Sveitasíminn – hlaðvarp Sauðfjársetursins
Hér er Sveitasíminn, hlaðvarp Sauðfjárseturs á Ströndum, geymdur og nú er hægt að nálgast nýja þættí í 2. seríu sem Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir er að setja upp. Einnig er öll 1. serían aðgengileg hér neðar, sem Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sá um. Í þáttunum var sjónum beint að ýmsu sem tengist sveitinni og búskap, bæði fyrr og nú. Þá var einnig talsvert rætt um stofnun Sauðfjársetursins sjálfs fyrir 20 árum og hlutverk þess í samfélaginu í dag. Stofnun hlaðvarpsins var eitt af afmælisverkefnum setursins árið 2022.
2. sería – Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir: Sögur af sauðfé!
Guðlaug ákvað að hafa þemað í seríu 2 í Sveitasímanum, hlaðvarpi Sauðfjársetursins, sögur af kindum. Hún ræðir við bændur og bændafólk beggja vegna fjalls, í Reykhólasveit, Dölum og á Ströndum: “Það er virkilega gaman að gera hlaðvarp. Þarna heyrir maður frá fyrstu hendi margar skemmtilegar, skrítnar og áhugaverðar sögur af sauðfé og samskiptum bændanna við kindurnar þeirra. Það er gaman að fá fólk til að tala og segja frá því sem það hefur virkilegan áhuga á.”
1. Frá Gufudal yfir í Gilsfjörð
Bergsveinn Reynisson, bóndi á Gróustöðum (önnur sería, fyrsti þáttur).
Í þættinum spjallar Guðlaug við Bergsvein Reynisson, betur þekktan sem Begga á Gróustöðum. Þau fara um víðan völl; frá barnæsku hans í Gufudalssveit þar sem hann lærði að smala blindri kind, yfir í búskap hans á Gróustöðum í Gilsfirði. Þar hefur hann alið manninn síðustu 40 ár og kynnst fjörugu forystufé, hinum barngóða Brúski, heimalningnum Rúsínu sem stofnaði mafíu með hundunum, ásamt því að jarða nokkrar ær með mikilli viðhöfn.
1. sería – Dagrún Ósk Jónsdóttir: Hlaðvarpið skemmtilegur miðill!
Gefum Dagrúnu Ósk sem hafði umsjón með fyrstu seríunni orðið: „Já, ég tók að mér að gera þessa fyrstu seríu, en hugmyndin er svo að það verði ný umsjónarmanneskja með hverri seríu og auðvitað nýir viðmælendur, það er hægt að fjalla um svo margt tengt búskap og lífinu í sveitinni og bara gaman að veita fólki smá innsýn inn í þennan heim.“ Dagrún segir að þáttagerðin hafi verið skemmtileg: „Það er alltaf gaman að hitta fólk, spjalla við það og læra eitthvað nýtt. Hlaðvarpið er líka svo skemmtilegur miðill því það er hægt að hlusta hvar og hvenær sem hverjum og einum hentar og þetta hlaðvarp verður aðgengilegt á vefnum og Spotify áfram.“
1. Sauðfjársetur á Ströndum: Upphafið, ímyndarsköpun, gleði og gaman
Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli (fyrsta sería, fyrsti þáttur)
Í þættinum spjallar Dagrún við Jón Jónsson sem var fyrsti framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins og gegndi því hlutverki eftir að safnið var stofnað, á árunum 2002-2006. Jón segir frá hugmyndinni og fræðunum þar að baki og upphafsárum Sauðfjársetursins. Markmið og tilgangur kemur við sögu, viðburðir, sýningar og fólkið sem stendur að baki safninu. Jón segir líka aðeins frá sínum eigin uppvexti í Steinadal í Kollafirði á Ströndum, tengslum við sveitina og minningum um sveitasímann.
2. Kindur, kýr og ljúfar stundir
Íris Björg Guðbjartsdóttir bóndi á Klúku í Miðdal (fyrsta sería, annar þáttur)
Í öðrum þætti spjallar Dagrún við Írisi Björgu Guðbjartsdóttur. Íris ólst upp á kúabúi í Dölunum en er nú sauðfjárbóndi á Klúku í Miðdal við Steingrímsfjörð. Íris segir frá æskunni í sveitinni og ýmsum breytingum sem hafa orðið, til dæmis í tengslum við heyskap og tækni. Þá rifjar hún upp minningar sínar af sveitasímanum. Íris segir einnig frá helsta muninum á því að vera með kindur og kýr, sínum uppáhaldskindum, ljúfu stundunum og fegurð hversdagsins í búskapnum.
3. Minningar úr sveitinni: Smalamennskur, dráttarvélar og refaveiðar
Sverrir Guðbrandsson frá Bassastöðum (fyrsta sería, þriðji þáttur)
Í þættinum spjallar Dagrún Ósk við Sverri Guðbrandsson sem ólst upp á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi. Sverrir rifjar upp skemmtilegar minningar og segir frá æskunni í sveitinni, ferðum í heimavistarskólann á Klúku í Bjarnarfirði, smalamennskum í Hvannadal, Skarðsrétt, refaveiðum og fleiru. Auk þess segir hann frá áhuga sínum á dráttarvélum og tækjum. Það er magnað að hlusta á Sverri segja frá en þegar hann var að alast upp var til dæmis ekki rafmagn á bænum, það hefur því margt breyst á síðustu áratugum.
4. Æðarbúskapur, sauðfjárbeit og líffræðilegur fjölbreytileiki
Matthías Sævar Lýðsson bónda í Húsavík (fyrsta sería, fjórði þáttur)
Í þættinum spjallar Dagrún Ósk við Matthías Sævar Lýðsson bónda í Húsavík við Steingrímsfjörð. Matthías segir frá lífinu í sveitinni og búskapnum, en auk þess sem þau hjónin eru með sauðfé og kjötvinnslu eru þau æðarbændur. Matthías segir skemmtilegar sögur af því þegar hann ól upp æðarunga sem elskuðu djass og lentu í ýmsum ævintýrum. Þá segir Matthías frá rannsóknum sem hafa verið gerðar varðandi mikilvægi sauðfjárbeitar fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, bæði fugla og gróðurs.
5. Grænmetisrækt og loftslagsvænn landbúnaður
Guðfinna Lára Hávarðardóttir bóndi í Stóra-Fjarðarhorni (fyrsta sería, fimmti þáttur)
Dagrún Ósk spjallar við Guðfinnu Láru Hávarðardóttur bónda í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Guðfinna segir frá búskapnum, en þau eru einnig með öfluga grænmetisrækt og rækta meðal annars blómkál, brokkolí, gulrætur og kartöflur í ýmsum litum. Guðfinnu finnst spennandi að prófa nýja hluti og hefur gert allskonar tilraunir í ræktuninni, en hún segir að veðurfarið á svæðinu sé heppilegt fyrir ræktun af þessu tagi. Þá segir Guðfinna frá verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður sem þau í Stóra Fjarðarhorni taka þátt í.
6. Sauðfjársetrið í 20 ár
Ester Sigfúsdóttir safnstjóri á Kirkjubóli (fyrsta sería, sjötti þáttur)
Í þættinum spjallar Dagrún Ósk við Ester Sigfúsdóttur, forstöðukonu Sauðfjársetursins. Ester hefur nú stýrt Sauðfjársetrinu í 10 ár og í þættinum lítur hún yfir farinn veg og ræðir um viðburði, sýningar, menningarverkefni og hlutverk safnsins í samfélaginu. Í þættinum heyrast líka í fyrri viðmælendum í þessari seríu Sveitasímans. Þar ræða Íris Björg Guðbjartsdóttir, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Sverrir Guðbrandsson um viðburði safnsins og hlutverk þess í samfélaginu.