Hvítabirnir í heimsókn (2022-2024)

Vorið 2022 var sett upp ný sýning á listasviðinu í Sævangi og var hún uppi til vors 2024, en fór þá áfram í hringferð um Vestfirði og stoppar nú á Minjasafninu í Hnjóti við Örlygshöfn. Hvítabirnir í heimsókn er yfirskrift hennar og um er að ræða samstarfsverkefni viðurkenndu safnanna á Vestfjörðum, Sauðfjársetursins, Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti í Örlygshöfn og Byggðasafnsins á Ísafirði. Með þeim tók Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa þátt í verkefninu og stýrði því. Þessi nýja sýning leysti af hólmi sýninguna Álagablettir og vorið 2024 tók sýningin Ullarfléttan við af henni.

Sýningin var opnuð formlega í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík þann 26. júní 2022, en var reyndar komin upp allnokkru fyrr og fólk byrjað að skoða hana strax í maímánuði. Á formlegri opnun var einnig haldið upp á 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum með afmælishátíð og afmæliskaffihlaðborði. Fjöldi fólk hefur séð sýninguna og allir skólar í nágrenninu komið í skólaheimsóknir og fengið safnfræðslu.

Hvítabjarnakomur á Strandir

Á sýningunni er fjallað um hvítabjarnakomur til Vestfjarða og á Strandir sérstaklega, en allmörg dýr hafa rekið á fjörur Vestfirðinga eða gengið á land í gegnum tíðina. Samkvæmt þeim heimildum sem varðveist hafa eru nefnd um 140 dýr. Bjarndýrakomur eru alltaf ævintýralegir viðburðir og þeim fylgja magnaðar sögur. Í þeim munar yfirleitt sáralitlu að illa fari. Þetta á einnig við um ísbjarnakomur á Strandir og eftirminnilegar sögur eru t.d. sagðar um gamalt bjarndýr sem fellt var í Drangavík 1932, svokallaðan rauðkinnung, en slíkar skepnur eru sagðar allra ísbjarna grimmastir og hættulegastir.

Um sýninguna

Á sýningunni eru bæði bjarndýrafeldur og uppstoppaður hvítabjörn, hvort tveggja í eigu Byggðasafns Vestfjarða. Útskornir rekaviðarbirnir eru einnig á sýningunni, en þeir koma frá Guðjóni Kristinssyni frá Dröngum í Árneshreppi. Einnig eru þarna söguskilti og margvíslegar myndir og fróðleikur. Textar eru á íslensku og ensku.

Sýningin var styrkt af Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða og fá þeir aðilar bestu þakkir fyrir!