. Á henni eru texta- og myndaspjöld með fróðleik um árið 1918 og ljósmyndum af Ströndum frá þeim tíma, sem var sérstaklega safnað saman og gert yfirlit um í tengslum við sýninguna í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Þar voru einnig teikningar grunnskólabarna á Ströndum og vídeóverk sem var samstarfsverkefni við skólana í tengslum við verkefnið. Frekari fróðleikur og myndbönd skólabarna tengdust þessum teikningum teikningum og komu í ljós í spjaldtölvum með þar til gerðu appi, þegar myndavél tölvunnar var beint að teikningunni.

Á borðum í veitingasalnum voiu undir gleri heimildir úr fasteignamati á jörðum í Strandasýslu frá árunum 1916-1918. Einnig var aðgengilegt lesefni í heftum sem hluti af sýningunni, þar var að finna greinar um Strandasýslu og frásagnir um ferðir um Strandir frá þessum árum. Einnig voru í möppum samantektir úr þremur dagbókum Strandamanna frá 1918 sem voru skrifaðar upp í heild eða að hluta í tengslum við verkefnið. Margt úr þessum heimildum kom að góðu gagni þegar ráðist var í framhaldsverkefni við útgáfu bókarinnar Strandir 1918 haustið 2020.