Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Fréttir

Starf safnstjóra Sauðfjársetursins laust til umsóknar

Auglýst er eftir safnstjóra á Sauðfjársetur á Ströndum sem er staðsett í félagsheimilinu Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík. Sauðfjársetrið er eitt minnsta viðurkennda safn landsins, en vel þekkt fyrir öflugt starf, góð tengsl við samfélagið, fjölbreytt viðburðahald og margvísleg menningarverkefni. Safnið er sjálfseignarstofnun með þriggja manna stjórn og starfar safnstjóri í umboði stjórnar. Í Sævangi er fastasýning safnsins, sérsýningar, kaffistofa með margvíslegum veitingum og minjagripabúð. Sauðfjársetrið er í senn safn, ferðaþjónustuaðili og mikilvæg menningarmiðstöð á Ströndum.

Óskað er eftir glaðværum dugnaðarforki með leiðtogahæfileika og mikla þjónustulund. Mikilvægt er að viðkomandi sé lausnamiðaður og viljugur til að ganga í öll verk, eftir því sem þörf krefur. Safnstjóri Sauðfjársetursins er allt í öllu í starfi safnsins, eini starfsmaðurinn yfir vetrartímann, en viðbótar starfsfólk er ráðið í gestamóttöku yfir sumarið og afmörkuð verkefni ef fjármögnun þeirra leyfir. Safnstjórinn þarf að eiga auðvelt með að fá annað fólk í lið með sér, til að halda uppi stemmningunni.

Miðað er við 100% starf á föstum mánaðarlaunum, laun eru í takt við kjarasamninga.

Helstu kröfur:

  • Afburða hæfni í mannlegum samskiptum, hugmyndaauðgi, framtakssemi og þrautseigja
  • Leiðtogahæfileikar og geta til að vinna sjálfstætt að eflingu safnsins
  • Góð íslensku- og enskukunnátta, ásamt hæfni til að koma fram opinberlega, miðla upplýsingum og tjá sig í ræðu og riti
  • Skilningur á ritun styrkumsókna og skýrslugerð
  • Háskólamenntun á sviði safnafræði eða skyldra greina, s.s. í hagnýtri menningarmiðlun, menningarstjórnun, þjóðfræði eða sagnfræði er kostur, menntun í búvísindum gæti einnig komið til greina
  • Reynsla af safnastarfi er æskileg
  • Reynsla af rekstri, ferðaþjónustu, gestamóttöku og viðburðastjórn er kostur

Meðal helstu verkefna eru:

  • Faglegar hliðar safnastarfsins; söfnun, skráning, forvarsla, rannsóknir, fræðslustarfsemi og miðlun fróðleiks, auk alhliða umsjón með varðveislu safneignar
  • Alhliða rekstur safnsins, uppbygging þess og efling
  • Skrifstofuvinna tengd allri áætlanagerð, ritun umsókna, skýrslugerð, fjármögnun rekstrar, bókhalds- og launavinnu, markaðssetningu og kynningu
  • Verkefnastjórn við uppbyggingu, framkvæmdir og einstök menningarverkefni, í raun yfirumsjón með öllum verkefnum safnsins
  • Gestamóttaka og efling á ferðaþjónustuhlutverki safnsins
  • Fjölbreytt viðburðahald á ársvísu, stjórnun verkefna, samstarf innan svæðis og á landsvísu

Áhugasöm eru hvött til að senda umsókn, ferilskrá og önnur viðeigandi gögn, á Sauðfjársetur á Ströndum, netfangið saudfjarsetur@saudfjarsetur.is í síðasta lagi 30. ágúst næstkomandi. Upphaf ráðningartíma er samkvæmt samkomulagi.