Álagastaðir

Á árinu 2021 kom út bókin Álagablettir á Ströndum, eftir feðginin Dagrúnu Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson, þjóðfræðinga á Kirkjubóli. Samhliða var opnuð hér síða með lista um staði á Ströndum sem tengjast álögum og álagasögum. Ætlunin er að bæta við ábendingum um álagabletti og sögur sem berast eftir útkomu bókarinnar, auk þess að setja inn heimildir sem eru á bak við hvern stað sem nefndur er í lista aftast í bókinni.

Álagastaðir á Ströndum

Hrútafjörður

Þórdísarnibbur (Grænumýrartunga) – haugur og fjársjóður Þórdísar Skeggjadóttur

Gvendarbrunnur (Fagrabrekka) – uppspretta vígð af Guðmundi góða

Litlihóll (Hrafnadalur) – haugur Hrafns landnámsmanns

Ljótunn (Ljótunnarstaðir) – haugur Ljótunnar landnámskonu

Neðstibrunnur (Ljótunnarstaðir) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Kollur (Kollsá) – haugur Kolls landnámsmanns

Kollur landnámsmaður á Kollsá í Hrútafirði er heygður í hól á túninu, niðri við sjó, ásamt skipi sínu. Ekki má raska við haugnum eða slá hann og er það ekki gert enn þann dag í dag. Þegar ábúendaskipti urðu á Kollsá fyrir nokkrum árum, lagði fyrri ábúandi ríka áherslu á það við þau sem tóku við að þau myndu passa upp á Koll.

Heimildir:
Munnlegar heimildir: Hannes Hilmarsson (2013), Ragnar Pálmason (2013).
Örnefnaskrá
Strandapósturinn 2023.

Álagablettur í túni (Feykishólar) – hefðbundinn álagablettur

Gvendarbrunnur (Kolbeinsá) – uppspretta vígð af Guðmundi góða við verbúðir á Kolbeinsárnesi

Heimild:
Strandapósturinn grein um Kolbeinsárnes.

Bitra

Þambá (Þambárvellir) – álög á ánni

Í fyrndinni bjó kona ein, Þömb að nafni, á Þambárvöllum í Bitru. Er sagt að hún hafi verið hálftröll og átt tvo syni. Þeir voru eitt sinn að leik við foss neðst í Þambá þegar þeir féllu í ána og drukknuðu. Heitir fossinn síðan Strákafoss. Þömb lagði þá þau álög á Þambána að aldrei myndi neitt veiðast í henni framar, en heldur enginn drukna í henni aftur.
Þau urðu afdrif Þambar að hún gekk með ánni lengst fram í dal með allt sitt gull og gersemar og faldi í hyl undir fossi einum. Steypti hún sér svo í fossinn sem síðan heitir Kerlingarfoss.

Munnlegar heimildir: Magðalena Guðlaugsdóttir (SÁM 1970).

Bolli (Brunngil) – álagablettur

Fyrirmælin sem fylgja álagablettum og þær samskiptareglur sem á að virða geta verið mjög nákvæmar. Um álagablettinn Bolla sem uppi í hlíðinni framan við Brunngil í Bitru er sagt að þar megi ekki slá grasið eða rista torf. Þar mátti heldur ekki vera með háreysti og ekki tína ber til að fara með heim, en það var í lagi að tína upp í sig. Þar mátti heldur ekki beita kúnum, nema bara á sunnudögum og það var alltaf gert.

Skiphóll (Brunngil) – haugur og fjársjóður Gull-Bárðar

Rauf (Snartartunga) – álagablettur og huldufólksbústaður

Illakelda (Hvítarhlíð) – falinn fjársjóður, eirketill fullur af gullpeningum

Hvítarleiði (Hvítarhlíð) – haugur Hvítar og fjársjóður

Kýrhamar (Skriðinsenni) – klettur vígður af Guðmundi góða

Kollafjörður

Broddi (Broddadalsá) – dys Brodda landnámsmanns og fjársjóður

Undir Ennishöfða, utan við Broddadalsá í Kollafirði, er t.d. dys eða leiði fornkappans Brodda, við samnefnda kletta. Sögur segja að þar sé Broddi gamli grafinn með gullinu sínu og gersemum. Munnmæli segja að stórhættulegt sé að reyna að nálgast fjársjóðinn og nánast dæmt til að mistakast. Förumaðurinn Tómas víðförli átti þó að hafa reynt að grafa eftir fjársjóðnum á seinni hluta 19. aldar og mistekist og segir sagan að hann hafi aldrei orðið samur eftir það. Í munnmælunum kemur fram að hugsanlega geti óspjölluð meyja sem situr þögul á gröfinni heila haustnótt með óskírt ungabarn með sér náð fjársjóðnum, ef hún láti ekki glepjast af neinum þeim furðum sem fyrir bera þá nótt.

Mókollshaugur (Þrúðardalur) – haugur Kolla landnámsmanns og fjársjóður

Framarlega í Mókollsdal í Kollafirði, undir Haugbjörgum, er haugur landnámsmannsins Kolla sem byggði Kollafjörð og bjó á Felli. Segir sagan að hann sé heygður þar sem hamar hans kom niður, þegar hann fleygði honum aftur fyrir sig af hlaðinu á Felli. Reynt hefur verið að grafa eftir gersemum Kolla, en urðu leitarmenn frá að hverfa vegna sjónhverfinga sem þeir urðu fyrir.

Munnlegar heimildir: Þorvaldur Jónsson (SÁM 1973), Jón Jónsson (2013), Hafdís Gunnarsdóttir (2013).

Græna rúst (Undraland) – álagablettur, tóftir

Góðilækur (Steinadalur) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Ljúfuholt (Ljúfustaðir) – haugur Ljúfu landnámskonu

Álfahvammur (Ljúfustaðir) – álagablettur

Álfahvammur er ofan við bæinn, í Bæjargilinu. Þar upp undir brún (frá bænum séð) er þessi hvammur og neðst í honum er Álfakirkja, klettastapi. Ofan við hann er hvammur sem ekki má slá. Bjarni Oddsson bóndi á Ljúfustöðum sló hvamminn tvisvar og í bæði skiptin fauk heyið eftir að það var orðið þurrt og búið að flytja það heim og urðu því engin not af því. Eins missti Bjarni stórgripi í bæði skiptin. Hefur hvammurinn ekki verið slegin síðan.

Heimildir:
Örnefnaskrá:
Munnlegar: Torfi Halldórsson (2013).
Prentaðar: Bragi Jónsson frá Hoftúnum (1971): Refskinna I, Akranes, Hörpuútgáfan, s. 112-113.

Kastalinn (Hlíð) – álagablettur

Álagablettir sem tengjast huldufólki eru oft í grennd við heimili þeirra og tengjast búskapnum og margar sögurnar á Ströndum eru frá fyrri hluta 20. aldar. Ein slík saga er til dæmis um Kastalann, litla grösuga klettaborg við Hlíð í Kollafirði. Í Kastalanum býr huldufólk og þjóðsögur sögðu að hann væri magnaður álagablettur sem ekki mætti slá, huldufólkið ætti grasið á honum og nýtti fyrir sinn bústofn. Börnin á bænum máttu þó leika sér á og við klettinn án þess að verða meint af, þótt háreysti og grjótkast hafi líklega verið illa séð þar eins og við aðrar álfabyggðir. Oddur Lýðsson sló Kastalann fyrst eftir að hann flutti að Hlíð árið 1914. Þá var hjá honum kona sem varaði hann við því að slá blettinn og sagði frá álögunum, en hann tók lítið mark á slíkri hjátrú. Þetta búskaparár varð hann fyrir miklu óláni með skepnur og missti stórgrip og var það tengt álagablettinum.

Seint á búskaparferli sínum sló Oddur Kastalann aftur, en varð þá einnig fyrir óláni þegar kvíga sem hann hafði selt en ekki afhent drapst.

Heimildir:
Munnlegar:
Jóna Þórðardóttir (2015), Jón Gústi Jónsson (2013).
Prentaðar:
Bragi Jónsson frá Hoftúnum (1971): Refskinna I, Akranes, Hörpuútgáfan, s. 113.

Kollafjörður – álög á firðinum, enginn drukknar og ekki veiðist

Tungusveit

Álfahvammur (Hvalsá) – álagablettur

Hvalsárdrangur eða stór steinn ofan við Rauðabergið utan við Grindarkrókinn (Hvalsá) – veltur niður ef 13 bræður fara saman undir

Folaldshjalli (Þorpar) – álagablettur og draugasaga

Snasahjalli (Þorpar) – álagablettur

Gestur (Klúka) – haugur Gests landnámsmanns og fjársjóður

Gullhóll (Tröllatunga) – fjársjóður falinn í jörðu

Heilmikill hóll er í túninu í Tröllatungu í Tungusveit sem heitir Gullhóll. Sú trú að þar hafi verið falið gull og gersemar er forn og hefur verið býsna sterk. Á Gullhól eru álög og bannað að hrófla við honum eða grafa í hólinn. Þá sýnist mönnum að kirkjan eða bærinn í Tröllatungu standi í ljósum logum.

Vitað er um tvær tilraunir til að grafa í hólinn. Á upplýsingaöld fengu danskir stúdentar leyfi frá Danakonungi til að leita að gullinu. Sagt er að þeir hafi grafið í dágóðan tíma, enda er töluverð laut í holinn sem snýr heim að bænum. Uppskeran varð rýr, grjót og aftur grjót, og hurfu þeir frá. Gísli Jónatansson, kenndur við Naustavík, og annar ungur drengur grófu dálítið í hólinn snemma á 20. öld. Segir Gísli að hann sé viss um að sjaldan hafi gullgrafarar verið hræddari við iðju sína en þá.

Munnlegar heimildir: Árni Daníelsson (2013), Birkir Þór Stefánsson (2013), Jón Jónsson (2013).

Gvendarbrunnur (Tröllatunga) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Gvendarfoss (Tröllatunga) – blessaður af Guðmundi góða, enginn drukknar

Vonarholt – þar mátti sami bóndi ekki búa lengur en 10 ár

Eiga þau álög að hvíla á jörðinni Vonarholti í Arnkötludal að þar megi enginn búa í meira en 10 ár samfleytt, annars verði hann fyrir einhverju óláni.

Hólmavíkur- & Hrófbergshreppur

Huldufólksbrekka (Víðidalsá) – álagablettur og bústaður huldufólks

Kolluhylur í Húsadalsá (Víðidalsá) – má ekki veiða í, eign tröllkonu

Stúlkuhóll (Þiðriksvöllum) – bústaður huldukonu

Þiðriksvallavatn (Vatnshorn) – álög á vatninu

Gvendarbrunnur (Kálfanes) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Kálfanesskeiði (Hólmavík) – álagablettur, síðari tíma saga

Álagablettur ofan við Borgarbraut (Hólmavík) – síðari tíma saga

Svartafljót (Ósi) – álög á hyl í ánni, má ekki veiða

Hriminn (Fitjum) – veiðibann

Heilsubót (Hrófberg) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Gvendarbrunnur (Staður) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Steingrímshaugur (Staður) – haugur og fjársjóður Steingríms trölla

Á fjallinu yfir Stað í Steingrímsfirði er haugur landnámsmannsins Steingríms trölla. Þar er hann grafinn með gersemum sínum og valdi staðinn sjálfur, með það fyrir augum að sjá sem víðast um landnám sitt. Lagði hann þau álög á, að ekki myndi drukkna maður á Steingrímsfirði þaðan sem sæist frá haugnum. Þessi trú hefur ekki gengið eftir.

Reynt hefur verið að grafa í hauginn eftir fjársjóði Steingríms trölla, en menn urðu frá að hverfa því svo virtist sem kviknað væri í kirkjunni á Stað. Þó segir sagan að hringur hafi áður náðst af kistu í haugnum sem síðar var lengi notaður sem hurðahringur á Staðarkirkju.

Munnlegar heimildir: Þorvaldur Jónsson (SÁM 1973), Jón Jónsson (2013).

Álagablettur (Grænanes) – í túninu, brekku við lækinn

Blettur í Þjóðbrókargili (Gilstaðir) – álagablettur

Kaldrananeshreppur

Selá – blessuð af Guðmundi góða

Markmið Guðmundar góða var að blessa ána svo enginn myndi í henni farast.

Stekkurinn (Bassastöðum) – búsetuálög, þegar nýr bóndi slær Stekkinn verður óhapp

Lönin í Lanarvatni (Hella) – fjársjóður og haugur Úrsúlu

Haugsvatnshólmi (Hella) – haugur Kols bónda

Horn á túninu við kirkjugarðinn (Drangsnes) – slægja sem huldufólkið á

Strútar og Strútshvammur (Drangsnes) – klettar og hvammur, bústaður huldufólks

Álfhóll (Grímsey) – álagablettur

Gvendarbrunnur (Grímsey) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Einbúinn (Bæ) – álagablettur og huldufólksbústaður

Svíri (Bjarnarnes) – álagablettur og huldufólksbústaður

Heilladysin (Bjarnarnes) – dys sem gæfa fylgir

Kross (Kaldrananes) – trékross á klettahöfða sem ekki má hrófla við

Höfðinn (Kaldrananes) – fjársjóður falinn í jörðu

Álagablettur í túni (Hvammur) – bannað að slá

Bólbalinn (Goðdal) – álagablettur sem ekki má raska

Árið 1948, þann 12. desember féll mikið snjóflóð í Goðdal í Bjarnarfirði og lést allt heimilisfólkið í flóðinu, nema Jóhann Kristmundsson bóndi. Strax tæplega mánuði eftir slysið er snjóflóðið tengt við eyðileggingu á álagabletti. Þá birtist viðtal við Jóhann Kristmundsson í Vísi sem ber yfirskriftina Harmleikur í Goðdal: Gekk í berhögg við álögin – og nú er bærinn í rúst (Vísir, 1949: 5-7). Í viðtalinu er Jóhann spurður af blaðamanni Vísis hvort það sé satt að íbúðarhúsið í Goðdal hafi verið byggt á álagabletti sem ekki mátti raska eða hreyfa við. Jóhann svarar því játandi, álagablettur hafi verið á svokölluðum Bólbala eða Bólbarði, örnefnið er mismunandi eftir heimildum, og þar mátti engu raska. Hann segist í viðtalinu hafa gengið í berhögg við þessa arfsögn og byggt þar húsið sem nú væri í rúst (Vísir, 1949: 7).

Goðahaugur (Goðdal) – haugur Goða landnámsmanns

Mýrarblettur í túni (Goðdal) – álagablettur

Jóhann segir einnig í viðtalinu 1929 að í Goðdal séu fleiri en einn álagablettur, þar sé t.d. álagablettur í mýri innantúns sem ekki mátti slá. Ef hann væri sleginn áttu kýr að deyja af heyinu og hestar að detta niður dauðir.

Svartagil (Trékyllisheiði) – gil sem 20 eiga að hrapa í

Svartagil á Trékyllisheiði er dæmi um álagastað þar sem 20 manns eiga að hrapa og farast í gilinu. Sögunni fylgir þá að þegar hafi 19 manns hrapað þar til bana. Sagt er að draugar komi úr Svartagili heim að bæjum í Selárdal í vondum veðrum.

Karlsvöllur (Svanshóll) – fjársjóður falinn, jákvæð álög; taða af vellinum hrekst ekki

Kvíaklettabrekka (Svanshóll) – álagablettur

Gvendarlaug hins góða (Klúka) – vígð af Guðmundi góða

Höfðinn (Brúará) – huldufólksbyggð og álagablettur í brekku neðan við

Í miklum klettahöfða við Brúará í Kaldrananeshreppi er líka sögð vera mikil álfabyggð. Fyrir neðan klettana er svo brekka sem bannað er að slá og rista torf í. Sagt er að hestar á Brúará hafi haldið sig frá brekkunni og ekki viljað bíta grasið þar. Nálægt miðri 20. öld var nýr ábúandi að reisa fjárhús rétt neðan við álfabyggðina og risti hann torf úr blettinum. Eins voru steinar teknir úr klettaveggnum. Nóttina eftir varð fólkið á bænum vart við hávaða og þegar út var komið morguninn eftir var það sem búið var að hlaða af fjárhúsunum hrunið, en veður var gott. Trúin á álagablettinn reyndist þá svo sterk að torfinu og grjótinu var skilað í brekkuna og klettana, eins og mögulegt var, áður en tekið var aftur til við framkvæmdir við fjárhúsin og efnið þá sótt annað.

Kvíanes (Asparvík) – álagablettur

Bannað að slá eða raska, þá mun verra hljótast af.

Álfhella eða Álfhelluklettur (Eyjum) – huldufólksbústaður sem ekki má hreyfa við

Þursalækur (Eyjum) – lækur blessaður af Guðmundi góða

Kaldbakskleifin – leiðin undir Kaldbakshornið, blessuð af Guðmundi góða

Gullhóll (Kleifar) – álagablettur, huldufólksbústaður, fjársjóður

Tréfótshaugur (Kleifar) – haugur Önundar tréfóts og skip í öðrum haug

Torfholt (Kaldbakur) – álagablettur

Heilsubót (Kaldbakur) – uppspretta blessuð af Guðmundi góða

Árneshreppur

Þórðarlækur (Byrgisvík) – blessaður af Guðmundi góða

Blettur við Torfholt (Byrgisvík) – álagablettur

Dalholtsmýri (Kolbeinsvík) – álagablettur, bannað að slá

Steinn við Seljá (Veiðileysa) – bústaður huldufólks, bannað að raska

Blettur í Hádegisdal (Veiðileysa) – álagablettur bannað að slá

Húsholt (Veiðileysa) – bannað að hrófla við

Grafamýri (Veiðileysa) – falin gullkista

Fýlsdalur (Veiðileysa) – álagablettur

Veiðileysufjörður – álög á firðinum, fiskleysi og enginn drukknar í lendingu

Ein slík saga á Ströndum segir frá kerlingunni Kráku sem bjó í Krákutúni við Veiðileysufjörð og átti tvo stráka sem stunduðu sjóróðra. Einhverju sinni þegar veiði var treg og vöntun á beitu, skáru strákarnir bita úr lærinu á kerlingu sem var niðursetningur á bænum til að nota á öngulinn. Fiskaðist þá afbragðs vel, en áður en sjóferðinni lauk hafði niðursetninguinn náð fram hefndum og magnað upp ofsaveður svo að báturinn fórst og bræðurnir drukknuðu báðir í lendingunni. Kráka móðir þeirra lagði þá þau álög á Veiðileysufjörð að þar myndi aldrei framar fást bein úr sjó, en heldur ekki neinn drukkna þar í lendingu. Kráka hljóp svo upp með bæjaránni að fossi rétt fyrir ofan bæinn og steypti sér þar fram af klettunum. Heitir fossinn síðan Krákufoss. Synir hennar voru dysjaðir á mel við fjarðarbotninn og köstuðu vegfarendur jafnan steini í dysina þegar þeir áttu leið hjá. Dysin finnst ekki lengur, grjótið hefur líklega verið notuð í vegagerð á 20. öldinni.

Heilsubót (Kambur) – uppspretta og lækur vígður af Guðmundi góða

Álfasteinn (Djúpavík) – huldufólksbústaður

Óveiðisá og Búrfellsvatn (Reykjarfjörður) – álög á ánni og vatninu

Búhóll (Reykjarfjörður) – álagablettur, huldufólksbústaður

Grænaflöt (Naustvík) – álagablettur

Klimpumýri við Klimpur (Stóra-Ávík) – álagablettur og huldufólksbústaður

Skyrkollusteinn (Stóra-Ávík) – bústaður huldufólks, má ekki raska

Kleppa (Finnbogastaðir) – hóll sem má ekki slá eða raska

Finnbogastaðamýrar (Finnbogastaðir) – álög frá Kleppu að mýrarnar yrðu blautar alla tíð

Grundir (Finnbogastöðum) – álög frá Kleppu að yrðu graslitlar

Álfhóll (Melar) – álagablettur

Stórhóll (Melar) – álagablettur

Urðirnar – leiðin úr Melavík í Norðurfjörð, vígð af Guðmundi góða

Snoppa (Steinstúni) – álagablettur

Hveramýri (Krossnes) – álagablettur, má ekki slá

Graslág við Egilsgjótu (Krossnes) – álagablettur

Grýlublettur (Felli) – álagablettur sem ekki má slá

Blettur í slægjulandi (Munaðarnes) – álagablettur

Blettur Milli Garða (Munaðarnes) – álagablettur

Sjálfberg (Munaðarnes) – klettur sem hrynur yfir þá sem eru með háreysti

Eirnýjarhaugur (Eyri í Ingólfsfirði) – haugur Eirnýjar tröllkonu, verndarvættur fjarðarins

Valleyri (Seljanes) – fjársjóður Gríms trölla grafinn í jörðu

Hamramýri (Ófeigsfjörður) – álagablettur sem ekki má slá

Kerlingartóft (Drangar) – tóft sem má ekki slá

Gvendarbrunnslækur (Drangar) – lækur, blessaður af Guðmundi góða

Gvendarbrunnur (Skjaldabjarnarvík) – uppspretta, blessuð af Guðmundi góða

Þröskuldagil (Skjaldabjarnarvík) – gil sem 20 eiga að hrapa í og vantar 1 eða 2 uppá töluna