Sauðfé í sögu þjóðar – sumaropnun 2004
Sauðfé í sögu þjóðar
Sumaropnun skemmtilegrar sögusýningar um sauðfjárbúskap fyrr og nú í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð. Opið verður alla daga vikunnar yfir sumarmánuðina frá 10:00-18:00. Kaffihlaðborð alla sunnudaga og nú verður einnig opin sjoppa í Sævangi í fyrsta sinn síðan Sauðfjársetrið tók til starfa.
Sýning Sauðfjársetursins í Sævangi verður opnuð núna klukkan 10 í dag og verður síðan opin alla daga frá 10:00-18:00 í sumar, fram að 31. ágúst. Sýningin er með hefðbundnu sniði og hægt er að kaupa kaffi og með því í kaffistofunni. Handverksbúðin er starfrækt eins og áður og handverksfólk á Ströndum hvatt til að koma til okkar gripum í sölu.
Aðstandendur sýningarinnar hafa staðið í ströngu síðustu daga við að setja upp sýninguna og er flest allt frágengið. Verið er að ganga frá búrborði sem ákveðið var seint í gærkveldi að bæta við og setja upp tjald.
Von er á heimsókn fyrsta hópsins um hádegisbilið í súpu og kaffi, þar er á ferðinni stórfjölskylda sem dvalið hefur síðustu daga á Ströndum og haldið upp á 60 ára afmæli. Annars er vöffludagur í Sævangi í dag og heilmikil gleði. Ef nægur mannskapur verður á staðnum verður farið í fjölskyldufótbolta á vellinum við Sævang.