Saga Sauðfjársetursins

Það er sjálfseignarstofnunin Sauðfjársetur á Ströndum sem rekur safnið árið um kring. Forstöðumaður Sauðfjársetursins frá ársbyrjun 2012 er Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli, en fyrri framkvæmdastjórar voru Arnar S. Jónsson frá 2006-2011 og Jón Jónsson frá 2002-2006. Stjórnarmenn hafa frá upphafi verið Matthías Lýðsson bóndi í Húsavík sem er formaður, Sverrir Guðbrandsson frá Bassastöðum og Reynir Björnsson bóndi í Miðdalsgröf.

Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum

Öll saga Sauðfjársetursins er 21. aldar saga. Fyrstu árin var Sauðfjársetrið rekið af áhugamannfélagi sem var stofnað á fundi í Sævangi þann 10. febrúar 2002. Sjálfskipuð undirbúningsnefnd hafði þá starfað að eigin frumkvæði í meira en ár. Félagið rak safnið, kaffistofuna og handverksbúðina í Sævangi fyrstu starfsárin, en árið 2009 tók sjálfseignarstofnun Sauðfjársetur á Ströndum ses við rekstrinum.

Stjórnarfundur frá upphafsárunum 😉 frá vinstri eru Sverrir, Matthías, Reynir í Gröf og lengst til hægri Jón Jónsson þjóðfræðingur sem gegndi starfi framkvæmdastjóra 2002-2006.

Safnið fékk fljótlega viðurkenningu á starfi sínu frá Safnasjóði og rekstrar- og verkefnastyrki þaðan frá árinu 2004. Til að byrja með var Sævangur leigður og sýningin aðeins uppi að sumarlagi fyrstu árin, en flutt yfir veturinn í verkstæðishús á Skeiði á Hólmavík sem félagið leigði fyrst og keypti svo af Hólmadrangi vorið 2003. Þetta fyrirkomulag breyttist svo eftir hrunið, þegar félagið neyddist til að selja húsið á Hólmavík til að geta haldið starfseminni áfram, en eignaðist á móti 2/3 hluta í safnhúsinu á Sævangi. Móteigandi var þá Ungmennafélagið Hvöt sem var mestu leyti óvirkur félagsskapur, en félagið var svo lagt niður 2020 og eignarhlutur þess gekk þá til sveitarfélagsins Strandabyggðar.

Sauðfjársetur á Ströndum ses

Sjálfseignarstofnunin Sauðfjársetur á Ströndum var stofnuð árið 2009 og tók rekstrinum af félaginu, í samræmi við tilmæli Safnaráðs sem taldu að áhugamannafélagsformið væri of ótryggur bakhjarl og eigandi. Skipst hafa á skin og skúrir í rekstrinum og jafnvel má kalla það afrek að safnið sé enn í fullu fjöri. Að mörgu leyti hefur safnið aldrei verið öflugra félagslega og faglega en nú um stundir, jafnvel þótt kórónuvírusinn skeki alla heimsbyggðina og sérstaklega menningarstarf og ferðaþjónustu.

Áfram veginn – alltaf gaman í kindavagninum!

Upcoming Events