Nokkrar rannsóknir

Strandir 1918

Í kringum sýninguna Strandir 1918 og viðburði tengda henni var unnin heilmikil rannsókn og heimildasöfnun um þetta sögulega ár, í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Þrjá kvöldvökur voru haldnar, með áherslu á náttúru, félagslíf og barnamenningu.

Áfram var unnið með efnið og fyrir jólin 2020 kom síðan út bókin Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar, einnig í samvinnu þessara aðila. Þetta var frumraun beggja í bókaútgáfu. Bókin er seld “beint frá safni” og hægt að panta hana með skilaboðum á fésbókarsíðu Sauðfjársetursins, í netf. saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða í síma 693-3474 (Ester). Nokkur eintök eiga líka að vera til hjá Eymundsson syðra og á Akureyri. Aðeins örfá eintök af bókinni eru óseld.

Álagablettir

Heilmikil rannsókn á álagablettum var framkvæmd árið 2013, í tengslum við opnun sýningar um efnið á listasviðinu í Sævangi. Þjóðfræðingarnir Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir settu sýninguna upp. Rannsókninni hefur verið haldinni opinni síðar og meira efni og viðbótum safnað, bæði úr gagnasöfnum, handritum, prentuðum heimildum og með viðtölum. Eins hafa verið haldnar margar skemmtilegar þjóðtrúarkvöldvökur í tengslum við sýninguna og fluttir fyrirlestrar um þjóðtrúartengd efni.

Nú hefur einnig verið gefin út bókin Álagablettir á Ströndum árið 2021, á grunni þessarar sýningar og þeirra viðbótarrannsókna sem gerðar hafa verið. Til þess hafa fengist styrkir frá Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Sterkum Ströndum. Eiga þessir sjóðir þakkir skyldar fyrir. Hér er tengill á umfjöllun um bókina og annar á lista um álagastaði á Ströndum og sögur og heimildir um þá. Hugmyndin er að bæta þar inn þeim sögum og upplýsingum sem berast eftir útgáfu bókarinnar.

Réttir

Tvenns konar rannsóknir hafa verið gerðar, tengdar réttum á Ströndum, að frumkvæði Sauðfjársetursins. Annars vegar er um að ræða sögulega rannsókn um hvar skilaréttir hafa staðið og á hvaða tíma.

Hins vegar var gerð spurningakönnnun um réttir og samtímasiði og venjur í kringum þær á netinu. Mjög góð þátttaka var í þeirri könnun og margt í þeim svörum kom örlítið á óvart.

Sveitasíminn og hringingar á bæjunum

Spurningalisti var gerður um sveitasímann, en lítið barst af svörum, nema hvað nokkur árangur náðist í að safna saman gömlu hringingunum á bæina í þessu kerfi. Taka þarf viðtöl til að fylgja þessu efni betur eftir og hver veit nema að tækifæri til þess gefist þegar hlaðvarp Sauðfjársetursins fer í loftið. Vel á minnst: Okkur sárvantar gamaldags sveitasíma á sýninguna!

Dráttarvélaöldin

Rétt fyrir miðja 20. öld hófst dráttarvélaöld á Ströndum og gjörbreytti öllum búskaparháttum. Sett var upp smásýning um dráttarvélar á Ströndum og dálítil rannsókn fór fram í tengslum við það. Einnig var gerð smárannsókn um vélakostinn í héraðinu og búinn til spurningalisti, þegar sýningin var sett upp. Lítið skilaði sér af svörum við listanum og þarf að fylgja upplýsingasöfnuninni betur eftir með viðtölum.

Sævangur í 60 ár! Afmælishátíð 2018

Þegar Sævangur var sextíu ára var haldin dálítil afmælishátíð og safnað efni með viðtölum og spurningalista á netinu. Tíu árum fyrr hafði verið safnað efni fyrir smásýningu um 50 ára afmælið. Við viljum gjarnan eignast fleiri eldri myndir og safna saman minningum frá Sævangi og byggja upp safnið okkar um Sævang.