Kaffi Kind

Kaffi- og veitingastofa Sauðfjársetursins ber hið virðulega og viðeigandi nafn Kaffi Kind. Kaffi Kind er sérlega notaleg kaffistofa með einstöku útsýni yfir Steingrímsfjörð. Hvergi er betra að sitja á góðviðrisdögum yfir sumarið, drekka kaffi og borða ljúffengt rabbarbarapæ, vöfflu með sultu og rjóma eða gómsætar kleinur. Matseðill Kaffi Kindar er ekki sérlega flókinn, en að sama skapi leitast fólkið í eldhúsinu við að mæta óskum viðskiptavinanna.

Bakkelsið er heimabakað á Kaffi Kind og hangikjöt og lambakjöt koma beint frá býli, Húsavíkurbúinu og Miðhúsum í Kollafirði. Kaffi Kind býður einnig upp á ótrúlega góðan rjómaís beint frá býlinu Erpsstöðum í Dalasýslu. Ekki missa af því!

Hópar eru velkomnir í Kaffi Kind, en kaffistofan getur auðveldlega tekið við allt að 40 manns í einu í kaffi eða mat og fleiri ef undirbúningstími er nægur. Ef ætlunin er að koma með hóp af fólki er um að gera að skipuleggja heimsóknina fyrirfram með því að senda tölvupóst eða hringja í síma 693-3474.

Frá árinu 2002 hafa verið haldin óteljandi kaffihlaðborð í Kaffi Kind og hafa þau hlotið einróma lof gesta Sauðfjársetursins. Stefna kaffistofunnar er í hnotskurn sú sama og safnsins – hún er fyrir alla aldurshópa og hún er heimilisleg. Starfsfólkið reynirað gefa sér líka tíma til að spjalla.

Í Sævangi er einnig lítil sjoppa með nokkrum nammitegundum, gosi og svaladrykkjum.

Matseðill 2021