Safnið

Sauðfjársetrið er skemmtilegt safn með fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Það er staðsett í félagsheimilinu Sævangi rétt sunnan Hólmavíkur við Innstrandaveg nr. 68, skammt frá vegamótunum við Djúpveg nr. 61. Sýningin er opin frá 10:00-18:00 alla daga yfir sumarið, en einnig er hægt að fá hana opnaða yfir veturinn með því að hringja í síma 693-3474 eða senda póst í netfangið saudfjarsetur@strandir.is. Hópar eru hjartanlega velkomnir á sýninguna og auðsótt er að leigja Sævang undir hvers kyns fundi, veislur, námskeið eða aðrar samkomur, jafnt sumar sem vetur.

Fastasýning Sauðfjársetursins ber heitið Sauðfé og sveitafólk á Ströndum, en umfjöllunarefni hennar er sauðfjárbúskapur frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum. Meðal þátta sem sýningin fjallar um eru t.d. sauðburður, heyskapur, jarðvinnsla, túnrækt, sauðfjársjúkdómar, mörk og eyrnamerki, afurðir, sláturtíð, smalamennska, réttir, ullarvinnsla, fjárhús, hættur sem steðja að sauðkindinni og margt fleira.

Auk sýningarinnar er kaffistofan Kaffi Kind í Sævangi og einnig sölubúð með handverki og minjagripum.

Sævangur, frá Kirkjubóli

Eitthvað fyrir alla

Mikil áhersla er lögð á að ungir sem aldnir finni eitthvað við sitt hæfi á safninu. Þar er litríkt og skemmtilegt barnahorn með leikföngum og skemmtilegu dóti.

Gestir Sauðfjársetursins upplifa sýninguna í gegnum öll skilningarvitin. Þar má nefna hlut eins og hrútabandið sem angar af fyrri notendum. Heimildamynd er í gangi í sjónvarpi í stofuhorninu og stundum má heyra jarm í fjárhúsahorninu á sýningunni. Það er líka hægt að prófa einstaka hluti – t.d. að halda á orfi eða athuga þyngdina í kindavigt.

Uppbygging sýningarinnar

Munir sem tengjast sauðfjárbúskap eru að sjálfsögðu þungamiðja sýningarinnar. Hún inniheldur einnig mikinn texta um sauðfjárbúskap sem er einnig fáanlegur á ensku, þýsku og frönsku í afgreiðslu safnsins. Mikil vinna var lögð í gerð textanna og leitast var við að hafa þá líflega og skemmtilega, en um leið faglega unna.

Annað einkenni á sýningunni er mikill fjöldi ljósmynda, en þær sýna vel hversu fjölbreytt og margbrotið starf sauðfjárbænda er. Myndunum er reglulega skipt út og reynt er að hafa uppi myndir sem vekja gleði og áhuga gesta á viðfangsefni safnsins.

Gamalt póstkort með ljósmynd sem greinilega er tekin á Kollafjarðarnesi, Hvalsárdrangur er þarna í baksýn.
Gamalt póstkort með ljósmynd sem greinilega er tekin á Kollafjarðarnesi, Hvalsárdrangur er þarna í baksýn.

Umhverfi safnsins

Yfir sumarið liggja æðarkollur á hreiðrum sínum á Orrustutanga fram yfir miðjan júní og í fjörunni er fjölbreytt fuglalíf. Svæðið í kringum Sævang er tilvalið til gönguferða og útivistar, þar er göngustígurinn Sjávarslóð. Stutt er í merkta gönguleið um Kirkjubólsfjall og þarna er athafnasvæði Náttúrubarnaskólans sem er rekinn í tengslum við safnið.