Fylgst með ferðum sauðkinda yfir sumarið (2024-)
Sauðfjársetrinu byrjaði sumarið 2024 að taka þátt í verkefni sem hefur verið í gangi á vegum GróLindar (Landgræðslunnar) og bændanna Hafdísar Sturlaugsdóttur og Matthíasar Lýðssonar í Húsavík á Ströndum. Hafdís Sturlaugsdóttir er bóndi og landnýtingarfræðingur og hefur lengi spekúlerað í hegðun, atferli og framkomu sauðkinda. Hún hefur gert rannsóknir um þetta efni og skrifað ritgerðir. Hafdís var frumkvöðull í að setja gps-tæki á kindur til að fylgjast með ferðum þeirra í sumarhaganum og gerði það fyrst 2008 í framhaldi af því að hún rannsakaði félagshegðun sauðfjár í meistaranámi sínu í landnýtingu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Meistararitgerð hennar hét “Man sauður hvar gekk lamb? Félagshegðun venjulegs fjár og forystufjár. Móðuratferli, tengslamyndun og samheldni í sumarhögum.” | Skemman.
Hér má nálgast umfjöllun Landans um þettar rannsóknir og viðtal við Hafdísi: Hægt að fylgjast með fénu í tölvunni – RÚV.is
Verkefni Grólindar hófst 2018 og snýst einnig um að kortleggja ferðalög kinda yfir sumartímann og taka mun fleiri bændur og kindur á landinu þátt í því. Hver bóndi sem tekur þátt í verkefninu fær 10 GPS tæki og eru þau sett á jafnmargar lambær. Tækin skrá staðsetningu ánna á sex klst. fresti yfir þann tíma sem þær eru í sumarhögum. Tækin senda upplýsingarnar jafnóðum í tölvu eða síma þátttakenda.
Markmiðið með rannsókninni er að sjá hvernig gróðurlendi sauðfé sækir í og á hvaða tíma. Sömuleiðis skýrist vel hve stór svæði sauðfé nýta og hvernig þessi þættir breytast m.a. eftir tíma, veðri, landslagi og gróðurfari. Þetta er líka mjög ólíkt eftir einstökum kindum frá sama bænum. Þessi þekkingu mun svo t.d. nýtast við ráðleggingar um sjálfbæra landnýtingu.
Niðurstöðurnar um ferðir kindanna voru mjög skemmtilegar. Það kom nokkuð á óvart hvað þær voru ólíkar á milli kinda frá sama bænum. Sumar voru lítið á ferðinni og héldu sig í heimahaganum á meðan aðrar flæktust um fjöll og firnindi í leit að betri bithaga eða kraftmeiri gróðri. Kannski hafa þær líka verið að skoða umhverfið og útsýnið.
Síðastliðið sumar (2024) var þessu efni svo í fyrsta skipti miðlað á sýningu Sauðfjársetursins, í tölvu í stofuhorninu á sýningunni. Jafnframt var þessi síða á vef Sauðfjársetursins sett upp til að segja frá verkefninu. Verkefnið fékk dálítinn styrk frá Safnasjóði til stafrænna kynningarmála sem gerði þetta mögulegt. Hægt var að fylgjast með ferðum 9 kinda í eigu Húsavíkurbúsins og hvar þær héldu sig yfir sumarið. Þetta voru kindurnar Hrafna, Húsa, Líf, Magna, Móra, Rán, Rjúpa, Sæta og Sigga. Forritið sem notað var tók staðsetningarpunkt á 6 tíma fresti og teiknaði feril frá síðasta punkti eins og sjá má á myndunum hér að neðan.
Samstarfið milli GróLindar (sem er verkefni innan stofnunarinnar Land og skógur) og bændanna heldur svo vonandi áfram á næsta ári (2025) og þá sömuleiðis á milli Sauðfjársetursins og bændanna í Húsavík. Þá verður aftur hægt að fylgjast með ferðum kindanna í Húsavík yfir sumarið, bæði á sýningu Sauðfjársetursins og vonandi hér á vefnum líka. Hugmyndin er að kindurnar sem bera gps-tæki sumarið 2025 verði jafnframt sendiherrar safnsins okkar, samfélagsmiðlastjörnur sem leggja sitt af mörkum í þágu safnsins.
Það er spennandi að fylgjast með kortinu þróast yfir sumarið og velta fyrir sér tímalínunni og hvort hún sé breytileg milli ára, hvenær kindurnar telja lömbin nógu stór til að komast yfir árnar og færa sig úr heimahaganum og hvort þær koma niður að sjó áður en smalamennskur hefjast að hausti. Það getur verið háð veðri og stundum fara þær aftur til fjalla eftir óveður. Eins er áhugavert hvar þær koma í réttir eftir smalamennsku eða hvort þeim er smalað heim að bæ. Þessi rannsóknavinna hefur gefið af sér margvísleg gögn sem verður hægt að skoða heilmikið og frá fjölbreyttu sjónarhorni. Það verður örugglega gert í náinni framtíð.
Hafdís kynnti verkefnið á fyrirlestri í Sauðfjársetrinu í nóvember 2024 og hyggst endurtaka leikinn næsta sumar þegar kindur með gps-tæki eru komnar á fjall.
Þorskaffjarðarheiði eru báðar frá Laugarholti við Djúp og eru greinilega að leita heimahaganna.