Benedikt Grímsson og Ragnheiður Lýðsdóttir á Kirkjubóli
Myndasýning frá fjölskyldunni á Kirkjubóli

Benedikt Guðmundur Grímsson og Ragnheiður Lýðsdóttir og annað heimilisfólk á Kirkjubóli, sennilega árið 1925, þegar þau giftu sig og hófu búskap. Lengst til vinstri er Guðjón Grímsson, bróðir Benedikts, síðar bóndi í Miðdalsgröf, Magnús Helgason 12 ára, þá Benedikt og Ragnheiður, síðan Ragnheiður Grímsdóttir systir Benedikts sem var vinnukona á Kirkjubóli alla ævi. Á endanum er talið að séu Sigríður Guðmundsdóttir og Grímur Benediktsson foreldrar þeirra systkina. Allt fólkið er á sauðskinnskóm (mynd úr safni Elínar Skeggjadóttur).
Hjónin Benedikt og Ragnheiður
Ragnheiður var dóttir Lýðs Jónssonar og Önnu Magnúsdóttur á Skriðinsenni í Bitrufirði. Benedikt var sonur hjónanna á Kirkjubóli, Gríms Bendiktssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur sem var frá Víghólsstöðum á Fellsströnd í Dalasýslu. Benedikt hét eftir tveimur eldri bræðrum sínum sem drukknuðu ungir í Kirkjubólsgilinu.







Börnin: Immi, Diddi, Lilli og Rósa
Börnin fjögur: Grímur, Sigurður, Lýður og Rósa, eru áberandi í myndaalbúminu, eftir að þau koma til sögunnar. Til eru myndir af þeim mjög litlum og síðan bætast við myndir af barnabörnum þeirra Benedikts og Ragnheiðar og inn á milli fljóta myndir af börnum sem voru í sveit á Kirkjubóli.
























Búskapurinn á Kirkjubóli
HJónin voru ótrúlega dugleg við framkvæmdir á jörðinni og jarðræktina þessa hálfu öld sem þau voru bændur á Kirkjubóli. Ragnheiður tók þá virkan þátt í útiverkum og hrærði steypu með manni sínum þegar byggingarframkvæmdir stóðu yfir. Allur húsakostur var endurnýjaður með steinsteyptum byggingum, tún voru stækkuð mjög og jarðræktarstarf var umfangsmikið. Margar myndir úr fjölskyldualbúminu tengjast búskapnum á Kirkjubóli og myndir af húsakostinum fá að fljóta með.




















Félagslíf og fjör
Mjög mikið er í fjölskyldualbúminu af myndum sem eru teknar af hópi fólks utan við húsið á Kirkjubóli. Eftir að nýja húsið kom til virðist hafa verið algengt að smala öllum út á tröppur og taka mynd. Benedikt og Ragnheiður sátu svo sannarlega ekki auðum höndum og það var líf og fjör á Kirkjubóli. Áður en Sævangur kom til voru stundum haldin námskeið þar heima.
Það var líka gríðarlega gestkvæmt á Kirkjubóli út af öllum þeim félagsmálum og verkefnum sem þau hjónin tóku þátt í og sinntu. Þátttaka Benedikts í margvíslegu félagsstarfi var alveg með ólíkindum og Ragnheiður m.a. stofnaði og stýrði kvenfélagi sveitarinnar og kvenfélagasambandi sýslunnar.











