Skessur sem éta karla … (2024)

Sýningin Skessur sem éta karla … var sett upp í Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu haustið 2024, í lok ágúst. Hún var svo formlega opnuð á þjóðtrúarkvöldvöku um illsku og ofbeldi þann 9. september. Um er að ræða spjaldasýningu sem er afrakstur rannsókna Dagrúnar Óskar Jónsdóttir þjóðfræðings sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Dagrún segir okkur hvernig mannátið birtist í þjóðsögunum og hvað það getur sagt okkur um samfélagið sem sögurnar tilheyra. Í rannsóknum sínum fléttar hún saman þjóðsögum og nútíma hugmyndum um feminisma og bregður þannig ljósi á nýjar hliðar bæði á þjóðsögunum og ójafnrétti kynjanna.

“Þjóðsagnir endurspegla á vissan hátt hugmyndaheim og heimsmynd þeirra sem þeim safna og þær skrifa. Tröllskessur ráða ríkjum í tröllaheiminum og í sögum af mannáti eru það nánast alltaf tröllskessur sem éta mennska karlmenn. Það voru aðallega karlar sem söfnuðu, skrifuðu og gáfu út þjóðsagnaefni og hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla geti endurspeglað á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konunum,” segir Dagrún. Veggspjöldin eru fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum Sunnevu Guðrúnar Þórðardóttur á Laugarholti við Djúp. 

Sýningin hefur áður verið sett upp víða um land, m.a. í Reykjavík og Borgarnesi, á Ísafirði, Hólmavík, Akureyri, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði.