Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Álagablettir (2013-2022)

Sýningin Álagablettir var opnuð á þjóðtrúardaginn mikla 7-9-13 (7. september 2013), eins og stefnt hafði verið að. Hún var síðan uppi til ársins 2022, mun lengur en aðrar tímabundnar sýningar Sauðfjársetursins. Höfundar sýningarinnar voru feðginin Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson. Á sýningunni var fróðleikur, þjóðsögur og ljósmyndir af álagablettum á Ströndum. Þar voru einnig stemmningsljóð eftir sýningarhöfunda sem þó hafa ekki lagt skáldskapinn fyrir sig (níu þeirra voru eftir Dagrúnu og eitt eftir Jón) og margvísleg hljóðdæmi af ismus.is. Eins var þar kort yfir álagabletti á Ströndum og loks var álagablettur settur upp á miðju listasviðinu í Sævangi. Textar á spjöldum voru á íslensku, en á ensku í möppum.

Mikið fjör var á kvöldvöku á opnunardaginn og troðfullt hús. Voru þar flutt fróðleg erindi og tónlist og kynngimagnað kaffihlaðborð var á boðstólum. Í tengslum við álagablettasýninguna hafa síðan fjölmargir skemmtilegir viðburðir verið haldnir á Sauðfjársetrinu. Þar ber hæst árlegar þjóðtrúarkvöldvökur sem haldnar hafa verið í september flest árin síðan.

Höfundar sýningarinnar, hönnun og uppsetning, ljósmyndir: Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson
Umbrotsvinna og hönnun söguskilta: Jón Jónsson
Prentun: Pixel
Veggmynd: Ásta Þórisdóttir (myndin er eldri en álagablettasýningin, en varð þó hluti af henni)
Kindin og lömbin á álagablettinum: Aðalheiður Eysteinsdóttir
Hljóðskrár: ismus.is og eru upphaflega úr segulbandasafni Árnastofnunar

Árið 2021 gáfu Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa út bókina Álagablettir á Ströndum sem byggir á þessari vinnu og frekari rannsóknum. Sú bók er til sölu hjá Sauðfjársetrinu.

Hér fyrir neðan er nú búið að setja texta og myndir af sýningunni og er þessi vefútgáfa af gömlu sýningunni opnuð á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september 2024.



1. Þjóðtrú

Íslensk þjóðtrú

Íslensk þjóðtrú er síbreytilegur og spennandi efniviður sem gaman er að vinna með. Þjóðtrúnni er meðal annars miðlað gegnum fjölbreyttar þjóðsögur og sagnir, bæði af yfirnáttúrlegum verum og vættum, svo sem draugum, tröllum og álfum, eða frásögur úr daglega lífinu sem stundum er ætlað að skýra út eitthvað í umhverfinu eða annað sem fyrir ber.

Margt í þjóðtrúnni er alls ekki eins séríslenskt og ætla mætti við fyrstu sýn. Oft eru á ferðinni alþjóðleg þjóðsagnaminni og jafnvel heilar sögur sem sagðar eru um ólíkt fólk og staði í ólíkum löndum.

Búskaparálög

Langflestar sögur af álögum segja frá afmörkuðum blettum sem ekki má slá eða hrófla við. Annars konar álagasögur eru einnig þekktar á Ströndum. Þau álög eru til dæmis sögð hvíla á jörðinni Vonarholti í Arnkötludal, að þar megi enginn búa lengur en 10 ár samfellt, annars verði búandi fyrir einhverju óláni. Og ef Hádegisdalur ofan Veiðileysu er sleginn fer bóndinn alfarinn af jörðinni innan árs.

Svartagil á Trékyllisheiði er álagastaður sem á hliðstæður víða annars staðar á landinu. Á gilinu hvíla þau álög að 20 menn eiga að hrapa þar og farast. Sögunni fylgir að þegar hafi 19 manns hrapað í gilinu.

Álagabletturinn Klimpur og Klimpumýri í landi Stóru-Ávíkur í Árneshreppi

Huldufólkstrú

Huldufólkstrú hefur alltaf verið sterk á Íslandi, kannski er landslagið heppilegt fyrir slíka trú. Huldufólk býr í klettum og hólum og margar sögur eru sagðar af samskiptum þess við mannfólkið, sem bæði geta verið góð og slæm. Sagt er að huldufólk sé oftast mjög fallegt, en það má þekkja á því að það vantar miðnesið í nefið á því. Þeim sem hjálpar huldufólki er jafnan ríkulega launað, en geri maður á þeirra hlut getur hefndin oft verið grimmileg.


2. Álagablettir

Trú á álagabletti

Umfangsmiklar rannsóknir á þjóðtrú Íslendinga sem gerðar voru 1974 og 2006 sýna að trúin á álagabletti er umtalsverð og reyndar mun meiri en trú á tilvist huldufólks. Í rannsókninni 1974 kom fram að þriðjungur svarenda taldi tilveru álagabletta örugga eða líklega og annar þriðjungur taldi tilvist þeirra mögulega. Aðeins fimmtungur sagði þá óhugsandi eða ólíklega. Ekki var merkjanlegur munur á viðhorfunum eftir aldri eða kynferði.

Til að meta þjóðtrúarhugmyndir er oft betra að skoða hvað menn gera við ákveðnar aðstæður, frekar en hvað þeir segja. Myndir þú hrófla við álagabletti í garðinum þínum, ef hann væri einmitt langbesti staðurinn til að byggja bílskúrinn sem þig hefur alltaf dreymt um? 

Heilladysin á Bjarnarnesi

Býsna sérstakur þjóðtrúarstaður er á Bjarnarnesi, yst við sunnanverðan Bjarnarfjörð. Þar er dys smalanna á Kaldrananesi og Bjarnarnesi, en þeir deildu hart um selveiðiréttindi jarðanna og endaði með að þeir drápu hvorn annan og voru dysjaðir þarna.

Sú trú fylgir dysinni að því fylgi lán að bæta í hana steini. Er í frásögur fært að stundum hafi sjómenn komið þarna að landi og kastað steini í dysina til að fá betri byr. Eins þekktist að menn settu stein í dysina þegar þeim gekk illa að finna kind sem vantaði. Þessi trú á heilladysina á Bjarnarnesi er sérstök, þó víðar sé vel þekkt að menn leggi stein í dysjar, þegar þeir eiga leið hjá.

Álagabletturinn Kollur í túninu á Kollsá, ósleginn.

Bannhelgi í öðrum löndum

Trúin á álagabletti er ekki séríslensk. Býsna svipaðar sögur af álagablettum eru sagðar á Írlandi og í Færeyjum og reyndar er íslenska huldufólkstrúin öll frekar keimlík írskri þjóðtrú. Þar eru oft sérstakir afmarkaðir staðir sem menn vilja ekki hrófla við, af því álfar eigi þá. Trúin á álagabletti er því mjög líklega af keltneskum meiði og hefur fylgt íslensku þjóðinni allt frá landnámi. Eins er vel þekkt í þjóðtrú annarra landa að varúð sé höfð við forna hauga og dysjar.


3. Gullhóll

Grafið eftir gulli í Tröllatungu

Heilmikill hóll er í túninu í Tröllatungu í Tungusveit sem heitir Gullhóll. Sú trú að þar hafi verið falið gull og gersemar er forn og hefur verið býsna sterk. Á Gullhól eru álög og bannað að hrófla við honum eða grafa í hólinn. Þá sýnist mönnum að kirkjan eða bærinn í Tröllatungu standi í ljósum logum.

Vitað er um tvær tilraunir til að grafa í hólinn. Á upplýsingaöld fengu  danskir stúdentar leyfi frá Danakonungi til að leita að gullinu. Sagt er að þeir hafi grafið í dágóðan tíma, enda er töluverð laut í hólinn sem snýr heim að bænum. Uppskeran varð rýr og hurfu þeir frá.

Gísli Jónatansson, kenndur við Naustavík, og annar ungur drengur grófu dálítið í hólinn snemma á 20. öld. Segir Gísli að hann sé viss um að sjaldan hafi gullgrafarar verið hræddari við iðju sína en þá.

Fjársjóðir og fólgið fé

Þjóðtrú og bannhelgi tengjast oft stöðum þar sem trúað er að fjársjóður sé falinn eða fornmaður grafinn. Sú er raunin með Steingrímshaug á Staðarfjalli þar sem Steingrímur trölli er heygður að eigin ósk. Sama gildir um Mókollshaug í Mókollsdal í Kollafirði og haug Önundar tréfótar í Kaldbaksvík. Oft fylgja sögur um að grafið hafi verið í haugana þar til komið var niður á fjársjóðskistur. Þegar átti að hífa þær upp fældu sjónhverfingar menn frá frekari aðgerðum, svo sýndist sem kviknað væri í bæjum eða guðshúsum eða þá að jörðin og áhöldin sýndust loga.

Sagnir eru um að bæði í Fellskirkju í Kollafirði og Staðarkirkju í Steingrímsfirði hafi á öldum áður verið fallegir hurðarhringir sem hafi slitnað af fjársjóðskistum í nálægum haugum.

Kanna af gulli

Á Kleifum í Kaldbaksvík var hóll í túninu sem hét Gullhóll. Þar bjó huldufólk og einnig var sagt að kanna full af gulli væri falin í hólnum. Hóllinn var sléttaður þegar ýtuöld hófst á þessum slóðum, en ekkert spurðist til gullsins.

Hér hefur verið grafið í Gullhól í Tröllatungu

Valleyri við Ingólfsfjörð

Valleyri heitir eyri í Ingólfsfirði norðanverðum, beint á móti Grímsnesi og Grímsdölum þar sem fornkappinn Grímur trölli lét heygja sig samkvæmt þjóðsögum. Bát sinn og fjársjóði alla lét hann hins vegar grafa hinum megin við fjörðinn á Valleyrinni. Hefur oft sést þar blár logi eins og víðar þar sem fé er fólgið í jörðu.

Sagt er að margir hafi freistað þess að grafa upp gullið hans Gríms, en í hvert skipti fundist sem húsin á Eyri standi í ljósum logum. Hætta menn þá jafnan að grafa. Á Valleyri er lítil tjörn sem sagan segir að hafi orðið til við leit að fjársjóðnum. 

Kona Gríms hét Eirný og er heygð í Eirnýjarhaug í Eyrardal. Hún er verndarvættur fjarðarins og vakir yfir honum.


4. Kastalinn

Það mátti aldrei slá Kastalann

Kastalinn heitir klettur nokkur í Kollafirði þar sem áður stóð bærinn Hlíð. Hann er grasi vaxinn að ofan. Í Kastalanum býr huldufólk og þjóðsögur sögðu að hann væri magnaður álagablettur sem ekki mætti slá. Börnin á bænum máttu þó leika sér á og við klettinn án þess að verða meint af, þótt háreysti og grjótkast hafi væntanlega verið illa séð þar eins og við aðrar álfabyggðir. 

Oddur Lýðsson sló Kastalann fyrst eftir að hann flutti að Hlíð árið 1914. Þá var hjá honum gömul kona sem varaði hann við því að slá blettinn, en hann tók lítið mark á slíkri hjátrú. Þetta búskaparár varð hann fyrir svo miklu óláni með skepnur að hann sló Kastalann aldrei aftur og enginn annar eftir það.

Gísli Jónatansson í Naustavík

Slægjur huldufólksins

Kastalinn er að mörgu leyti dæmigerður álagablettur, grasi vaxinn blettur sem bannað er að slá, því slægjurnar eru í eigu huldufólksins. Ef út af slíku sláttubanni er brotið á sláttumaður yfirleitt á hættu að missa skepnur, venjulega sinn besta grip, hest eða kýr, stundum kindur. Í bændasamfélaginu var mikið áfall að missa fallegasta reiðhestinn eða bestu mjólkurkúna. Stundum kviknaði í heyinu ef brotið var gegn banninu. Stundum urðu slys á fólki.

Fjölmörg dæmi eru um slíka bletti á Ströndum, staði þar sem álfar eiga slægjurnar og mannfólkið á að láta í friði. Svíri á Bjarnarnesi er klettahóll sem ekki má slá. Við álfabyggðina Klimpur á Stóru-Ávík í Árneshreppi er mýri sem huldufólkið nýtir við sinn búskap. Folaldshjalla á Gálmaströnd má ekki slá. Samkvæmt þjóðtrúnni farast stórgripir ef bannið er brotið, eins og dæmisögur sanna.

Kastalinn í Hlíð

Álagabrekka við Víðidalsá

Heima við bæinn á Víðidalsá við Steingrímsfjörð er brekka niður að ánni sem er talin álagablettur. Hana má ekki slá og ekki er vitað til að það hafi verið gert. Eins var mönnum og er ennþá illa við að beita hestum eða öðrum búfénaði á brekkuna sem er mjög grösug.

Rétt neðan við brekkuna er dys sem kölluð er Smaladysin. Sagt er að þar hafi verið dysjaður smali frá Víðidalsá sem drukknaði í ánni. Eitt sinn þegar hann kom heim með ærnar vantaði uppáhaldskind húsfreyju. Var smalinn því rekinn aftur af stað með harðri hendi, en áður bundinn strokkur á bakið á honum. Átti smjörið að vera strokkað þegar hann kæmi til baka eftir hlaupin. Í þeirri ferð féll smalinn eða fleygði sér í ána og drukknaði og var huslaður á bakkanum.


5. Kleppa

Tröllkonan Kleppa

Tröllkonan Kleppa bjó á Kleppustöðum í Staðardal, en margar sögur eru sagðar af deilum hennar við Finnboga ramma á Finnbogastöðum í Trékyllisvík. Urðu þau ósátt og til að gera honum óleik klippti hún allt gras af grundunum niðri við sjó og lagði þau álög á að grasið myndi aldrei vaxa hærra en hún hafði klippt það. Hefur það ræst og grundirnar alltaf verið mjög snöggar. Síðan meig hún í mýrina ofan við bæinn þannig að hún yrði illfær vegna bleytu. 

Finnbogi sætti sig auðvitað ekki við þetta og spyrnti því grjóti miklu úr brúninni á fjallinu. Skarð varð eftir í fjallsbrúninni, en Kleppa heitir grjóthóllinn þar sem grjótið lenti og kramdi tröllkonuna Kleppu til bana. Bannað er að hrófla við hólnum eða slá hann.

Kindur á Kleppu

Sérstæð álagasaga um Stúlkuhóll

Álagablettir eru fyrst og fremst tengdir álfum og huldufólki á Ströndum, þótt einnig séu í frásögur færðar sögur af álögum sem fornmenn leggja á staði. Í þeim sögum birtast fornkapparnir oft sem hálfgerð tröll.

Býsna sérstök saga er sögð af Stúlkuhól í Þiðriksvalladal við Steingrímsfjörð, stórum klettahól framan við Þiðriksvallavatn. Hafa menn löngum trúað í hólnum búi stúlka eða huldukona.

Þegar framkvæmdir hófust við að reisa stíflu við vatnið vegna Þverárvirkjunar um miðja 20. öldina, dreymdi konu á Hólmavík að það myndi boða illt ef vatnið myndi ná fram fyrir Stúlkuhólinn. Var töluvert um það rætt að ef vatnið næði svo hátt að hóllinn yrði umflotinn þá myndi Hólmavík brenna og samfélagið þar sundrast.

Stíflan hefur verið stækkuð tvisvar síðan og yfirborð Þiðriksvallavatns hækkað og nær vatnið nú að Stúlkuhól. 

Folaldshjalli

Folaldshjalli á Gálmaströnd í Steingrímsfirði er dæmi um stað sem bannað er að slá, vegna þess að álfarnir eiga slægjuna. Sögur eru um að stórgripir hafi drepist þegar brotið var gegn banninu.

Draugasaga er einnig tengd Folaldshjalla. Sagt er að bleikt folald gangi þar aftur og reyni stundum að villa um fyrir ferðalöngum. Það sjáist stundum á ferli á Gálmaströnd, en svo flýr það upp í holu í klettinum sem kölluð er Folaldshola. Draugsfolaldið er eins og hálfflegið og dregur á eftir sér skinnið, en sagt er að folaldið hafi fallið ofan af hjallanum og skinnið skrapast af því að hluta.

Einnig er sú saga varðveitt að holan í Folaldshjalla sé botnlaus, en þaðan liggi neðanjarðargöng annað hvort fram í Ljúfustaðagil eða fram á Steinadal í Kollafirði.

Þórður Franklínsson í Litla-Fjarðarhorni


6. Þambá

Strákafoss og Kerlingarfoss í Þambá

Í fyrndinni bjó kona ein, Þömb að nafni, á Þambárvöllum í Bitru. Er sagt að hún hafi verið hálftröll og átt tvo syni. Þeir voru eitt sinn að leik við foss í Þambá, þar sem hún rennur til sjávar, þegar það slys varð að þeir féllu í ána og drukknuðu. Heitir fossinn síðan Strákafoss.

Þömb leggur þá þau álög á Þambána að aldrei muni neitt veiðast í henni framar, en heldur aldrei neinn drukkna í henni aftur.

Þau urðu afdrif Þambar að hún gekk með ánni lengst fram í dal með allt sitt gull og gersemar og faldi í hyl undir fossi einum. Steypti hún sér svo í fossinn sem síðan heitir Kerlingarfoss.

Kerlingarfoss í Þambá

Slysfarir og veiðiálög

Það eru býsna algengt minni í íslenskum þjóðsögum að eftir svipleg slys séu lögð þau álög á ár, vötn eða firði, að þar muni aldrei neinn drukkna framar. Jafnan fylgir slíkum álögum að um enga veiði verði þar að ræða framar, rétt eins og það sé fórnarkostnaður sem fylgi jákvæðu álögunum.

Þrjár mjög svipaðar sögur eru af kerlingum á Ströndum. Kerling í Reykjarfirði lagði veiðiálög á Óveiðisá og Búrfellsvatn, eftir að synir hennar drukknuðu við veiðar á vatninu. Kerlingin Hnyðja sem bjó á Hnyðjueyri í sunnanverðum Kollafirði lagði sömu álög á Kollafjörðinn þegar synir hennar tveir drukknuðu þar við fiskveiðar.

Saga af Kráku sem bjó við Veiðileysufjörð er sambærileg. Þessar þrjár eiga það sameiginlegt að þær voru bláfátækar og ekkert gull eða falinn fjársjóður kemur við sögu.

Kerlingin Kráka

Kráka bjó í Krákutúni við Veiðileysufjörð og átti tvo stráka sem stunduðu sjóróðra á firðinum. Einhverju sinni þegar veiði var treg skáru strákarnir bita úr lærinu á kerlingu sem var niðursetningur á bænum til að nota í beitu. Fiskaðist þá afbragðs vel, en áður en sjóferðinni lauk gerði ofsaveður svo báturinn fórst og þeir drukknuðu báðir í lendingunni.

Kráka lagði þá þau álög á Veiðileysufjörð að þar myndi aldrei framar fást bein úr sjó, en heldur ekki neinn drukkna þar í lendingu aftur. Kráka hljóp svo upp með bæjaránni að fossi rétt ofan við bæinn og steypti sér þar fram af klettunum. Fossinn heitir síðan Krákufoss. Synir Kráku voru dysjaðir á mel við fjarðarbotninn og köstuðu vegfarendur jafnan steini í dysina þegar þeir áttu leið hjá, allt þar til grjóthrúgan var notuð í vegagerð á 20. öldinni.


7. Brúará

Álfabyggð í höfðanum við Brúará

Á Brúará í Kaldrananeshreppi er mikil álfabyggð og búa þeir meðal annars í klettahöfða við utanverða bæjarvíkina. Fyrir neðan klettana er brekka sem bannað er að slá og rista torf í. Sagt er að hestar á Brúará hafi jafnan haldið sig frá brekkunni, ekki viljað bíta þar.

Nálægt miðri 20. öld var nýr ábúandi að reisa fjárhús rétt neðan við álfabyggðina og risti hann torf úr blettinum. Eins voru steinar teknir úr klettaveggnum. Nóttina eftir verður fólkið á bænum vart við hávaða og þegar út var komið morguninn eftir voru fjárhúsin hrunin. Trúin á álagablettinn reyndist þá svo sterk að torfinu var skilað í brekkuna og grjóti í klettana, eins og mögulegt var, áður en aftur var tekið til við framkvæmdir við fjárhúsin. Efni var þá sótt annað.

Framkvæmdir og álög

Við túnið í Snartartungu í Bitru er laut sem heitir Rauf. Þar býr huldukona og er lautin sérstaklega falleg, þakin blágresi. Lautin er girt af, til að varna því að hún verði fyrir hnjaski. Áður en girðingin kom var eitt sinn slegin braut við lautina, til að flytja hey af nálægu túni til bæjar, með alvarlegum afleiðingum fyrir reiðhest sláttumannsins.

Algengt er að við framkvæmdir komi umræða um álagabletti fram í dagsljósið. Við Seljadalsá eða Seljá milli Birgisvíkur og Veiðileysu stendur stakur steinn, rétt neðan við vegkantinn. Þegar vegur var lagður í Árneshrepp á 7. áratug 20. aldar vildu heimamenn ekki að hróflað yrði við steininum, þar væri huldufólksbyggð og álagablettur.

Bolli á Brunngili

Býsna nákvæmar lýsingar eru varðveittar af þeirri varúð sem menn sýndu við álagablettinn Bolla á Brunngili. Þar var bannað að slá og rista torf. Ekki mátti vera með háreysti og læti við blettinn og ekki mátti safna þar berjum, bara tína upp í sig. Beita mátti kúnum þar á sunnudögum, en ekki aðra daga.

Eitt sinn var verið að rista torf og farið var aðeins of nálægt blettinum. Húsbóndann á Brunngili dreymdi þá um nóttina að það kæmi maður á gluggann og segði: „Nú er hún Grána þín næstum dauð.“ Sú var einmitt raunin, þegar að var gáð.  

Guðný Gísladóttir frá Brunngili


8. Broddi

Við túnið í Snartartungu í Bitru er laut sem heitir Rauf. Þar býr huldukona og er lautin sérstaklega falleg, þakin blágresi. Lautin er girt af, til að varna því að hún verði fyrir hnjaski. Áður en girðingin kom var eitt sinn slegin braut við lautina, til að flytja hey af nálægu túni til bæjar, með alvarlegum afleiðingum fyrir reiðhest sláttumannsins.

Leiðið hans Brodda gamla

Utan við Broddadalsá í Kollafirði, undir Ennishöfða, er dys fornmannsins Brodda, við samnefnda kletta. Dysin er við gönguleiðina fyrir Stiga, sem fyrrum var fjölfarin. Sögur segja að þar sé Broddi gamli grafinn með öllu gullinu sínu.

Í munnmælum kemur fram að það sé stórlega varasamt að reyna að grafa gersemarnar upp og nánast dæmt til að mistakast. Sagt er að förumaðurinn Tómas víðförli hafi á síðari hluta 19. aldar reynt að grafa eftir fjársjóðnum hans Brodda, en mistekist og hann hafi aldrei orðið samur maður eftir það.

Setið á dysinni um dimma haustnótt

Samkvæmt þjóðtrúnni er aðeins ein leið möguleg til að nálgast gullið hans Brodda, en það getur alls ekki hver sem er. Óspjölluð meyja þarf dvelja næturlangt við dysina, með óskírt ungabarn hjá sér, um dimma haustnótt. Ef stúlkan þolir allt sem fyrir ber um nóttina, á dysin að opnast og gersemarnar verða aðgengilegar. 

Á Ströndum eru nokkur dæmi um að álög hvíli á dysjum eða haugum heiðinna manna sem sagt er að hafi búið þar á landnámsöld.

Kollur er heygður í túninu á Kollsá með skipi sínu, niður við sjó. Bannað er að slá og raska við blettinum. Í Hvítarleiði heima við bæinn í Hvítarhlíð í Bitru er Hvít grafin og gullkistill hennar. Ljúfuholt á Ljúfustöðum er kennur við landnámskonuna Ljúfu.

Dysin hans Brodda

Gestur á Klúku

Í dágóðri laut í túnhorninu á Klúku í Miðdal við Steingrímsfjörð, er haugur sem kallaður er Gestur. Sagt er að þar sé heygður Gestur sem Gestsstaðir eru kenndir við. Hann var mikill sauðfjárbóndi eins og fleiri Tungusveitungar og hafði beitarhús á Klúku. Áður en Gestur dó gaf hann fyrirmæli um hvar hann yrði heygður og var staðurinn valinn sérstaklega af því þarna um lautina runnu kindur á leið sinni til sjávar. Gestur vildi vita af ferðum þeirra.


9. Einbúi

Einbúinn

Við Bæ á Selströnd er klettur sem kallaður er Einbúi. Þar býr huldufólk og fyrir neðan klettinn er álagabrekka. Þar hefur verið slegið nokkrum sinnum og ávallt orðið slys á fólki eða stórgripum.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson í Bæ sló blettinn einu sinni og er frásögn hans af því varðveitt á Árnastofnun. Þegar hann fór svo inn í kaffi tók Bjarni sonur hans orfið og reyndi að slá, 7-8 ára gamall, en varð þá fyrir því að höggva með ljánum í fótinn á Rögnu systur sinni og átti hún lengi í þeim meiðslum. Guðmundur segist í viðtalinu ekki hafa haft mikla trú á svona sögum þegar hann var ungur, en fólk reki sig á ýmislegt í lífinu sem verði að viðurkenna að erfitt sé að skilja.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson í Bæ

Kerlingartóftin við Drangaskörð

Ysta skarðið í Drangaskörðunum heitir Signýjargötuskarð og liggur alfaraleið göngumanna um það. Sagt er að skarðið heiti eftir konu sem bjó á öldum áður ein í kofa undir skarðinu norðanverðu og hrapaði þarna til bana. Tóftin af kofanum er kölluð Kerlingartóft og er álagablettur sem ekki má slá.

Einu sinni voru Drangamenn að slá út undir skörðin í glaðasól og blíðu, þegar gestkomandi maður lagði þeim lið. Var hann nokkuð frá heimamönnum við sláttinn. Snögglega dimmir í lofti og kólnar og áður en varir brestur á haglél. „Nú er aðkomumaður farinn að slá upp í tóftina,“ segir Drangabóndi við sitt fólk og reyndist það rétt vera. 

Búhóll við Reykjarfjörð

Margar aðrar sögur segja frá óhöppum sem verða þegar óvarlega er farið við álagabletti. Í Reykjarfirði er stór hóll við bæinn sem heitir Búhóll og í honum er laut sem álfarnir eiga og bannað er að slá. Heyrst hefur sálmasöngur álfanna við hólinn.

Sagt er að ef hóllinn sé sleginn brenni hey bóndans. Eins er saga um að farið hafi verið of nærri hólnum þegar verið var að grafa fyrir vatni og bóndinn þá misst nokkrar ær. Annar bóndi sló hólinn og missti um haustið hesta með einkennilegum atvikum.

Þegar túnið við bæinn var sléttað sátu jarðýtur fastar. Og þegar fjárhús voru byggð á síðari hluta 20. aldar er sagt að huldufólkinu hafi verið færð mjólk til að tryggja velþóknun þess á framkvæmdum.

Einbúinn í Bæ, Grímsey úti á Steingrímsfirði


10. Goðdalur

Snjóflóðið í Goðdal

Sunnudaginn 12. desember 1948 varð hörmulegt snjóflóð í Goðdal, inn af Bjarnarfirði. Flestir heimilismenn voru að drekka kaffi í eldhúsinu að áliðnum degi, þegar heljarmikið snjóflóð braut húsið niður. Aðeins Jóhann bóndi Kristmundsson bjargaðist lifandi, fjórum sólarhringum síðar, því dagar liðu áður en menn vissu af flóðinu. Lífsmark var þá einnig með 8 ára dóttur hans og 19 ára vinnumanni, en þau létust samdægurs í höndum björgunarmanna. Alls fórust sex.

Jóhann hafði reist húsið á Bólbalanum um það bil áratug fyrr og brotið land til ræktunar upp af húsunum. Við þá framkvæmd var m.a. komið ofan á hringlaga hleðslu sem talin var undirstaða af hofi. Aftan úr öldum höfðu menn trúað því að þarna væri álagablettur, sem ekki mætti raska eða hafa þar grasnytjar.

Einlæg trú á bannhelgi

Töluvert hefur verið ritað og enn meira rætt um slysið í Goðdal. Það er alveg ljóst að fjölmargir trúðu að snjóflóðið tengdist því að byggt var á bletti sem bannhelgi hvíldi á. Það kemur meðal annars glöggt fram í viðtölum varðveittum á Árnastofnun. Til að skýra þann tíma sem leið frá byggingu hússins fram að slysinu, var vísað til þess að Kristmundur faðir Jóhanns hefði sagt að þetta yrði í lagi meðan hann lifði sjálfur. Hann gæti ekkert ábyrgst eftir það. Kristmundur sem dó sumarið 1948 var sagður hafa verið andvígur því að hróflað yrði við Bólbalanum.

Jóhann Kristmundsson skrifaði meðal annars sjálfur magnaða frásögn um snjóflóðið. Hann lá lengi í kalsárum á Landspítalanum og var tekinn af honum hægri fóturinn. Jóhann var illa haldinn á líkama og sál eftir snjóflóðið og lést nokkrum árum síðar.

Þuríður Guðmundsdóttir í Bæ
Rústir íbúðarhússins í Goðdal

Goðahaugur og drekinn mikli

Víða í Goðdal eru þjóðsagnastaðir. Sagt er að Goði, sá sem fyrstur byggði dalinn, hafi látið flytja skip sitt þangað fram í dal og sé heygður með því skammt neðan við garð. Goðahaugur er friðlýstur álagablettur sem ekki má hrófla við. Einnig eru sögur af því að Goði hafi sökkt fjársjóði sínum undir Goðafoss í Goðdalsánni. Þar í gljúfrinu bjó einnig dreki fyrr á öldum, hin mesta meinvætt, sem hremmdi kindur og stórgripi bænda og dró með sér niður í gljúfrin.