Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Hagleiksmaðurinn Þorsteinn Magnússon (2012-2014)

Sýningin um Steina Magg

Sýningin var sett upp á Sauðfjársetrinu sumarið 2012 og var fyrsta sérsýningin sem var sett upp eftir að Ester Sigfúsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri setursins. Afkomendur Steina Magg höfðu gefið setrinu verkfærasafnið hans úr smíðakompunni nokkru áður og aðstoðuðu með fróðleik, myndir og persónulega muni. Jón Jónsson þjóðfræðingur skrifaði textana, setti upp sýningarspjöldin og sýninguna sjálfa. Sýningin var opnuð í tengslum við 10 ára afmæli Sauðfjársetursins 24. júní 2012 og flutti Jón þar erindi, auk þess sem Ásdís Jónsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir sungu fyrir Steina.

Hér á eftir gefur að líta myndir sem voru á sýningunni og af henni, einnig textana á textaspjöldunum.

Foreldrar og systkini

Þorsteinn Guðlaugur Magnús­son var fæddur 24. ágúst 1901. Foreldar hans voru Bjarnína Guðrún Kristmanns­dóttir (f. 9. júní 1879 í Miðhúsum í Fellshreppi, d. 25. júní 1974) og Magnús Jónsson bóndi í Arnkötlu­dal og víðar (f. 29. okt. 1879 í Tröllatungu í Kirkju­bólshreppi, d. 27. des. 1966).

Þorsteinn átti fjögur systkini og eina fóstursystur. Elstur var Kristmann (f. 2. okt. 1899, d. 29. des.1996), þá kom Þorsteinn, síðan Kristján (f. 17. maí 1907, d. 12. feb. 1913), Elín Júlíana (f. 4. des. 1909, d. 26. júlí 1995) og Guðjón (f. 21. júlí 1911, d. 14. nóv. 2004). Fóstursystir þeirra var Hulda Lilja Sigríður Þorgeirsdóttir (f. 15. des. 1925), húsmóðir á Blönduósi. 

Kristmann bjó í Vestmannaeyjum, kona hans var Sigríður Rósa Sigurðardóttir. Elín bjó á Hólma­vík, maður hennar var Þorsteinn Jónsson frá Broddanesi. Guðjón bjó í Miðhúsum til 1954 og síðan Reykjavík, kona hans var Elín Jónsdóttir frá Broddanesi.

Fjölskylda Þorsteins

Í Bolungarvík kynntist Þorsteinn eiginkonu sinni Arnóru Friðrikku Salóme Eyjólfsdóttur (f. 10. okt. 1913). Þorsteinn og Arnóra sem var kölluð Adda giftust þann 8. júní 1935 í Hólskirkju í Bolungarvík. Þau hófu síðan búskap á Hólmavík og leigðu til að byrja með í húsi Magnúsar Lýðs­sonar. 

Arnóra lést af barnsförum 19. janúar 1937. Dóttir þeirra, Adda Valgerður, var skírð við útför móður sinnar 5. febrúar sama ár. Adda Valgerður bjó lengst af á Hólmavík og átti fimm dætur. Adda lést 6. apríl 2010.

Frá Hvalsá til Hólmavíkur

Þorsteinn fæddist að Hvalsá í Kirkjubólshreppi í Strandasýslu. Foreldrar hans bjuggu og voru í húsmennsku á mörgum bæjum á Ströndum.  Þorsteinn átti heima hjá foreldrum sínum á eftirfarandi stöðum og í þessari röð: Hvalsá, Hlíð í Kollafirði, Heydalsá, Kollafjarðarnesi, Hlíð, Gestsstöðum, Arnkötludal, Hvalsá, Felli, Arnkötludal, Tröllatungu og síðast Hólmavík 1937.

Þorsteinn var á vertíðum í Bolungarvík, en þegar hann og Arnóra giftust 1935 hófu þau búskap á Hólmavík.

Þorsteinn reisti húsið að Brunnagötu 1 á Hólmavík með Kristmanni bróður sínum og foreldrum þeirra árið 1937. Eftir að Kristmann flutti til Vestmanna­eyja í árslok 1939 keypti Þorsteinn hans hlut í húsinu og átti þar heima með foreldrum sínum og dóttur.

Árið 1974 flutti Þorsteinn að Vitabraut 5 á Hólmavík. Síðustu æviárin dvaldist hann svo á sjúkrahúsinu á Hólmavík. Þorsteinn lést 8. nóvember 1996.

Líf og störf

Þorsteinn var sem ungur maður í vinnumennsku á Gests­stöðum og Smáhömrum. Hann fór líka á margar vertíðir til Bolungarvíkur og réri á bát sem Einar K. Guðfinnsson átti. Báturinn hét Tóti frá Bolungarvík og var kallaður Svarti-Tóti.

Líkan af Svarta-Tóta sem Steini smíðaði og mun vera varðveitt á Náttúrugripasafninu í Bolungarvík. Á bátnum hafði Steini róið á vertíðum í Bolungarvík. Einar Guð­finnsson átti Svarta-Tóta og fékk líkanið að gjöf.

Þorsteinn var einnig um tíma formaður á báti sem Riis-verslun á Hólmavík átti og var í kaupavinnu nokkur sumur á Korpúlfsstöðum við að moka skurði vegna túnræktar.

Þegar verið var að byggja hafskipabryggjuna á Hólmavík 1936 vann Þorsteinn við að saga efni í bryggjuna. Á Hólmavík vann hann annars einkum við sjómennsku og netaviðgerðir á vetrum og var í kaupavinnu á sumrum auk þess að heyja fyrir eigin búfénað á Hólmavík.

Þorsteinn starfaði einnig í slátursvinnu á Hólmavík og við annað tilfallandi. Einnig var mikið til hans leitað til að fást við margvís­legar smíðar, á bæði stórum hlutum og smáum.  

Hagleiksmaðurinn Steini Magg

Þorsteinn var einkar handlaginn og iðinn. Hann sat löngum stundum á hefilbekknum sínum við margvíslegar smíðar og sönglaði. Í blaðaviðtali sagðist Steini vilja sitja hátt til að vera nær loftljósinu, en hann hafði á efri árum misst sjón að töluverðu leyti og notaði afar þykk gleraugu. Steini réri fram og aftur á meðan hann tálgaði. Það besta sem hann gerði var að taka í nefið og fylgdu oft miklir hnerrar í kjölfarið.

Smíðisgripir úr sveitasamfélaginu

Á efri árum smíðaði Þorsteinn einkum litla handsverks­muni. Smíðisgripirnir voru sérlega vandaðar litlar eftirlíkingar af margvíslegum búshlutum sem tilheyrðu gamla sveitasamfélaginu. Þar mátti finna hlóðir og moðsuðupott, tóbaksjárn, meisa og kláfa, keröld og kistla, strokka, ausur og prjónastokka, hrífur og orf og margt fleira. Einnig tálgaði hann litla tréhluti, svo sem hesta. Þorsteinn seldi gripina á hóflegu verði og hafði því meira en nóg að gera við framleiðsluna.

Steini vildi helst að fólk vissi til hvers einstakir hlutir væru notaðir og hvað þeir hétu. Það gæfi gripunum aukið gildi.

Marga hluti gerði Þorsteinn eftir minni, en notaði líka sem fyrirmynd teikningar eftir Strandamanninn Tryggva Magnússon í bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas frá Hrafnagili.

Þorsteinn skrifaði jafnan svarbréf beint á þau bréf sem honum höfðu borist og endurnýtti umslögin sömuleiðis. Oft reyndi hann líka að fá far fyrir bréf og hlutina sem hann var að senda, frekar en að senda þá í pósti.

Blaðagrein í Morgunblaðinu 11. mars 1984
Grein og myndir: Guðrún Reykdal og Sigurður Sigurðsson

„ÉG VÆRI KOMINN Í KÖR …“
— Rætt við Þorstein Magnússon á Hólmavík

Í gamla bændasamfélaginu var fjölskyldan framleiðslufyrirtæki og hægt að finna öllum aldurshópum verkefni. En margt hefur breyst. Í iðnaðarþjóðfélagi nútímans lýkur þátttöku margra úti á vinnumarkaðinum í kringum sjötugasta aldursárið. Nú er ólifuð meðalævi sjötugra karla hér á landi rúmlega tólf ár og sjötugra kvenna rúmlega fjórtán ár. Því vaknar óneitanlega sú spurning hvað taki við þegar þátttöku í atvinnulífinu lýkur. Er þessara tímamóta beðið með óþreyju eða kvíðir fólk aðgerðarleysi? Enginn vafi er á því að nauðsynlegt er að vekja fólk, sem náð hefur miðjum aldri, til umhugsunar um þessi tímamót því alltaf er sá möguleiki fyrir hendi að verkalokin leiði til kreppu; einstaklingurinn upplifi það að hætta að vinna sem endalok alls. Sem betur fer er það þó oft svo að verkalokin opna nýjar dyr — tækifæri gefst til að fást við ýmislegt sem aldrei gafst tími til áður.

Það var núna í haust að við lögðum leið okkar í húsið númer 5 við Vitabraut á Hólmavík. Þar sat maður í háu sæti og að hans sögn var það til að vera nær loftljósinu. Oftast lætur fólk sér nægja þessa venjulegu hæð á stólum en það var ekki að ástæðulausu að Þorsteinn Magnússon vildi hafa góða birtu. í hillunum við hliðina á honum var fjöldi smíðisgripa; smækkaðar myndir verkfæra og áhalda frá gamalli tíð. Þessi verkfæri ber fæst fyrir augu í daglegu lífi. Stór hópur fólks veit ekki einu sinni heiti þeirra eða til hvers þau voru notuð. En áður en við tókum að rekja úr Þorsteini garnirnar varðandi smíðisgripina forvitnuðumst við lítillega um ævi hans.

Þorsteinn er Strandamaður,  fæddur á Hvalsá í Tungusveit 24.  ágúst árið 1901. Hann sagðist alltaf hafa verið á hrakningi sem barn þar sem foreldrar hans voru í húsmennsku hingað og þangað. Frá því að hann komst á legg  stundaði hann bæði sjó og land;  var í kaupavinnu og fór í verið. Þá  var farið gangandi yfir Steingrímsfjarðarheiði yfir í Djúpið og báru menn pjönkur sínar á bakinu. Þorsteinn sagðist hafa farið á fyrstu vertíðina sína í kringum 1920. Hann fór alls sautján eða átján sinnum og var alltaf hjá sama manninum, sem gekk undir nafninu Afla-Kitti.

Vorið 1936 kom hann til Hólmavíkur og settist þar að. Það vor var verið að reisa bryggju á Hólmavík og vann Þorsteinn við sögun. Allar götur síðan hefur hann verið búsettur á Hólmavík.

Þorsteinn byrjaði á módelsmíðunum fyrir nokkrum árum og smíðar eingöngu eftir minni. I hillunum hjá honum má m.a. sjá skyrgrind, mjólkursíu, mjólkurfötu, torfljá, ristuspaða, fjósbera, taðkvörn (eldri útgáfuna sem er ekki með sveif), hlóðir með hlóðabökuðu grasabrauði og hest að draga hey. Hann smíðar yfir fimmtíu tegundir smíðisgripa og alltaf smábætir hann við nýjum gripum.

Ekki þarf að spyrja að því að það er margur sem hefur áhuga á að eignast þessa gömlu gripi þannig að Þorsteinn hefur ekki undan að smíða. Ekki dregur það úr áhuganum að verðinu er mjög í hóf stillt. Þorsteinn sagði að það væri fólk alls staðar frá sem  keypti hjá honum, hann vissi ekki  hvar í andskotanum það hefði  snapað þetta uppi, eins og hann orðaði það, en sjálfsagt væri það í gegnum kunningjafólk.

Honum mislíkaði greinilega að mörgum þeirra, sem sækjast eftir gripunum, er sama til hvers þeir voru notaðir. Hann sagðist hafa byrjað á smíðunum til að þekkingin um þessi gömlu verkfæri og áhöld týndist ekki og ef fólk hefði ekki áhuga á að vita neitt um gripina misstu þeir gildi sitt. Hann ítrekaði þó að það væru nú ekki allir sama sinnis því margir kaupendanna hefðu skrifað ýmislegt hjá sér.

Þau verkfæri sem Þorsteinn notar við smíðarnar eru einnig merkileg því þau eru heimatilbúin. Hann fékk mann til að taka ljá í sundur fyrir sig og setti síðan skaftið á sjálfur. Sköftin eru sver til að þau fari vel í hendi.

Smíðisgripirnir hans Þorsteins eru ólíkir fjöldaframleiðslu nútímans því þeir bera það með sér að nostrað hefur verið við þá. Þeir eru vel pússaðir því enginn á að geta fengið flís ef hann handleikur þá. Og á einum þeirra fundum við „vörumerkið” hans því Þorsteinn ber það stundum við að taka í nefið.

Við kvöddum þennan hressa karl og þökkuðum fyrir spjallið. Þorsteinn lét þau orð falla að það væri lúxus fyrir sig að hafa smíðarnar því ef hann hefði þær ekki væri hann kominn í kör. Óneitanlega væri fróðlegt að kynnast því hvað eldra fólk, sem ekki er lengur úti á vinnumarkaðinum, hefur fyrir stafni. Hver veit, ef til vill  verður tekið hús á fleirum, en það verður að bíða betri tíma.

Grein og myndir: Guðrún Reykdal og Sigurður Sigurðsson 

Myndir frá undirbúningi og opnun sýningarinnar í Sauðfjársetrinu 2012

Sýningin um hagleiksmanninn Steina Magg var formlega opnuð í tilefni af 10 ára afmæli Sauðfjársetursins 24. júní 2012. Þarna er hefilbekkurinn hans, skúffur og skápar, kollurinn sem var jafnframt geymsla og allskonar áhöld, auk sýnishorna af þeim gripum sem hann smíðaði og seldi um land allt.