Hrútaþuklið 2014 – Björn Þormóður Íslandsmeistari
Góð stemmning var á Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum sem fram fór á Sauðfjársetrinu á Ströndum í síðasta mánuði. Tæplega sextíu manns kepptust þar við að þukla hrúta en markmið keppninnar var að finna út gæðaröðina á gripunum og segja til um kosti þeirra og galla. Þeir sem kepptu í flokki vanra hrútaþuklara gáfu þeim stig fyrir margvíslega eiginleika og sérskipuð dómnefnd helstu hrútasérfræðinga landsins sá um dómgæsluna. Keppendur og áhorfendur komu víða að af landinu og höfðu gaman af þessari sérkennilegu skemmtun.
Björn Þormóður Björnsson frá Ytra-Hóli, Austur-Húnavatnssýslu fór með sigur á hólmi í flokki vanra þuklara en Björn sigraði einnig árið 2005. Kristján Albertsson frá Melum í Árneshreppi var í öðru sæti í keppninni, en hann hefur sigraði í hópi vanra þuklara fjórum sinnum. Í þriðja sæti urðu jöfn Helga Guðmundsdóttir úr Stykkishólmi og Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum. Í fyrsta sæti í flokki óvanra var Orri Steinn Valdimarsson, í öðru sæti var Elías Guðjónsson á Heydalsá og í þriðja sæti varð Þorsteinn Guðmundsson.
Vegleg verðlaun voru í boði sem gefin voru af Hótel Eddu, Ferðaþjónust bænda, SAH afurðum, Sæferðum, Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, Ístex og Sauðfjársetri á Ströndum.
Sigurvegarinn varðveitir í eitt ár farandgrip sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árnesi smíðaði úr hvalbeini og rekaviði. Hann gaf Búnaðarsamband Strandamanna til minningar um Brynjólf Sæmundsson sem var héraðsráðanautur á Ströndum í áratugi. Þennan sama dag og hrútadómarnir voru haldnir var opnuð sýning á Sauðfjársetrinu tileinkuð Brynjólfi sem fjallaði um æfi hans og störf héraðsráðunauta.
Eins var haldið happdrætti með líflömb í vinninga á mótinu. Strandalömb eru frábær á fæti en lambakjöt af Ströndum er líka frábært á hvern disk.