Kindahjörðin mín (2024)
Málverkasýningin Kindahjörðin mín var uppi á Kaffi Kind sumarið 2024. Listakonan Hólmfríður Ólafsdóttir á heiðurinn af þeirri sýningu sem var opnuð þann 6. júní. Þetta var skemmtileg sölusýning sem heppnaðist mjög vel. Sjá nánar á síðu hennar ArtHofy á Facebook. Það sem eftir var af sýningunni var tekið niður í lok ágúst, en sumar myndirnar höfðu selst yfir sumarið.
Frá Hólmfríði:
“Árið 2022 ætlaði ég að mála svolítið af lundamyndum í Eyjum, en þegar ég fór til að taka myndir urðu aðeins á vegi mínum kindur og lömb. Lundarnir voru ekki viðlátnir þetta sumarið. Upphófst þá þessi sería af myndum af kindum víðsvegar um Vestmannaeyjar og svo hafa þær farið vítt og breytt um landið. Sauðkindin er skemmtilegt myndefni og hægt að gera þær í öllum mögulegum útgáfum.”
Hver er Hólmfríður Ólafsdóttir?
“Ég er fædd og uppalin á Siglufirði og þar bjó ég til sextán ára aldurs. Ég gekk í Grunnskóla Siglufjarðar og þá strax hafði ég mikinn áhuga á því að teikna og mála. Ætlaði að verða málari þegar ég yrði stór. Hélt áfram í framhaldsskóla á Sauðárkróki að læra módel teikningu og stefndi á myndlistaskólann í Reykjavík. Örlögin tóku yfir og leiddu mig í Iðnskólann í Reykjavík þar sem ég lærði klæðskurð og starfaði við það í 10 ár. Aftur tóku svo örlögin að spinna sinn vef sem varð til þess að ég fór í Guðfræðideild Háskóla Íslands og nam þar djáknafræði og guðfræði sem ég starfa við í dag.
Ég er gift Guðmundi Elíassyni sem er hreinræktaður Eyjamaður og ég á þrjú uppkomin börn af fyrra hjónabandi, þau Þorbjörn Óla, Hákon Orra og Sigrúnu Völu. Þau hvetja mig öll áfram í listinni og styðja mig og styrkja.
Í gegnum árin hef ég alltaf verið að mála eitthvað og teikna en fór í Myndlistaskóla Kópavogs haustið 2015 þar hef ég lært margt og er stöðugt að þróa mig í minni myndlist. Ég hef tekið þátt í nokkrum sýningum með Lista og menningarfélagi Vestmannaeyja og einnig verið þar með einkasýningu og á þar athvarf þar sem ég nýt þess að mála. Ég er búsett í Mosfellsbæ og hef haldið þrjár einkasýningar á höfuðborgarsvæðinu. Að mála er mín núvitund og fæ ég bæði útrás og ánægju af því.”