Fréttir

Ályktað um sauðfjárbúskap

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur samþykkt samhljóða ályktun vegna lækkunar á afurðaverði til bænda. Í ályktuninni er lýst yfir þungum áhyggjum af lækkunum á greiðslum til sauðfjárbænda fyrir afurðir þeirra og áhrif þess á rekstrargrundvöll búanna og byggð í landinu. Ályktunin hljóðar svo:  „Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir yfir miklum áhyggjum vegna boðaðra lækkana á verði til sauðfjárbænda í komandi sláturtíð.

Verði boðaðar verðlækkanir á afurðaverði til sauðfjárbænda nú í haust, sem koma í kjölfar lækkandi raunverðs sauðfjárafurða undanfarandi ára að veruleika, er rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa í landinu algerlega brostinn. Afleiðingarnar verða hrun í búgreininni og í framhaldi af því stórfelld byggðaröskun.

Sauðfjárrækt er ein af undirstöðum byggðar í Kaldrananeshrepp líkt og öðrum dreifbýlissveitarfélögum landsins og þar af leiðandi hriktir í byggðinni þegar fótum er kippt undan þeirri starfsemi.

Sauðfjárbúskapur er mikilvæg atvinnugrein í öllum dreifbýlissveitarfélögum landsins og hefur boðuð lækkun á verði til sauðfjárbænda gífurleg áhrif á afkomu heimila í flestum sveitarfélögum á landsbyggðinni.

Nú, annað árið í röð standa sauðfjárbændur frammi fyrir verulegri tekjuskerðingu og á komandi hausti af þeirri stærðargráðu að ekkert mun standa eftir af tekjum búanna til greiðslu á launum, þegar kostnaður við framleiðsluna hefur verið greiddur. Laun bænda vegna búrekstrarins verða því engin. Miklir fjárhagsörðugleikar blasa við, sérstaklega skuldsettum bændum. Kemur tekjuskerðing augljóslega harðast niður á þeim sem nýlega hafa byrjað búskap, sem eru í flestum tilfellum yngstu bændurnir.

Þá má benda á að fríverslunarsamningur Íslands og Kína hefur ekki enn verið virkjaður fyrir lambakjöt þótt rúm þrjú ár séu liðin frá undirritun hans

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps krefst þess að stjórnvöld, forystumenn bænda, sláturleyfishafar og aðrir hlutaðeigandi hætti samstundis öllu karpi um hvað sé hverjum að kenna, og fari strax að vinna saman að raunhæfri lausn á þeim alvarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum, sveitarfélögum landsins og þjóðinni allri.

Leita þarf lausna án tafar, en drepa ekki málinu á dreif með karpi um orsakir vandans.“