Liðnir viðburðir

Sumarhátíð í Sævangi (2004)

Árleg Sumarhátíð í Sævangi var haldin sunnudaginn 18. júlí og var óvenju fjölmennt. Blíðskaparveður setti svip á daginn og fór skemmtunin vel fram í alla staði. Sumarhátíð Sauðfjársetursins er rólegur fjölskyldudagur, þar er farið í leiki og fjölskyldubolta og kaffihlaðborð er á boðstólum.

Hápunktur dagsins er síðan kraftakeppnin Strandamaðurinn sterkasti. Óvenju margir keppendur tóku þátt að þessu sinni, 10 keppendur voru í karlaflokki og 8 í kvennaflokki. Miklu munaði um að stórfjölskylda úr Bolungarvík – Birna Hjaltalín og börn hennar, tengdabörn og barnabörn – tóku virkan þátt í sprelli dagsins. Fjölskyldan var reyndar svo fjölmenn að í óformlegum landsleik Bolungarvíkur og Stranda í fjölskylduboltanum fóru Bolvíkingar með öruggan sigur af hólmi 10-3. Markamaskínan Kristinn H. Gunnarsson þingmaður lagði einnig sitt af mörkum í þeirri keppni.

Sverrir bassi Guðbrandsson á Hólmavík hefur verið ósigrandi í kraftakeppninni síðustu 2 ár og hélt velli sem Strandamaðurinn sterkasti í karlaflokki að þessu sinni. Ekki hefur verið keppt í kvennaflokki áður, en þar sigraði Svanhildur Jónsdóttir frá Steinadal nokkuð örugglega.

Keppnisgreinarnar voru annars fimm – brúsahlaup, belgjakast, drumbahlaup, armlyfta og dráttarvéladráttur.

Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli notaði sumarhátíðina til að leggja lokahönd á kerlingu sem hún gerði úr tveimur heyrúllum. Kerling þessi mun hér eftir gegna starfi safnvarðar á Sævangi og tekur á móti gestum Sauðfjársetursins. Þegar hafa heyrst raddir um að hana vanti karl.

Sigurvegarar í kvennaflokki, Kolla í þriðja sæti, Ellý í öðru og Svanhildur í fyrsta. Í karlaflokki varð Þórður Vagnsson í þriðja sæti, Sverrir Guðbrands í fyrsta sæti og Jóhann L. Jónsson í öðru.

Menningarborgarsjóður styrkir sumardagskrá Sauðfjársetursins 2004.