Liðnir viðburðir

Spurningakeppni Strandamanna – úrslit 2003

Spurningakeppni félaga og fyrirtækja – Úrslitakvöldið í Spurningakeppni Strandamanna 2003, kl. 20:00. Aðgangseyrir kr. 500 fyrir eldri en 16 ára, kaffisala á staðnum.

Fjögur lið kepptu til úrslita og fór lið kennara við Hólmavíkurskóla með sigur af hólmi. Kennaraliðið sigraði lið Hólmadrangs í úrslitum, en Hólmadrangur hafði áður unnið Grundarás sem mætti til keppni í smíðagallanum. Keppniskvöldið var spennandi og skemmtilegt og í viðureign kennara og skrifstofu Hólmavíkurhrepps í undanúrslitum var jafnt á nær öllum tölum fram að síðustu vísbendingaspurningunum þar sem kennarar tryggðu sér sigurinn.

Verðlaun voru vegleg og ber þar fyrst að nefna bækur frá útgáfufyrirtækinu Eddu – Grískar goðsögur (Gunnar Dal) og myndabókin 20. öldin (Jakob F. Ásgeirsson). Einnig fékk hver maður í sigurliðinu sett af galdrakönnum og gjafabréf fyrir kaffihlaðborði fyrir 2 í Sævangi í sumar. Veglegur farandbikar til liðsins fylgdi einnig og viðurkenningarskjal.

Fram kom að Sauðfjársetrið stefnir að því að gera spurningakeppnina að árvissum atburði, enda hefur hún heppnast framar vonum.