Náttúrubarnahátíð í Sævangi (2017)
Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin í fysta skipti 28.-30. júlí. Þar gafst fólki færi á að finna og rækta náttúrubarnið í sér á skemmtilegri dagskrá fullri af allskonar fróðleik og fjöri sem má sjá hér að neðan! Hátíðin er fyrir alla fjölskylduna og náttúrubörn á öllum aldri, börn og fullorðna, og var haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Aðgangseyrir var 3.000 kr. en einnig hægt að kaupa sig inn á hvern dag fyrir 1.500 kr.
Óteljandi uppákomur tengdar útivist og listum voru á dagskránni og fróðleik miðlað um ýmislegt tengt náttúrunni, bæði hvernig má nýta hana í skapandi og skemmtilegum verkefnum og einnig hvernig má vernda umhverfi og náttúru. Á hátíðina mættu alls hátt í 200 náttúrubörn víða af landinu og á öllum aldri, frá nokkura mánaða aldri og upp í 80 ára. Hátíðin hófst á skemmtilegri gönguferð um fjöruna og sameiginlegum veðurgaldri, en ljóst er að finna þarf leiðir til að magna þann galdur töluvert og gera hann öflugri. Þó skein sól á hátíðargesti af og til og það var hlýtt og þurrt, en það var heldur mikill vindbelgingur alla helgina. Fólk lét vindinn ekki stoppa sig í að taka virkan þátt í gleðinni – útieldun, taktsmiðju, fara á hestbak og meira að segja í sjósund.
Dagrún Ósk Jónsdóttir sem hefur starfstitilinn yfirnáttúrubarn og er í forsvari fyrir hátíðina segir að stefnan sé að endurtaka leikinn á næsta ári: „Þetta var frábærlega skemmtilegt, gaman að kynnast fólkinu sem kom og ég held að það sé ótrúlega mikilvægt fyrir fjölskyldur að skemmta sér saman og búa þannig til góðar minningar. Ég er bara strax farin að hugsa um og skipuleggja næstu hátíð!“
Það var frítt fyrir hátíðargesti að gista í tjaldi á Kirkjubóli sem er rétt hjá Sævangi. Einnig er frábært tjaldsvæði á Hólmavík og ýmsir gististaðir í nágrenninu. Sundlaugin á Hólmavík bauð gestum hátíðarinnar sem eru 14 ára og yngri frítt í sund meðan á hátíðinni stendur og eldri borguðu hálft gjald.
Dagskrá hátíðarinnar var sem hér segir:
Föstudagurinn 28. júlí
17:00 Stutt og skemmtileg gönguferð. Gengið frá Húsavíkurkleif að Sævangi.
18:30 Setning hátíðarinnar. Dagrún Ósk yfirnáttúrubarn segir nokkur orð. Gengið að veðurupplifunarstöðinni og framkvæmdur veðurgaldur til að tryggja gott veður alla helgina.
19:00 Tónleikar með hinni frábæru hljómsveit Ylju.
20:15 Náttúrubarnakviss. Skemmtilegur spurningaleikur fyrir alla fjölskylduna. Sauðfjársetur á Ströndum býður hátíðargestum upp á vöfflur, djús og kaffi að kostnaðarlausu.
22:30 Fjörusöngur við Sævang.
Laugardagurinn 29. júlí
11:00 Náttúrujóga, hugleiðsla og hljóðslökun með koparhörpu með Arnbjörgu hjá Jógahjartanu.
12:00 Sirkus sýning. Hluti sirkushópsins Melodic Objects sýnir Same Picture – Different Pose.
12:30 Náttúrufjör: Jurtalitun, unnið úr ull, unnið úr rekavið, tálgað, Strandahestar, Ynja Art með myndlistarsýninguna Hlýnun, náttúrumarkaður, opið hús í tilraunastofunni og plastdýragarðinum. Ljósmyndamaraþon og fleira.
14:00 Trommutúttur: skemmtileg smiðja þar sem sköpunarkraftur og efniviður úr umhverfinu og náttúrunni er nýttur til trommu- og hljóðfæragerðar. Í framhaldinu verður haldinn trommuhringur þar sem allur hópurinn lætur ljós sitt skína og trommuna óma. Listrænn stjórnandi smiðjunnar er Arnar Snæberg Jónsson.
14:15 Skemmtileg og fræðandi gönguferð þar sem plöntur í umhverfinu verða skoðaðar með Hafdísi Sturlaugsdóttur hjá Náttúrustofu Vestfjarða.
16:00 Útieldun: spennandi smiðja þar sem náttúrubörn læra að kveikja eld, umgangast hann og náttúruna af virðingu og um leið nýta afurðir náttúrunnar í mat og drykk.
16:15 „Hvers vegna á ég að vernda náttúruna og hvernig fer ég að því?“ Stórfróðlegt spjall með umhverfisstjórnunarfræðingnum Stefáni Gíslasyni.
18:00 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið.
20:00 Snillingurinn Svavar Knútur með tónleika.
21:30 Drauga- og tröllasögur í sagnahúsinu!
Sunnudagurinn 30. júlí
11:00 Skemmtilegt spjall um sjósund með þjóðfræðingnum Pétri Húna Björnssyni. Hefur þig alltaf langað að prófa en aldrei þorað? Nú er tækifærið! Þeir sem áhuga hafa láta vaða í sjóinn eftir fróðleikinn. Við mælum með að skella sér í heita pottinn á Hólmavík eftir sjóinn!
13:00 Hinn stórskemmtilegi töframaður Ingó Geirdal með sýningu.
14:00 Útileikir á Sævangsvelli.
16:00 Fjölskyldufjallganga. Kirkjubólshringurinn genginn. Gangan tekur um það bil 2 klst. og hækkun er 220 m.