Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Árlegar stórhátíðir

Íslandsmótið í hrútadómum

Frá árinu 2003 hefur verið haldið Íslandsmeistaramót í hrútadómum á Sauðfjársetrinu, en það er íþrótta- og listgrein sem sauðfjársetursfólk fann upp. Þarna eru það ekki hrútarnir sem keppa um hver þeirra sé bestur, heldur keppir mannfólkið í því hver sé snjallastur að dæma hrúta með hendurnar einar að vopni. Keppt er bæði í flokki reyndra hrútaþuklara sem gefa hrútunum stig eftir kerfi sem bændur gjörþekkja og í flokki óvanra og jafnvel hræddra hrútaþuklara en þeir þurfa að raða hrútunum í gæðaröð og rökstyðja hana. Mjög góð þátttaka og aðsókn er jafnan að hrútaþuklinu, fólk kemur alls staðar af landinu að fylgjast með og taka þátt, þá er sannkölluð hátíðastemmning á Sauðfjársetrinu.

Náttúrubarnahátíð

Síðustu fimm ár hefur tekist að halda Náttúrubarnahátíð á hverju sumri á Sauðfjársetrinu. Það eru viðamiklar hátíðir með magnaðri dagskrá, þar sem skemmtun, útivist og fróðleik er blandað saman í hæfilegum hlutföllum. Náttúrubarnahátíðin er ein af þremur stórhátíðum ársins á Sauðfjársetrinu, ásamt Hrútadómunum og Sviðaveislunni. Dagrún Ósk Jónsdóttir, yfirnáttúrubarn og þjóðfræðingur, hefur jafnan verið viðburðastjóri á hátíðinni sem haldin er í nafni Náttúrubarnaskólans.

Sviðaveisla

Á hverju hausti, nálægt fyrsta vetrardegi, hafa síðustu árin verið haldnar sviðaveislur á Sauðfjársetrinu. Þá er boðið til matarveislu þar sem svið eru borin fram, matreidd og meðhöndluð með ýmsum hætti. Í eftirrétt eru gamlir og góðir grautar úr sveitinni, einn þeirra er alltaf blóðgrauturinn góði. Skemmtiatriði eru undir borðhaldinu, ræðumaður kvöldsins tekur til máls og veislustjóri fer jafnan á kostum. Sviðaveislan er ein af mikilvægari fjáröflunaraðferðum Sauðfjársetursins, en skemmtunin byggir á framlagi sjálfboðaliða.

Furðuleikarnir

Um árabil voru haldnir Furðuleikar á hverju sumri á Sauðfjársetrinu, allt frá 2004-2019, en sú skemmtun hefur nú fallið niður síðustu árin. Óljóst er með framtíð Furðuleikanna á þessum tímapunkti, allt hefur sinn tíma. Á Furðuleikunum var keppt í margvíslegum greinum fyrir alla fjölskylduna, sem seint yrðu viðurkenndar af alþjóðlega ólympíusambandinu. Meðal keppnisgreina hafa verið trjónufótbolti, girðingarstaurakast, kvennahlaup (karlar hlaupa þá með konur sínar), öskur og margt fleira skrítið og skemmtilegt. Furðuleikarnir voru vinsælir og vel sóttir og hafa meira að segja ratað í þátt sem BBC framleiddi um skrítnar íþróttakeppnir víðs vegar í heiminum.

17. júní kaffihlaðborð

Oft eru kaffihlaðborðin glæsileg á Sauðfjársetrinu, en sjaldan eins og á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þar eru jafnan kökur og kræsingar svo borðin svigna undan, sautján sortir höfum við fyrir satt. Stundum hafa verið frekari viðburðir á þessum degi, opnaðar sýningar eða eitthvað slíkt gert til fróðleiks og skemmtunar. Árið 2020, í hléi frá Covidinu, var 17. júní skemmtun Hólmvíkinga flutt í Sævang og haldin þar af Ungmennafélaginu Geislanum. Þá var mikið um dýrðir, göngustígurinn um Sjávarslóð var opnaður sama dag og ólétt fjallkonan flutti ljómandi fallegt ljóð. Það var afbragðs skemmtilegt.

Þjóðtrúarkvöldvaka

Frá því að sýningin um Álagablettina var opnuð í Sævangi á þjóðtrúardeginum mikla, sem kemur bara einu sinni á öld, 7-9-13, hefur verið haldin Þjóðtrúarkvöldvaka árlega (eða því sem næst) í Sævangi. Á þeim eru flutt áhugaverð erindi um þjóðtrú og þjóðsögur, tónlistaratriði hefur verið til skemmtunar og kynngimagnað kvöldkaffi með allskonar dularfullum kökum og uppskriftum verið í boði. Þjóðtrúarkvöldvökurnar eru nú orðnar sex tlasins og þótt efnið sé alltaf það sama hefur þemað á hverri þeirra verið misjafnt, en alltaf örlítið háskalegt og hræðilegt í senn.

Hörmungadagar og fleiri hátíðir

Alltaf þegar bæjar-, lista- og menningarhátíðir eru haldnar á Hólmavík eða í Strandabyggð tekur Sauðfjársetrið þátt í þeim. Uppáhaldið okkar eru Hörmungadagarnir sem hafa alls verið haldnir fimm eða sex sinnum. Þá reynum við að leggja okkar af mörkum með eftirminnilegum atburðum. Einu sinni héldum við morðgátu á Hörmungadögum og drauga- og skrímslaganga hefur líka verið í boði. Matarmartröð æsku minnar var eftirminnilegur viðburður og skemmtilegur. Allskonar hörmungafyrirlestrar hafa líka verið haldnir um sérdeilis erfiða sorgarviðburði, hrakninga og margvíslega erfiðleika.

Við reynum jafnan að taka virkan þátt í öllum þeim hátíðum sem haldnar eru á svæðinu, af öðrum slíkum má t.d. nefna Vetrarsól á Ströndum sem var haldin í janúar nokkur ár í röð og Bókavík sem haldin hefur verið að minnsta kosti tvisvar. Við Strandafólk látum ekki góð tækifæri til að eiga góðar stundir saman framhjá okkur fljóta.