Sjávarslóð – útisýning (2020-)

Þann 17. júní 2020 var opnaður formlega göngustígur í Orrustutanga, við safnið í Sævangi, og hefur hann fengið nafnið Sjávarslóð. Þar við stíginn sem liggur út í tangann eru ýmis ummerki um starfsemi Náttúrubarnaskólans, 16 söguskilti með margvíslegum fróðleik, blómamerkingar og bekkir. Þarna eru líka tveir glæsilegir skúlptúrar eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson. Annars vegar er það Njörður sjávarguð og hins vegar þjóðtrúarvera sem heitir finngálkn.

Úti í tanganum er líka minnismerki eftir Arngrím um dagbókarritarann Jón Jónsson (1795-1879) sem ólst að hluta til upp á Kirkjubóli. Dagbók hans frá árabilinu 1846-1879 er ómetanlegar heimild um lífið við Steingrímsfjörð á 19. öld. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa hyggur á útgáfu á rannsókn á dagbókinni á næstu misserum.

Bílaplanið fyrir stíginn er framan við Sævang, en einnig er stígurinn tengdur við gönguleið um Kirkjubólsfjall sem er 5 km merkt gönguleið fyrir þá sem eru léttir á fæti og áhugafólk um útivist og gönguferðir. Á þeirri leið er gengið með Kirkjubólsfjöru og við hringtorg utan við bæinn á Kirkjubóli eru fleiri sögu- og náttúruskilti.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkti gerð göngustígarins og útisvæðisins og Safnasjóður styrkti einnig útisýninguna við stíginn. Fá þessir aðilar bestu þakkir fyrir.