Réttarbyggingar og fjárréttir fyrr og nú
NÝ RANNSÓKN OG HEIMILDASÖFNUN
Í tilefni safnadagsins 2024 sem var tileinkaður fræðslu og rannsóknum, var vinnu á vegum Sauðfjársetursins við nýja rannsókn ýtt úr vör, í samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og bandarískan þjóðfræðing sem heitir Rosa Thornley. Hún hefur sérstakan áhuga á réttarbyggingum og fjárréttum á Íslandi og hefur komið í ferðir til landsins til að taka myndir af þeim, taka viðtöl og viða að sér fróðleik. Síðasta haust kom hún til í heimsókn á Strandir og fundaði með okkur, var viðstödd réttarstörf í Staðarrétt í Bjarnarfirði og tók ljósmyndir og staðsetningarhnit af öðrum réttarbyggingum á svæðinu, eins og hún gerir alltaf í ferðum sínum.
Ætlunin er að safna saman upplýsingum um réttarbyggingar fyrr og nú, sögulegum fróðleik, ljósmyndum og staðsetningu. Athyglinni er í annars vegar beint að réttarbyggingunni sjálfri, arkitektúr, umhverfi og efnivið, samspili við landslag og náttúru, staðháttum og sögulegum fróðleik. Hugmyndin er byggja í rólegheitunum upp vefkort þar sem þessum fróðleik er miðlað. Hins vegar er réttarviðburðurinn sjálfur í brennidepli og verður hann tekinn til sérstakrar skoðunar og frásögnum, vinnubrögðum og aðferðum, myndum og minningum safnað.
Hugmyndin er að nýta vefkönnun og tölvutæknina til að safna fróðleik og frásögnum með aðstoð fólks um land allt, sem jafnframt getur fylgst með vefkortinu byggjast upp og þéttast eftir því sem upplýsingar berast. Í haust er svo ætlunin að halda fróðleiksfund um réttir á Sauðfjársetrinu og setja þar upp sýningu um réttarbyggingar á landsvísu. Þessi rannsókn verður langtímaverkefni. Við hlökkum til að hefjast handa við söfnun upplýsinga og vonum að við fáum góð viðbrögð.