Náttúrubörn á Ströndum (2016-2019)

Sýningin Náttúrubörn á Ströndum var opnuð á Hamingjudögum á Hólmavík árið 2016, í veitingasal Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík, og var upphaflega aðeins hugsuð sem sumarsýning. Sýningin var þó ekki tekin niður fyrr en árið 2019 og þá höfðu þær breytingar orðið að það var ekki lengur Kaupfélagið sem var með verslun á Hólmavík, en Krambúðin var tekin við. Þannig breytast hlutirnir stundum.

Á sýningunni Náttúrubörn á Ströndum voru textaspjöld á tveimur tungumálum og ljósmyndir stækkaðar á striga. Sýningin var mjög aðgengileg vegna staðsetningarinnar og fjölmargt fólk skoðaði hana. Verkefnið var að hluta til hugsað sem markaðssetning á Náttúrubarnaskólanum og tókst það ljómandi vel. Nú hefur efnið á sýningunni verið flutt hingað inn á vefinn og er aðgengilegt hér að neðan.

Náttúrubörn á Ströndum

Sýning sett upp af Sauðfjársetri á Ströndum / Náttúrubarnaskólanum
Ljósmyndir: Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir
Höfundar texta: Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson
Umbrot og uppsetning: Jón Jónsson

Á Hamingjudögum 2016 fékk Sauðfjársetur á Ströndum afhenta Lóuna – menningarverðlaun Strandabyggðar og tóku mæðgurnar Ester Sigfúsdóttir forstöðumaður Sauðfjársetursins og Dagrún Ósk Jónsdóttir yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum við verðlaununum. Sauðfjársetrið hafði áður fengið menningarverðlaunin 2013 og sérstök heiðursverðlaun árið 2012.