Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Safnastarfið og verkefnaáætlun

Sauðfjársetur á Ströndum safnar munum sem tengjast sauðfjárbúskap, einkum á Ströndum, einnig myndum og minningum af svæðinu. Safnið sinnir öllum þáttum safnastarfs, söfnun og skráningu, forvörslu gripa og varðveislu fyrir komandi kynslóðir, rannsóknum og miðlun, eftir bestu viðurkenndu aðferðum og er í samstarfi við aðrar menningar- og rannsóknastofnanir á svæðinu og landsvísu í því skyni.

Náttúrubarnaskólinn er stóra verkefni Sauðfjársetursins í safnkennslu, þar er kennslustofan náttúran í kringum safnið. Einnig hafa verið skipulögð margvísleg námskeið og fróðleikur fyrir skólahópa og í samvinnu við t.d. Grunnskólann á Hólmavík.

Stefna um starfsemi Sauðfjársetursins 2020-2024

Stjórn Sauðfjárseturs á Ströndum ses hefur samþykkt starfstefnu fyrir safnið til fimm ára. Stefnan á við um árabilið 2020-2024. Hún er í samræmi við markmið Sauðfjársetursins er fram koma í stofnskrá, en þau eru að;

„safna saman, varðveita, skrá og rannsaka muni, minjar, myndir og vitneskju um sauðfjár­búskap fyrr og síðar með sérstakri áherslu á þátt Strandasýslu. Ennfremur að miðla þessari vitneskju til almennings með sýninga­haldi, uppákomum, fyrirlestrum og útgáfuverkefnum. Í þessu starfi er stofnuninni heimilt að hafa samstarf við einstaklinga, fyrirtæki, félög, stofnanir, sveitarfélög og ríki.“

Í starfstefnunni er fjallað um rekstur, uppbyggingu og þróun safnsins og þau verkefni sem stefnt er að hvað varðar ólíka þætti starfseminnar, til að Sauðfjársetrið geti náð markmiðum sínum og sinnt hlutverki sínu sem best.

Skráð starfstefna kemur safninu sjálfu að góðum notum þar sem forgangsröðun aðgerða og yfirsýn yfir væntanleg verkefni eru forsendur þess að starf safnsins næstu árin sé faglegt og yfirvegað. Í starfsstefnunni kemur fram hvaða málefni eru brýnust hverju sinni og hvaða verkefni eru mest aðkallandi.

Hildur Pálsdóttir á Geirmundarstöðum með kennslu í ullarvinnslu fyrir börnin í 1.-7. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík 2012,
ásamt kennurunum Ástu Þórisdóttir og Dagrúnu Magnúsdóttur

Safnastarf

  • Sauðfjársetur á Ströndum ses, safnstjóri, starfsmenn og stjórn stofnunarinnar munu fylgja alþjóðlegum siðareglum ICOM í hvívetna í starfi sínu á árabilinu 2020-2024. Ætlunin er að leggja mikla áherslu á að safnastarfið sjálft þróist á sem faglegastan hátt á þessu tímabili.
  • Unnið verði að fyrirbyggjandi forvörslu safnmuna. Aðstaða í geymslum þarf að bæta á tímabilinu og ljúka pökkun safngripa í geymslum. Varðveisla alls safnkostsins þarf að vera í takt við kröfur Safnaráðs til viðurkenndra safna fyrir lok tímabilsins og öll öryggisatriði að vera í eins góðu lagi og kostur er.
  • Stefnt er að því að skráningu allra gamalla ljósmynda sem safnið hefur eignast í árslok 2022 verði lokið á tímabilinu í skráningarkerfið Sarp, en Sauðfjársetur á Ströndum ses er aðili að Sarpi. Jafnframt verði sett markmið um að ljúka skráningu a.m.k. 300 gripa í kerfið og hefja skráningu á minningasöfnun.
  • Leggja á ríka áherslu á söfnun á myndum og heimildum á tímabilinu, bæði úr samtímanum og frá fyrri tíð. Heimildasöfnun með viðtölum verði efld og einnig úrvinnsla og miðlun á þeim heimildum.

Niðurstaða: Árið 2024 verði búið að efla faglegt safnstarf Sauðfjárseturs á Strönd­um til muna. Aðbúnaður í geymslum verði til fyrirmyndar og í takt við kröfur Safnaráðs. Munir og gamlar myndir verði skráðir í skráningarkerfið Sarp. Söfnun heimilda og úrvinnsla hafi aukist til muna. Safnkostur í formi ljósmynda aukist um helming á tímabilinu.

Sýningar og miðlun

  • Fastasýning safnsins í Sævangi, Sauðfé og sveitafólk á Ströndum, verði áfram uppi allt árið. Fyrstu árin verði reglulegur opnunartími alla daga vikunnar í þrjá mánuði yfir sumartímann, og eftir samkomulagi yfir veturinn. Fastur opnunartími sýningarinnar verði orðinn 4 mánuðir haustið 2024.
  • Fastasýning safnsins í Sævangi verði endurbætt og þróuð áfram. Aukin áhersla verði lögð á gagnvirkni og stafræna miðlun.
  • Stefnt er að því að fastasýning safnsins í Sævangi verði á að minnsta kosti fjórum tungumálum; frönsku verði bætt við íslensku, þýsku og ensku. Markaðssetning safnsins verði jafnframt sniðin í mjög auknum mæli að erlendum markhópi, m.a. með framsetningu upplýsinga á vef safnsins.
  • Vefur safnsins verði endurnýjaður frá grunni. Fróðleikskista Sauðfjársetursins á vefnum verði birt á ensku og þýsku, auk íslensku eins og nú er.
  • Settar verði upp sérsýningar, a.m.k. ein á ári, um viðfangsefni er samræmast sýningarstefnu Sauðfjársetursins. Safnið getur fengið utanaðkomandi fagaðila til að setja upp sérsýningu um ákveðin efni.
  • Bætt verði við útisýningu við Sævang og þannig verði sýningarrýmum safnsins fjölgað um eitt og verða þá fimm á og við safnið.
  • Stefnt er að fjölgun heimsókna skólahópa og þróunarvinnu við safnfræðslu vegna slíkra heimsókna.
  • Leggja á aukna áherslu á miðlun á fróðleik og rannsóknir, m.a. með útgáfuverkefnum. Stefnt er að útgáfu þriggja bóka á tímabilinu.  

Niðurstaða: Árið 2024 verði sýningin í Sævangi með fastan árlegan opnunartíma í fjóra mánuði á ári. Fastasýning í Sævangi verði orðin myndrænni, og að einhverju leyti gagnvirk og tæknivædd, á fjórum tungumálum og öll svæði hennar verði tilbúin. Opnaðar verði árlegar sérsýningar um ákveðin viðfangsefni á tímabilinu, safnfræðsluefni fyrir grunnskóla verði tilbúið til notkunar og miðlun verði öflug á vef og sýningum safnsins. Bókaútgáfa bætist við önnur afrek.

Viðburðahald

  • Árlegir stórviðburðir verði haldnir áfram: Íslandsmótið í hrútadómum og Sviðaveislan. Furðuleikar verði endurskoðaðir, en áfram haldið með þjóðhátíðarkaffi í Sævangi á 17. júní, þjóðtrúarkvöldvöku í september meðan álagablettasýningin er uppi. Virk þátttaka verði í lista- og menningarhátíðum á svæðinu eftir fremsta megni, einnig í bæjarhátíðum Strandabyggðar.
  • Leitast verður við að halda úti frekara viðburðahaldi og efla þannig mannlíf á svæðinu. Sögurölt, spilavist, kvöldvökur og viðburðir eru á dagskránni hér eftir sem hingað til, bæði í tengslum við sýningar safnsins og önnur efni.
  • Haldið verði ærlega upp á 20 ára afmæli Sauðfjársetursins árið 2022.
  • Starfsemi Náttúrubarnaskólans verði haldið áfram og Náttúrubarnahátíð haldin árlega.

Niðurstaða: Stórviðburðir verða áfram á dagskrá og efla skal viðburðahald enn frekar og samstarf við ferðaþjóna, menningarstofnanir og listafólk. Áhersla er lögð á Náttúrubarnahátíðina og þróun hennar.

Húsnæðismál

  • Sauðfjársetrið á 66,67% hlut í félagsheimilinu Sævangi. Stefnt er að því að skilgreina og hrinda í framkvæmd umbótum á öryggismálum í húsinu og unnið að verkefnum sem snúast um fyrirbyggjandi forvörslu í húsinu. Lýsing í sýningarhlutanum verði endurnýjuð á tímabilinu og UV-filmur settar í glugga sýningarsala. Aðgengi fyrir fatlaða að sýningarhúsinu, sem var áhersluatriði á síðasta tímabili, hefur þegar verið bætt, þannig að viðunandi er að mestu leyti.
  • Samvinna er við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu um rannsókna- og vinnuaðstöðu í Þróunarsetrinu á Hólmavík frá 2016. Sú samvinna hefur reynst mjög vel.
  • Vinna þarf að aðkallandi viðhaldi á Sævangi. Skipta þarf um hluta af gluggum hússins, laga aðstöðu starfsmanna, gera úrbætur  í kjallara og fleira. Þá þarf að gera kostnaðarkönnun varðandi það stórverkefni að skipta um klæðningu á húsinu.
  • Skipuleggja þarf frekari geymsluúrræði eftir því sem framkvæmdum í Sævangi fleygir fram.

Niðurstaða: Vinna þarf að framkvæmdum í Sævangi skv. áætlun og endurnýja lýsingu í sýningarsölum. Setja þarf UV-filmu í glugga, endurnýja glugga í kaffistofu, sérsýningarrými og salernum. Vinna þarf að umbótum í geymslum og kjallara undir sviði. Gera þarf könnun á kostnaði við að klæða húsið að nýju, fyrst vesturgaflinn.

Starfsmannahald

  • Stefnt er að því að starfshlutfall safnstjóra verði aukið úr hálfu starfi í fullt starf á tímabilinu, þegar og ef fjárhagur safnsins og rekstrarstyrkir til þess leyfa slíka eflingu starfseminnar.
  • Einnig að skapa hálft starf á ársgrunni við ýmis sérverkefni, auk stöðu safnstjóra. Í tengslum við þetta verður leitað sérstaklega eftir eða ýtt úr vör margvíslegum sérverkefnum, rannsóknum eða skráningarvinnu sem gætu eflt starfsemi safnsins.
  • Stefnt er að því að safnið skapi 2 manneskjum að auki fulla atvinnu yfir sumartímann með vinnu við safnið.

Niðurstaða: Starfshlutfall safnstjóra verði aukið í 100% um leið og mögulegt er. Stöðugildi við safnið á ársgrundvelli verði í lok tímabilsins a.m.k. 1,5, en 3,5 yfir sumartímann.

Önnur starfsemi 

  • Stefnt er að því að reglulega verði gerðar greiningar á starfsemi safnsins með aðstoð sérfræðinga í stoðkerfi Vestfjarða. Slík samantekt og hugmyndavinna hefur reynst vel og er mikilvægt hjálpartæki til að skilgreina stöðu stofnunarinnar, möguleika og tækifæri.
  • Stefnt er að því að Sauðfjársetrið efli samstarf sitt við fræðasetur og ferðaþjóna, menningarstofnanir og skóla á Ströndum. Einnig verði gert átak í samvinnu við bændur sem bjóða upp á heimsóknir eða selja vöru beint frá býli.
  • Leitast skal við að efla enn hlutverk Sauðfjársetursins í mannlífi og menningu í héraðinu, jafnt sumar sem vetur. Halda skal áfram að þróa og byggja upp atburði.

Niðurstaða: Gera skal greiningar á starfsemi safnsins með reglulegu millibili. Efla skal viðburðahald en frekar og auka samstarf við ferðaþjóna, skóla og bændur í héraði sem framleiða eða selja vöru beint frá býli.

Samþykkt á stjórnarfundi Sauðfjárseturs á Ströndum 8. desember 2019