Liðnir viðburðir

Spurningakeppni – undanúrslit (2004)

Spurningakeppni félaga og fyrirtækja á Ströndum
Undanúrslitakvöld í Spurningakeppni Sauðfjársetursins 2004, haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík. Aðgangseyrir 500 kr, kaffi og sælgæti á staðnum. Hefst kl. 20:00 stundvíslega.

Þriðja keppniskvöldið í Spurningakeppni félaga og fyrirtækja á Ströndum 2004 fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudaginn 7. mars sl. Komið var að 8 liða úrslitum og ekkert lát virðist ætla að verða á vinsældum keppninnar. Aðsókn var góð eins og venjulega, um 100 manns mættu og skemmtu sér konunglega yfir skemmtilegum og spennandi keppnum.

Úrslit keppninnar þetta þriðja kvöld urðu þessi: 

  • Fiskvinnslan Drangur – Bitrungar = 16-18
  • Hólmadrangur – Leikfélag Hólmavíkur = 23-21
  • Strandagaldur – Strandahestar = 30-20
  • Skrifstofa Hólmav.hr. – Héraðsbókasafnið = 23-22

Eins og sjá má af tölunum voru flestar keppnirnar æsispennandi og aðeins í einni þeirra réðust úrslitin áður en komið var í síðasta liðinn, vísbendingaspurningar. Síðasta keppni kvöldsins sló þó öllum hinum við hvað varðar spennu, því þar þurfti að grípa til bráðabana í fyrsta sinn í sögu keppninnar eftir að Skrifstofa Hólmavíkurhrepps hafði jafnað með því að svara síðustu spurningunni rétt í fyrstu vísbendingu.

Þá var einnig slegið stigamet í keppninni þegar lið Strandagaldurs náði að rjúfa 30 stiga múrinn í viðureign við Strandahesta. Lið Strandahesta féll út með 20 stig sem hefði dugað til sigurs í mörgum viðureignum í keppninni hingað til.

Eftir keppnina var dregið í undanúrslit sem fara fram í Félagsheimilinu sunnudaginn 21. mars kl. 20:00 stundvíslega. Á úrslitakvöldinu mætast:

  • Bitrungar – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps
  • Strandagaldur – Hólmadrangur

Sigurliðin úr þessum tveimur viðureignum etja síðan kappi í úrslitaviðureign. Sigurvegarar fá glæsileg verðlaun frá Sauðfjársetri á Ströndum sem heldur keppnina auk þess að fá Viskubikarinn svokallaða til varðveislu í eitt ár.