Söfnunar-, sýninga- og fræðslustefna 2020-2024
Sauðfjársetur á Ströndum ses – Samþykkt af stjórn 8. desember 2019
1. Kynning
1.1. Saga safnsins
Eftir tæplega ársvinnu undirbúningshóps var þann 10. febrúar 2002 stofnað félag á Ströndum sem hét Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum. Um þrjátíu manns gengu í félagið á stofnfundi. Söfnun muna, minja og mynda hófst á vordögum sama ár og félagið stóð síðan að formlegri stofnun safnsins Sauðfjársetur á Ströndum sem opnaði þann 23. júní 2002 sýningu í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð sem bar yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar.
Haustið 2008 var ráðist í breytingar á stjórnskipulagi safnsins. Félag áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum afsalaði sér rekstri safnsins og öllum eignum þess og skuldbindingum til sjálfseignarstofnunar sem fékk heitið Sauðfjársetur á Ströndum ses.
1.2. Stjórnskipulag
Sauðfjársetrið er sjálfseignarstofnun og minjasafn sem starfar eftir skipulagsskrá sem staðfest hefur verið af Safnaráði. Safnið er með sjálfstæðan fjárhag, starfar eftir safnalögum nr. 141/2011, lögum um menningarminjar nr. 20/2012 og siðareglum ICOM. Jafnframt starfar safnið eftir lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999. Stjórn stofnunarinnar fer með málefni þess. Í stjórn eru 3 aðalmenn og 3 varamenn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum.
Sauðfjársetrið vinnur eftir starfstefnu sem er endurskoðuð af stjórn og safnstjóra á fjögurra ára fresti. Söfnunar-, sýningar- og fræðslustefna er einnig samin og samþykkt af stjórn safnsins. Hana skal einnig endurskoða á fjögurra ára fresti.
1.3. Núverandi húsakostur
Félagsheimilið Sævangur; Sauðfjársetrið á 66,67% hlut í félagsheimilinu Sævangi í Tungusveit, en Sævangur er 439 m² bygging. Í húsinu er fastasýning safnsins, Sauðfé í sögu þjóðar, til húsa. Sævangur var reistur árið 1957 og þar var lengi öflugt félags- og skemmtanalíf, en heldur hallaði undan fæti er leið á síðasta áratug nýliðinnar aldar. Meðeigandi að húsinu í árslok 2019 (33,33% hlutur) er Ungmennafélagið Hvöt í Tungusveit. Sauðfjársetrið sér um allan rekstur og kostnað.
2. Safnið
2.1. Markmið
Markmið Sauðfjárseturs á Ströndum er að safna, skrá, varðveita og miðla upplýsingum um muni, minjar, myndir, verkkunnáttu, frásagnir og aðrar heimildir sem hafa gildi fyrir sögu sauðfjárbúskapar í landinu. Sérstök áhersla er lögð á sögu og sérstöðu sauðfjárbúskapar í Strandasýslu í öllu starfi safnsins.
Strandasýsla er eitt ræktarlegasta svæði landsins hvað viðkemur sauðfjárbúskap. Safninu er ætlað að hafa jákvæð áhrif á ímynd og sjálfsmynd sauðfjárbænda sem og menningu og mannlíf á starfssvæði sínu. Kappkosta skal að sýna hvernig allar hliðar sauðfjárbúskapar eru og hafa verið samofnar daglegu lífi og umhverfi bændafólks á Ströndum. Þessum markmiðum skal Sauðfjársetrið ná með margvíslegri verkefnavinnu, rannsóknum, miðlun og fræðslu.
Safn Sauðfjársetursins skal starfa allt árið og sýning þess vera opin í að minnsta kosti 3 mánuði á ári yfir sumarmánuðina. Safnstjóri skal starfa í að minnsta kosti 50% stöðu á ársgrundvelli.
2.2. Söfnunarsvæði
Söfnunarsvæði safnsins er Strandasýsla. Þar sem söfnunarsvæðið skarast við söfnunarsvæði annarra safna skal hafa í heiðri siðareglur ICOM – Alþjóðaráðs safna, eins og í öllu öðru starfi Sauðfjársetursins. Í kafla 3.10. í siðareglum ICOM (útg. 2004) segir að starfsfólk safna skuli viðurkenna og halda á lofti nauðsyn þess að eiga samstarf og samráð milli stofnana sem hafa sameiginleg svið og söfnunarstefnu. Sauðfjársetrið fer eftir þessu í einu og öllu og virðir þannig söfnunarsvið og svæði annarra safna og gerir sér grein fyrir að öflun safngripa verði í sumum tilvikum að vera í samráði við önnur söfn.
2.3. Rannsóknir og rannsóknaraðstaða
Safnið skal stuðla að, hvetja til og styðja við rannsóknir í samræmi við söfnunar- og sýningastefnu þess. Hvetja skal til að stundaðar verði rannsóknir á þeim gögnum, heimildum og munum sem safnið á og safnar.
Muna- og gagnageymsla ásamt vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn sem rannsaka safneignir skal uppfylla kröfur samtímans um slíkt húsnæði. Heimilt er að leysa þessi mál í samvinnu við aðra aðila og rannsóknasamstarf er m.a. við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Safnið skal leitast við að eiga og varðveita eintök af ritgerðum, skýrslum, greinargerðum og rannsóknarniðurstöðum sem verða til fyrir tilstilli safnsins eða með aðstoð þess.
3. Söfnunarstefna
3.1. Atvinnuhættir
Sauðfjársetur á Ströndum leggur áherslu á að safna munum, minjum, myndum og heimildum úr eftirtöldum flokkum:
Búskaparhættir. Safnað er heimildum, munum og minjum sem lýsa á skýran hátt starfsháttum og þróun sauðfjárbúskapar, með sérstakri áherslu á Strandasýslu. Árstíðabundin störf, verkfæri og verklag sauðfjárbóndans við þau, m.a. við vorverk, sauðburð, heyskap, sláturtíð og vetrarverk, eru meðal áhersluþátta við söfnun.
Sauðfjárrækt. Safna skalmunum, minjum og heimildum sem tengjast bændamenningu, félagsstörfum bænda, sauðfjárræktarfélögum og annarri starfsemi tengdri sauðfjárrækt, og starfsmönnum slíkra samtaka, t.d. ráðunautum og eftirlitsmönnum. Sérstaka áherslu skal leggja á sauðfjárrækt og félög í Strandasýslu.
3.2. Vélar og landbúnaðartæki
Safnað er munum, minjum, myndum og heimildum sem tengjast vélvæðingu landbúnaðarins frá upphafi. Hvað varðar vélar og stærri tæki er ætlunin að setrið eignist aðeins fáein vel valin eintök sem eru dæmigerð fyrir sögu vélvæðingar og varpa ljósi á þróun hennar á Ströndum. Einnig er safnað munum og heimildum um sérstakar tækninýjungar sem hafa haft sérstakt gildi fyrir landbúnaðinn og dagleg störf fólks í sveit. Einnig er lögð áhersla á söfnun upplýsinga um áhrif tækninýjunga á landbúnað, sérstaklega sauðfjárbúskap, og breytingar sem þær hafa haft í för með sér.
3.3. Heimilishald
Safnað er munum, myndum og upplýsingum sem varpa ljósi á daglegt líf bænda á Ströndum fyrr og nú. Breytingum á högum þeirra samfara vélvæðingu og mikilli þróun í skýrsluhaldi varðandi sauðfjárbúskap á 20. og 21. öld eru gerð skil.
3.4. Ljós- og prentmyndir
Safnað er ljósmyndum og eftirtökum mynda af öllu sem viðkemur sögu sauðfjárbúskapar, byggðasögu og mannlífi á söfnunarsvæðinu. Söfnunarstefnan er þannig víðtækari hvað varðar ljósmyndir og minningar en önnur efni. Hér með talið eru kvikmyndir og myndbönd. Hafa skal samvinnu við aðrar safnastofnanir eða fagaðila um varðveislu og flokkun ljósmynda og kvikmynda, þannig að ávallt verði tryggt að varðveisluskilyrði séu eins og best verður á kosið.
3.5. Skjöl og pappírsgögn
Safnað er skjölum og pappírsgögnum sem hafa þýðingu fyrir byggðasögu á Ströndum og sögu sauðfjárbúskapar á Ströndum, rekstur búnaðar- og sauðfjárræktarfélaga og annarrar starfsemi sem tengist sauðfjárbúskap og snertir sögu og sérstöðu svæðisins á einhvern hátt. Skjöl og pappírsgögn skulu geymd við öruggar aðstæður og aðeins meðhöndluð undir eftirliti þar til bærra manna. Stefnt er að samvinnu við væntanlegt Héraðsskjalasafn um varðveislu frumskjala af svæðinu.
3.6. Bækur, viðtöl og skáldskapur
Safnað er frásögnum og viðtölum um sauðfjárbúskap og atburði sem tengjast sögu sauðfjárbúskapar á söfnunarsvæðinu. Litið er til samstarfs við Héraðsbókasafn Strandasýslu um söfnun og varðveislu sagnfræðirita, ævisagna, skáldsagna og annars prentaðs efnis í samræmi við söfnunarsvið. Safnið skal jafnan vinna að og viðhalda ritaskrá um efni sem varða starfsvið safnsins.
3.7. Flokkar utan söfnunarstefnu safnsins
Halda skal uppi góðu samstarfi við samstarfsaðila safnsins um varðveislu muna og minja. Vísa skal til annarra safna munum og upplýsingum eins og við á og jafnframt benda öðrum söfnum á upplýsingar og muni sem tilheyra þeirra söfnunarsviði. Af öðrum söfnum af svipuðum toga má nefna Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Safn sem söfnunarsvæði skarast við er Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði,
Af flokkum sem falla utan söfnunarstefnu Sauðfjárset ursins má nefna að ekki er safnað munum eða heimildum úr öðrum greinum landbúnaðar nema augljós tengsl séu við sauðfjárbúskap Strandamanna.
4. Aðferðir við söfnun, forvörslu og grisjun
4.1. Aðferðir við söfnun
Safnið tekur á móti gripum sem bjóðast, auk þess að auglýsa eftir og safna munum sem falla undir söfnunarstefnuna. Leitað er markvisst eftir munum sem safnið telur sig þurfa að eignast. Safnið getur keypt muni ef stjórn safnsins samþykkir kaupin.
4.2. Móttaka og skráning gripa
Safnið skal leitast við að skrá alla muni í skráningarkerfið Sarp. Lögð er áhersla á nákvæma skráningu nýrra aðfanga og að eldri skráningar og óskráðir munir verði færðir inn í gagnagrunninn sem fyrst.
Kvittun er gefin við afhendingu safngripa, undirrituð af starfsmanni safnsins. Á henni skal koma fram hver afhendir og hvaða gripi. Við móttöku skal skrá niður eins nákvæmlega og hægt er allar upplýsingar sem fá má um gripina, hver afhendir og einnig eigenda- og framleiðslusaga gripanna, notkun þeirra og feril. Skrá skal alla muni í aðfangabók, þar sem fram kemur komudagur þeirra og hver það er sem afhendir.
4.3. Forvarsla og meðferð gripa
Þegar tekið er við grip er hann hreinsaður ef með þarf, skráður og búið um hann til geymslu eða sýningar. Safnvörður skal hafa í huga að hægt er að ráðfæra sig við forverði Þjóðminjasafns Íslands og ber að gera það undantekningarlaust ef vafaatriði koma upp um forvörslu, lagfæringu eða meðferð á safngrip.
Ef safnið getur ekki varðveitt grip í þeim húsakynnum sem það hefur yfir að ráða, skal afþakka hann og benda á annað safn eða koma honum fyrir á öruggum stað, með sérstökum skriflegum samningi, þangað til safnið getur tekið hann í sína vörslu.
4.4. Grisjun
Ætíð skal leitast við að haga móttöku muna þannig að komist verði hjá grisjun. Munum sem hafa verið skráðir í safnið má ekki farga nema í undantekningartilfellum; vegna skemmda, vegna falsaðs hluts eða rangrar greiningar, vegna mikils fjölda eintaka af hlutnum eða ef þeir teljast ekki varðveisluverðir. Skal ævinlega leita ráða fagfólks áður en ákvörðun um förgun er tekin. Ákvarðanir um förgun eða langtímalán skulu einnig samþykktar af stjórn safnsins. Langtímalán er betri kostur en grisjun, ef stjórn safnins telur að gripir samrýmist ekki söfnunarstefnu eða séu betur komnir á öðru safni.
4.5. Millisafnalán
Safnið getur lánað til annarra safna og fengið að láni muni til sýninga eða rannsókna með samningum sem báðir aðilar samþykkja. Þar koma fram ákvæði um lánstíma og meðhöndlun muna og minja.
5. Sýningarstefna
5.1. Innihald sýninga
Fastasýning Sauðfjársetursins tengist söfnunarstefnu þess og skal leitast við að gefa gott yfirlit um sauðfjárbúskap á henni. Sýningin er unnin út frá þeim efnisflokkum sem mest áhersla er lögð á við söfnun muna, þ.e. búskaparháttum sem tengjast sauðkindinni og lífi sauðfjárbóndans í gegnum aldirnar, með áherslu á Strandasýslu.
Sýningin skal jafnan vera skemmtileg og fræðandi og við hæfi allra aldurshópa. Leitast skal við að nota gagnvirkni og stafræna miðlun til að efla sýninguna og glæða viðfangsefni hennar enn frakara lífi. Lifandi og skemmtilegt barnahorn þar sem börn geta leikið sér og fræðst um líf og störf bóndans skal vera á sýningunni.
Sérsýningar skulu vera settar upp reglulega, a.m.k. ein á hverju ári. Þær skulu samræmast og uppfylla markmið Sauðfjársetursins, þeim er sjá má í stofnskrá safnsins.
6. Fræðslustefna
6.1. Almennt
Með sýningum safnsins er lögð áhersla á að fræða fólk um ákveðna þætti sauðfjárbúskapar og mannlífs í sveitum. Með því móti er sýningargestum gert kleift að skyggnast inn í sögu þjóðarinnar, leggja mat á fortíð og samtíð og víkka sjóndeildarhringinn, hvort sem horft er til baka eða til framtíðar. Áhersla er lögð á miðlun þekkingar milli kynslóða.
6.2. Safnkennsla
Safnkennsla skal standa til boða á sýningu safnsins og leggja skal áherslu á gerð vandaðs efnis til safnkennslu og samvinnuverkefni með skólum í nágrenninu. Skólahópum verður sköpuð viðunandi aðstaða til verkefnavinnu og athygli kennara og nemenda vakin á möguleikum þeirra til að nýta sér safnið og fróðleiksvef þess við hinar ýmsu rannsóknir. Vefsetur með fróðleik skal þróað jafnhliða sýningunni og þeim fróðleik skal miðlað á eins mörgum tungumálum og kostur er.
6.3. Rannsóknir og útgáfa
Stefnt er að því að gefa út fræðsluefni og rannsóknir í prentuðu og tölvutæku formi um þá þætti sem lögð er áhersla á í sýningarhaldi. Stuðlað verður að útgáfu efnis, sér í lagi bóka og sjónrænna heimilda á árunum 2020-2024 sem tengjast rannsóknarvinnu sem fer fram á vegum safnsins eða í samstarfi við það.
6.4. Samstarf
Viðhalda skal góðri samvinnu við menningarstofnanir og ferðaþjóna á svæðinu og í nágrannabyggðalögum eftir því sem kostur er hverju sinni. Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði er formlegur samstarfsaðili Sauðfjársetursins. Það samstarf skal efla eftir því sem kostur er. Þá skal efla samstarf við skóla í héraðinu eftir því sem kostur er og skal Sauðfjársetrið eiga frumkvæði að samvinnu við grunnskólana.