Sögurölt á Tungustapa (2018)
Söguröltið í Dölum og á Ströndum heldur áfram og þriðjudaginn 24. júlí kl. 19:30 var gengið á Tungustapa í Hvammssveit í Dölum. Lagt var af stað frá íþróttavelli UDN í Sælingsdal, á leiðinni að Laugum í Sælingsdal. Af Tungustapa er útsýni yfir sögusvið sagna frá landnámi til þessa dags, bæði manna og álfa. Tungustapi er álfadómkirkja og víðar álfabyggðir í nágrenninu. Hægt er að velja um fjölmörg umræðuefni á Tungustapa; þjóðsögur, Laxdæla, Sturlunga, menn og búalið í dalnum, skáldagyðjan eða bara eitthvað allt annað.
Sælingsdalslaug var opin til kl. 20 fyrir þá sem vildu nýta ferðina til sunds fyrir röltið.
Söguröltin eru haldin í samvinnu Strandamanna og Dalamanna, og standa Byggðasafn Dalamanna, Sauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn fyrir þeim. Góð mæting hefur verið í söguröltin í sumar og hafa samtals um 160 manns mætt í þær fjórar gönguferðir sem eru að baki, áður en lagt var á Tungustapa.