Sumardvöl í sveit (2016-2021)

Sýning í sérsýningarými Sauðfjársetursins opnuð í sérsýningaherberginu 6. nóvember 2016. Tekin niður vorið 2021.

Sýninguna Sumardvöl í sveit hönnuðu Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur á Hólmavík og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og settu upp á Sauðfjársetrinu í samvinnu við fjölda aðila. Myndir á sýninguna teiknaði Sunneva Guðrún Þórðardóttir. Á sýningunni Sumardvöl í sveit segir frá reynslu þeirra sem fóru í sveit og þeirra sem tóku á móti sumardvalarbörnum, einkum á Ströndum. Sýningin var upplifunarsýning og hugsuð til að vekja minningar. Hægt var að heimsækja sveitaheimili, fara í leiki, endurupplifa ferðalag í sveitina, hlusta á sögur af Ströndum og fræðast með margvíslegum hætti um siðinn að senda börn í sveit. Sýningin var þýdd á ensku og sá texti aðgengilegur í möppum.

Fyrri árin sem sýningin var uppi teygði hún sig inn á Kaffi kind þar sem myndasýning var á veggjum og blaðaúrklippur undir gleri á kaffiborðunum. Að auki teygði hún sig í bókahillu í Kaffi Kind og síðar á aðalsýningu safnsins. Einnig út fyrir safnhúsið, þar sem úti voru þrautir og verkefni til að leysa fyrir börnin og Náttúrubarnaskólinn gerði búkofa bak við hús. Í anddyri Sævangs bjuggu Esther og Dagrún til gólfspil sem lýsir ferðalaginu í sveitina sem var hluti af sýningunni. Sýningin var þannig fjölbreytt og viðamikil.

Sýningin er hluti af stærra verkefni innan Háskóla Íslands, sem m.a. mannfræðingar, þjóðfræðingar, bókmenntafræðingar, félagsfræðingar og sagnfræðingar koma að, undir stjórn Jóníu Einarsdóttur prófessors í mannfræði. Gefnar hafa verið út tvær bækur sem tengjast verkefninu og ýmsir viðburðir voru haldnir í Sævangi.

Esther Ösp Valdimarsdóttir fékk sérstaka viðurkenningu við afhendingu Menningarverðlauna Strandabyggðar árið 2017 fyrir þessa sýningu og viðburði sem henni tengjast.

Nemendur í námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði í Háskóla Íslands heimsækja sýninguna Sumardvöl í sveit – ljósm. Jón Jónsson