Náttúrubarnaskólinn

Náttúrubarnaskólinn er stórmagnað hliðarverkefni við rekstur Sauðfjársetursins. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum námskeiðum á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem börn og fullorðnir læra um náttúruna. Við gerum allskonar skemmtilega hluti til dæmis skoða seli, fugla, hreiður og blóm, förum í leiki, föndra og mála, búum til fuglahræður, sendum flöskuskeyti og sjóðum jurtaseyði. Náttúrubarnaskólinn var settur á laggirnar sumarið 2015 og hefur starfað á hverju sumri síðan. Verkefnið hefur gengið mjög vel og ríkir mikil hamingja með viðbrögðin sem uppátækið hefur fengið. 

Náttúran er ævintýraheimur og þar gerist ýmislegt skrítið og skemmtilegt. Í Náttúrubarnaskólanum er blandað saman útiveru, leikjum og fróðleik, þar lærir maður með því að sjá og snerta, gera og upplifa.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og yfirnáttúrubarn sér um Náttúrubarnaskólann. Hún hefur mótað starfsemi hans og hugmyndafræðina sem starfað er eftir. Síðustu árin hafa fleiri komið að kennslu og umsjón með náttúrubarnanámskeiðunum á sumrin, m.a. Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir þjóðfræðingur og Magnea Dröfn Hlynsdóttir íþróttakennari. Eins hafa ýmsir viðburðir verið haldnir á vegum Náttúrubarnaskólans sem henta bæði eldri og yngri; gönguferðir, kvöldvökur, sérstök námskeið, spurningaleikir og margt fleira.

Á hverju sumri er líka haldin glæsileg þriggja daga Náttúrubarnahátíð sem er fjölskylduhátíð þar sem gestir, börn og fullorðnir, fá kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn á fjölbreyttum viðburðum sem einkennast af útivist, fróðleik og skemmtun. Flottir listviðburðir eru einnig á dagskránni, sirkus, leiklist, tónlist, smiðjur og margt fleira. Frítt er á hátíðina og alla viðburði, en hátíðin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og stundum fleiri aðilum. 

Tónlist, spennandi smiðjur, gönguferðir og útivist.

Endilega hafið samband við Dagrúnu í síma 661-2213 eða á natturubarnaskoli@gmail.com til að fá frekari upplýsingar.

Náttúrubarnaskólinn á vefnum: www.natturubarnaskolinn.is

Facebókarsíða Náttúrubarnaskólans: facebook.com/natturubarnaskolinn