Hvítabirnir í heimsókn (2022-)

Vorið 2022 var sett upp ný sýning á listasviðinu í Sævangi. Hvítabirnir í heimsókn var yfirskrift hennar og um er að ræða samstarfsverkefni viðurkenndu safnanna á Vestfjörðum, Sauðfjársetursins, Byggðasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti í Örlygshöfn og Byggðasafnsins á Ísafirði. Með þeim tók Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa þátt í verkefninu og stýrði því. Þessi nýja sýning leysti af hólmi sýninguna Álagablettir sem var tekin niður um vorið, en bók um það efni kom út um síðustu jól.

Sýningin var opnuð formlega í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík þann 26. júní, en var reyndar komin upp allnokkru fyrr og fólk byrjað að skoða hana strax í maímánuði. Á formlegri opnun var einnig haldið upp á 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum með afmælishátíð og afmæliskaffihlaðborði. Fjöldi fólk hefur séð sýninguna og allir skólar í nágrenninu komið í skólaheimsóknir og fengið safnfræðslu.

Hvítabjarnakomur á Strandir

Á nýju sýningunni á Sauðfjársetrinu er fjallað um hvítabjarnakomur til Vestfjarða og á Strandir sérstaklega, en allmörg dýr hafa rekið á fjörur Vestfirðinga eða gengið á land í gegnum tíðina. Samkvæmt þeim heimildum sem varðveist hafa eru nefnd um 140 dýr. Bjarndýrakomur eru alltaf ævintýralegir viðburðir og þeim fylgja magnaðar sögur. Í þeim munar yfirleitt sáralitlu að illa fari. Þetta á einnig við um ísbjarnakomur á Strandir og eftirminnilegar sögur eru t.d. sagðar um gamalt bjarndýr sem fellt var í Drangavík 1932, svokallaðan rauðkinnung, en slíkar skepnur eru sagðar allra ísbjarna grimmastir og hættulegastir.

Um sýninguna

Á sýningunni eru bæði bjarndýrafeldur og uppstoppaður hvítabjörn, hvort tveggja í eigu Byggðasafns Vestfjarða. Útskornir rekaviðarbirnir eru einnig á sýningunni, en þeir koma frá Guðjóni Kristinssyni frá Dröngum í Árneshreppi. Einnig eru þarna söguskilti og margvíslegar myndir og fróðleikur. Textar eru á íslensku og ensku.

Sýningin var styrkt af Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða og fá þeir aðilar bestu þakkir fyrir!