Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Gönguleiðir og útisýning

Göngustígurinn Sjávarslóð

Göngustígurinn Sjávarslóð hentar öllum. Þar er um að ræða stuttan og vandaðan göngustíg frá Sævangi út á enda Orrustutanga (500 m), sem er tanginn þar sem Sævangur stendur. Hann er auðveldur yfirferðar og við stíginn eru skemmtileg söguskilti og skúlptúrar.

Göngustígurinn í Orrustutanga og útisýningin við hann var formlega opnuð 17. júní 2020. Stígurinn fékk síðar nafnið Sjávarslóð. Þar við stíginn eru ýmis ummerki um starfsemi Náttúrubarnaskólans, einnig 16 söguskilti með margvíslegum fróðleik, blómamerkingar og bekkir. Þarna eru líka tveir glæsilegir skúlptúrar eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson. Annars vegar er það Njörður sjávarguð og hins vegar þjóðtrúarvera sem heitir finngálkn.

Úti í tanganum er líka minnismerki eftir Arngrím um dagbókarritarann Jón Jónsson (1795-1879) sem bjó alla sína tíð við Steingrímsfjörðinn. Dagbók hans frá árabilinu 1846-1879 er ómetanleg heimild um lífið við Steingrímsfjörð á 19. öld. Unnið er að rannsókn og útgáfu á bókinni á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Sjávarguðinn Njörður – skúlptúr úr hvalbeini og timbri eftir Arngrím Sigurðsson

Kirkjubólshringur

Lengd: 5,4 km (frá og að Sævangi) — Hækkun: 220 m — Auðveld ganga

Kirkjubólshringur er merkt gönguleið um Kirkjubólsfjall sem er tengd við Sauðfjársetrið í Sævangi. Leiðin um Kirkjubólsfjall er skemmtileg og þægileg gönguleið fyrir alla fjölskylduna. Leiðin er um fimm kílómetrar, þannig að ætla má að fólk með börn sé tvo tíma að rölta hana í rólegheitum. Leiðin er stikuð og við hana eru örnefnaskilti. Útsýnið yfir Steingrímsfjörð er frábært þegar efsta hjalla er náð. Hér má sjá kort af leiðinni á fjallið ofan við Kirkjuból.

Kort af Sævangi, Kirkjubóli og gönguleiðinni um Kirkjubólsfjall – Teikning: Ómar Smári Kristinsson

Gengið er frá Sævangi heim að Kirkjubóli og upp túnið eftir gömlum dráttarvélaslóða sem liggur upp með Kirkjubólsgili. Árið 1936 var gilið virkjað og sjást leifar af virkjuninni neðan við lítinn foss innan við girðinguna. Slóðinn með gilinu er genginn upp að Öxlum og upp á Hnúka sem er hæsti hjalli ferðarinnar. Þar er beygt af vegarslóðanum, sem liggur lengra fram á fjallið. Hnúkar eru í 220 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar ofar er Þrílækjaflói sem er gamalt slægjuland og þar eru líka tóftir af gömlu seli frá Kirkjubóli.

Frá Hnúkum er gengið niður að Ytri-Hnúkum og svo að Hvalvíkurgili. Neðan við einn hjallann má sjá gamlar mógrafir. Gengið er með Hvalvíkurgilinu niður í Hvalvík, fyrir neðan veg. Úr Hvalvík er síðan gengið yfir í Brimvík og um Stekkjarhöfðann. Þar hafa verið stekkir og nátthagar, þegar ær voru enn mjólkaðar í kvíum. Gengið er um Langatanga heim að bænum á Kirkjubóli og þaðan aftur í Sævang.