Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Ullarfléttan (2024-)

Vorið 2024 var opnuð ný tímabundin sérsýning á listasviðinu í Sævangi. Það var sýningin Ullarfléttan og er hún enn uppi. Það var listakonan Ásta Þórisdóttir á Drangsnesi sem hannaði sýninguna og stjórnaði uppsetningunni, en sýningin er sett upp eins og listræn innsetning í rýmið á sviðinu í Sævangi.

Verkefnið var unnið í teymisvinnu Ástu Þórisdóttur sem undirbjó og teiknaði upp sýninguna, með sjálfboðaliðum og starfsfólki Sauðfjársetursins. Ásta undirbjó og teiknaði upp sýninguna. Á henni eru munir úr safni Sauðfjársetursins og einnig fengnir lánaðir margvíslegir munir hjá fólki í samfélaginu og Leikfélags Hólmavíkur lagði til klæðnað úr búningasafni sínu. Listmunir, lesefni og handverk prýða einnig sýninguna, en sviðsmyndin er koffortasafn frá hönnuðinum sem kemur í stað sýningarborða, palla og stalla.

Framsetningin er skemmtilegt frávik frá söguspjöldum og fróðleiknum á fastasýningu safnsins. Áhöld og búnaður fyrri tíma til ullarvinnslu mynda bakgrunn, en í forgrunni eru margvíslegar afurðir og listaverk sem unnin eru úr ull. Meðal þeirra er listaverkið Endurfeldur (úr endurunninni ull) eftir Maj-Britt Önnu Bjarkardóttur og fatnaður úr ull er líka til sýnis. Gærurveggur er á eina hlið umgjörðarinnar um sýninguna og á baksviðinu er listaverk eftir Ástu. Ljósmyndir og textar eru eingöngu notuð sem ítarefni.

Sýningin hefur fengið jákvæð viðbrögð gesta og þykir bæði skemmtileg, frumleg og listræn.

Sérsýningar Sauðfjársetursins eru mikilvægar fyrir starfsemi þess, vegna þeirrar nýsköpunar og rannsókna sem þær stuðla að. Einnig skapa þær tækifæri til viðburðahalds og gefa heimamönnum tækifæri til að sjá og læra nýja hluti í heimsókn á safninu og auka þannig aðsóknina og efla rekstur setursins. Samvinna er við listafólk og fræðimenn í héraði og er það samstarf mikilvægt og eflandi fyrir svæðið.


Verkefnið Ullarfléttan – ný sérsýning fékk stuðning frá Safnasjóði og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Við þökkum þessum sjóðum kærlega fyrir.

Oddur Jónsson í Þorpum með ullarpoka


Ull verður gull …

Ullin af sauðkindinni er ein dýrmætasta afurð hennar. Hún einangrar mjög vel og er sérstaklega hlý. Því var hún og er enn í dag mikið notuð í flíkur, t.d. ullarpeysur, sokka, vettlinga og húfur.

Rúningur

Áður fyrr var fé rúið með höndum, þá var reifið reytt eða rifið af kindinni. Vasahnífar og handklippur voru lengi notuð, en nú er fé alltaf klippt með sérstökum vélklippum. Sú breyting hefur einnig orðið að forðum var féð rúið utandyra í júní, en nú rýja bændur fé sitt inni í fjárhúsum um veturinn, margir tvisvar sinnum.

Þel og tog

Ull kindarinnar skiptist í tvær gerðir. Yst á gærunni er ullin löng og gróf, það er kallað tog. Togið var kembt í togkömbum sem voru frekar grófir. Togþráðurinn var sterkur, háll og gljáandi og var mest notaður til að sauma. Hann var notaður í vefnað, útsaum og stundum var líka gert úr honum silunganet.

Neðar í reyfinu er ullin hins vegar fíngerð og mjúk. Hún er kölluð þel. Hægt er að spinna mjög fínan þráð úr þelinu. Þelþráðurinn er notaður til að prjóna allskyns flíkur, en einnig í hyrnur, sjöl og dúka.

Ullarþvottur

Það fyrsta sem þurfti að gera eftir rúning var að hrista ullina og þvo hana. Áður fyrr var hún þvegin upp úr vatni og keytu sem hafði verið safnað saman úr koppum heimilisfólks í þessum tilgangi. Ullin var þvegin við vatn eða læk með því að troða henni ofan í stóran pott sem var fullur af keytu. Þar var henni þvælt fram og aftur með priki, en síðan færð upp úr pottinum á grind og látið renna af henni.

Eftir þessa meðferð var ullin skoluð í hreinu vatni og síðan borin á þurrkvöll þar sem var breitt úr henni til þerris. Þegar ullin var orðin þurr var tekið frá það magn sem átti að nota til heimilis og afgangurinn sendur í kaupstaðinn.

Bændur selja ullina

Meðan ullarvinna á heimilum skipti enn umtalsverðu máli var betri hlutinn af ullinni jafnan notaður heima, en sá lakari seldur. Nú er öll ull keypt af bændum eftir að hún hefur verið skoðuð og metin. Mjög mikilvægt er að féð sé hreint og þurrt þegar rúið er, til þess að tryggja að ullin haldist óskemmd.

Mishátt verð fæst fyrir ullina, sú hvíta er dýrmætust, en flekkótt eða mislit er verðminni. Tekjur bænda á Íslandi fást fyrst og fremst fyrir kjötið. Verðið fyrir ullina er svo lágt að hún skiptir bændur ekki miklu máli.

Páll Traustason á Grund með ullarpoka


Lopi & band

Ullarvinnslan sjálf var helsta vetrarverkefni fólks fyrr á öldum. Fyrst var ullin táin, en þá var hún greidd í sundur með fingrunum og síðan kembd í grófum kömbum. Þegar greiddist úr ullinni í kömbunum var hún dregin úr þeim í lengju sem kölluð var lopi. Þetta hét að lyppa. Þangað til lopinn var spunninn var hann geymdur í rimlakassa sem hét lár.

Ullarvinnslan

Lopinn var síðan tekinn og spunninn í rokk eða með snældu og þannig gert úr honum band eða þráður. Þá var tekið til við að prjóna eða vefa úr bandinu. Til að flíkin eða voðin yrði þétt í sér, skjólgóð og entist betur þurfti að þæfa hana. Fyrst var það sem átti að þæfa þvegið upp úr keytu og undið og svo hófst þæfingin.

Þæfingin þótti erfitt verkefni

Sokkar og vettlingar voru þæfðir í höndum en peysur, pils og brækur voru þæfð í trogum. Vaðmálsvoð var þæfð undir fótum, en stundum þæfðu tveir menn vaðmál á milli sín í tunnu sem lá á hliðinni og var opin í báða enda. Þá spyrntu þeir voðinni á milli sín inni í tunnunni.

Myrkranna á milli

Það þykir ágætis afþreying í dag að prjóna, en þannig var það ekki áður fyrr. Þá var prjónavinnan skyldustarf sem flestir á heimilinu þurftu að vinna við. Samkvæmt Íslenskum þjóðháttum eftir Jónas frá Hrafnagili var kappið mest fyrir jólin. Þá fékk fólk oft ekki nema hálfan svefn, og vökurnar stóðu fram á morgun. Þá segir einnig að karlmennirnir hafi tekið með sér prjónana í fjárhúsin og jafnvel prjónað þegar þeir gengu á milli þeirra ef veður leyfði!