Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Fréttir

Ótrúlegt hvassviðri

Það var suðvestan spænurok á Ströndum fimmtudaginn 5. september og ýmislegt á ferð og flugi í rokinu. Fína litla rotþróarhúsið okkar á flötinni fyrir neðan Sævang, burstabær sem Ásdís Jónsdóttir lista- og hagleikskona á Hólmavík smíðaði fyrir 22 árum, yfirgaf okkur í þessu roki. Það fór og kemur aldrei aftur, splúndraðist í rokinu og fauk út í sjó að mestu leyti, en brak úr því er að finna um allar koppagrundir. Sömuleiðis lagðist listaverkið Njörður á bakið, níðþungt og hefur aldrei haggast fyrr. Njörður er sem betur fer óskemmdur og var reistur við daginn eftir.

Á Hólmavík varð tjón á þökum á húsum og margt smálegt fór í ferðalag með vindinum, flutningabíll fauk á hliðina í Skeljavík og eitt og annað fleira bar til tíðinda þennan dag.