Saga Sauðfjársetursins

Það er sjálfseignarstofnunin Sauðfjársetur á Ströndum sem rekur safnið í Sævangi, allt árið um kring. Forstöðumaður Sauðfjársetursins frá ársbyrjun 2012 er Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli, en fyrri framkvæmdastjórar voru Arnar S. Jónsson frá 2006-2011 og Jón Jónsson frá 2002-2006. Stjórnarmenn hafa árum saman verið Matthías Lýðsson bóndi í Húsavík sem er formaður stjórnar, Sverrir Guðbrandsson frá Bassastöðum og Reynir Björnsson bóndi í Miðdalsgröf. Reynir tók við af Jóni Jónssyni sem var í stjórn til ársins 2007.

Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum

Öll saga Sauðfjársetursins er 21. aldar saga. Fyrstu árin var Sauðfjársetrið rekið af áhugamannafélagi sem var stofnað á fundi í Sævangi þann 10. febrúar 2002 og hét Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum. Sjálfskipuð undirbúningsnefnd hafði þá starfað að eigin frumkvæði í meira en ár. Félagið rak safnið, kaffistofuna og handverksbúðina í Sævangi fyrstu starfsárin, en árið 2009 tók sjálfseignarstofnun Sauðfjársetur á Ströndum alfarið við rekstrinum.

Stjórnarfundur frá upphafsárunum 😉 frá vinstri eru Sverrir, Matthías, Reynir í Gröf og lengst til hægri Jón Jónsson þjóðfræðingur sem gegndi starfi framkvæmdastjóra 2002-2006.

Safnið fékk fljótlega viðurkenningu á starfi sínu frá Safnasjóði og rekstrar- og verkefnastyrki þaðan frá árinu 2004. Til að byrja með var Sævangur leigður undir starfsemina og sýningin var aðeins uppi yfir sumarið fyrstu árin. Yfir veturinn var hún þá flutt til Hólmavíkur í verkstæðishús sem félagið leigði fyrst og keypti síðan af Hólmadrangi vorið 2003. Þetta fyrirkomulag breyttist svo eftir hrunið, en þá neyddist félagið til að selja húsið á Hólmavík til að geta haldið starfseminni áfram. Kaupandi var Sorpsamlag Strandasýslu.

Árið 2007 eignaðist félagið 2/3 hluta í safnhúsinu Sævangi, eftir nokkurn undirbúning, eða þann hluta sem Kirkjubólshreppur, Kvenfélagið Björk og Lestrarfélag Tungusveitar áttu áður. Það var sveitarfélagið Strandabyggð sem afhenti Sauðfjársetrinu eignina, með skilyrðum um áframhaldandi menningarstarfsemi og sýningahald. Mikilvægt þótti að gamla félagsheimili Tungusveitunga hafði fengið nýtt hlutverk í þágu byggðar og samfélags og þjónaði áfram sem menningarmiðstöð í héraðinu. Mikil viðhaldsverkefni lágu fyrir og sveitarfélagið sá sér beinlínis hag í því að gefa safninu sinn hluta í húsinu. Móteigandi var áfram Ungmennafélagið Hvöt sem starfaði í Kirkjubólshreppi, en hafði að mestu leyti verið óvirkur félagsskapur eftir aldamótin. Félagið var svo lagt formlega niður 2020 og eignarhlutur þess gekk þá til sveitarfélagsins Strandabyggðar í samræmi við lög félagsins. Sveitarfélagið afhenti síðan Sauðfjársetrinu þennan þriðjungshlut án endurgjalds í framhaldinu.

Sauðfjársetrið hefur allt frá því það kom til sögunnar séð um rekstur hússins og staðið fyrir og kostað öll viðhaldsverkefni sem mörg voru orðin mjög aðkallandi.

Sauðfjársetur á Ströndum ses

Sjálfseignarstofnunin Sauðfjársetur á Ströndum var stofnuð árið 2009 og tók við öllum rekstri og eignum, réttindum og skuldbindingum, af félaginu sem áður hafði séð um reksturinn. Þetta var gert eftir tilmæli Safnaráðs sem taldi að áhugamannafélagsformið væri of ótryggur bakhjarl og eigandi að safninu. Frá upphafi hafa vissulega skipst á skin og skúrir í rekstrinum og jafnvel má kalla það dálítið afrek að safnið sé enn í fullu fjöri.

Að mörgu leyti hefur safnið aldrei verið öflugra félagslega og faglega en nú, jafnvel þótt kórónuvírusinn hafi haft slæm áhrif á starfsemina, eins og annað menningarstarf og ferðaþjónustu. Það má m.a. þakka öflugum bakhjörlum og stuðningsaðilum, m.a. Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og sveitarfélaginu Strandabyggð sem hafa stutt við reksturinn.

Áfram veginn – alltaf gaman í kindavagninum!