Liðnir viðburðir

Fjörudagur 2004

Venjulega er mikið fjör á fjörudeginum sem haldinn er árlega á Sauðfjársetrinu snemma í júlí, í samvinnu við Ferðaþjónustan Kirkjuból. Þá er lífríki fjörunnar skoðað, kíkt á hreiður og farið gönguferð. Kaffihlaðborð var á eftir eins og alla aðra sunnudaga árið 2004. Núna var fjörudagurinn þann 4. júlí og mættu rúmlega 20 manns á öllum aldri til að fara með í gönguferð um fjöruna undir leiðsögn Jóns Jónsson þjóðfræðings á Kirkjubóli. Menn skoðuðu hreiður og unga, fleyttu kerlingum, hentu grjóti í rekaviðarspýtu, rannsökuðu þarablöðkur, leituðu að flöskuskeyti, týndu skeljar og aðrar gersemar og skemmtu sér hið besta. Spýtukóngurinn að þessu sinni varð Agnes Jónsdóttir.

Menningarborgarsjóður styrkti Sumardagskrá Sauðfjársetursins 2004.

Börn á öllum aldri mættu í fjörið á fjörudeginum. Hugmyndin með uppákomunni er að börn og fullorðnir skemmti sér saman og fari í rannsóknarleiðangur um fjöruna. Þannig sé blandað saman fróðleik og skemmtun. Fjórar tegundir fugla setja helst svip á fjöruna á Kirkjubóli. Það er teistan sem sést á myndinni hér að ofan, bæði ungar og fullorðnir fuglar. Einnig eru æðarfuglar mjög áberandi, kría og tjaldur.

Það er sko ekki á hverjum degi sem menn eru svo heppnir að þeir sjá unga skríða úr egginu. Þetta upplifðu þeir sem mættu á fjörudaginn í Sævangi í ár. Í einum teistukassanum (sem fuglafræðingar eru að gera tilraunir með í fjörunni á Kirkjubóli) var einn ungi kominn úr egginu og hinn var búinn að brjóta gat á skurninn. Það liðu ekki nema svona 2 mínútur þangað til hann var búinn að brjóta sér leið út að mestu leyti.

Þegar menn ganga um kríuvarpið getur verið gott að hafa eitthvað til að verja sig með. Annars er krökkunum kennt óbrigðult ráð á fjörudaginn til að verjast því að krían goggi í hausinn á manni. Það er nefnilega oftast sá stærsti sem verður fyrir árásunum og þess vegna er best að halda sig í nágrenni við einhvern sem er stærri en maður sjálfur þegar maður fer um kríuvarp. Það er auðvitað líka hægt að hafa prik sér til varnar eða hjálm á hausnum. Sumir setja vettling í húfuna sína, því krían gefur engin grið þegar ungarnir eru nýkomnir úr eggjunum.