Sauðfé og sveitafólk á Ströndum (2018-)

Fastasýning Sauðfjársetursins var endurnýjuð frá grunni nýlega og ber nú titilinn: Sauðfé og sveitafólk á Ströndum. Gerðir voru nýir sýningartextar, myndefni skipt út og bætt verulega við sjónræna framsetningu, gerð heimildamynd, settir upp skjáir, búnir til þrautagluggar fyrir börnin og gerðar fleiri umbætur. Nú er meiri áhersla lögð á leiki, fræðslu og fjör fyrir börn. Heimilislegu sjónvarpshorni var komið upp, þar sem líka er hægt að skoða myndir í möppum, bókahillu bætt við, sett upp smásýningarsvæði fyrir lítil sérsöfn í hillunni miklu og margt fleira lagfært.

Sama flekasystem er þó enn í notkun og sumt fékk að halda sér, eins og fjárhúsahornið og skemmuskotið. Gripirnir eru margir þeir sömu, en var fækkað umtalvert til að gera umgang fyrir hreyfihamlaða auðveldari og nokkrum nýjum munum bætt við. Nýja sýningin var opnuð 2018 og leysti af hólmi sýninguna Sauðfé í sögu þjóðar sem hafði verið uppi frá opnun 2002.