Álagablettir (2013-)

Sýningin Álagablettir var opnuð á þjóðtrúardaginn mikla 7-9-13 (7. september 2013), eins og að hafði verið stefnt um langan tíma áður. Á sýningunni eru fróðleikur, þjóðsögur og ljósmyndir af álagablettum á Ströndum. Þar er einnig hægt að finna stemmningsljóð eftir sýningarhöfunda sem þó hafa ekki lagt skáldskapinn fyrir sig (níu þeirra eru eftir Dagrúnu og eitt eftir Jón) og hljóðdæmi af ismus.is. Eins er þarna kort yfir álagabletti á Ströndum og loks er tilbúinn álagablettur á miðju listasviðinu. Textar á spjöldum eru á íslensku, en á ensku í möppum.

Mikið fjör var á kvöldvöku á opnunardaginn og troðfullt hús. Voru þar flutt fróðleg erindi og tónlist og kynngimagnað kaffihlaðborð var á boðstólum.

Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir eru höfundar sýningarinnar og Jón sá líka um umbrotsvinnu og hönnun söguskilta. Þau sömdu textana, tóku ljósmyndirnar á sýningunni og settu hana sjálf upp. Veggmynd er eftir Ástu Þórisdóttur og er hún eldri en álagablettasýningin. Kindin og lömbin á álagablettinum eru gerð af listakonunni Aðalheiði Eysteinsdóttur. Hljóðskrár sem notaðar eru á sýningunni koma af ismus.is og eru upphaflega úr safni Árnastofnunar.

Í tengslum við álagablettasýninguna hafa fjölmargir skemmtilegir viðburðir verið haldnir á Sauðfjársetrinu. Árlegar þjóðtrúarkvöldvökur sem haldnar hafa verið í september flest árin ber þar hæst.

Næsta vetur stendur til að taka niður sýninguna, en gefa í staðinn út bók um álagabletti. Vel má vera að sýningin rati með einum eða öðrum hætti hingað á vefinn líka.