Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Spurningakeppni – úrslit (2004)

Spurningakeppni félaga og fyrirtækja á Ströndum
Úrslitakvöldið í Spurningakeppni Sauðfjársetursins 2004, haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík. Aðgangseyrir 500 kr, kaffi og sælgæti á staðnum. Hefst kl. 20:00 stundvíslega.

Þá er Spurningakeppni Strandamanna lokið þetta árið. Úrslitakvöldið fór fram sunnudaginn 21. mars og var það sennilega best sótt af öllum kvöldunum. Ekki vantaði heldur spennuna því úrslitin í öllum þremur viðureignum kvöldsins réðust ekki endanlega fyrr en komið var í síðasta liðinn sem voru eins og venjulega tvær vísbendingaspurningar.

Fyrsta viðureign kvöldsins var keppni Skrifstofu Hólmavíkurhrepps og Bitrunga. Skrifstofan, sem komst líka í undanúrslit árið 2003, hafði unnið báðar viðureignir sínar í keppninni í ár með eins stigs mun – síðast á ótrúlegan hátt gegn Héraðsbókasafninu. Bitrungar eru hins vegar óumdeilanlega spútniklið keppninnar, enda liðið búið til á síðustu stundu eftir þrýsting frá spyrli. Skrifstofukonur náðu ekki að sýna sínar bestu hliðar að þessu sinni en Bitrungar léku hins vegar á alls oddi. Lokatölur urðu 27-22 Bitrungum í vil, en úrslitin réðust endanlega þegar Skrifstofukonur gátu ekki svarað síðustu spurningunni í fyrstu vísbendingu. Það gerðu Bitrungar hins vegar í annarri vísbendingu.

Seinni viðureignin í undanúrslitunum var síðan á milli Strandagaldurs og Hólmadrangs, en árið 2003 duttu galdramennirnir út í fyrstu umferð en Hólmadrangur fór alla leið í úrslit og laut þar í lægra gras fyrir liði kennara við Grunnskóla Hólmavíkur. Svo fór ekki núna og Strandagaldursliðið, sem var skipað tveimur nýjum liðsmönnum vegna fjarveru annarra tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með því að sigra baráttuglatt lið Hólmadrangs 30-21. Hólmadrangsmenn mega engu að síður vel við una og gera án efa djarfa atlögu að titlinum í þriðja skipti á næsta ári. Hólmadrangsmenn og Hreppsskrifstofukonur voru því sem næst verðlaunuð með bókinni Spennandi Spurningakeppni eftir Guðjón Eiríksson.

Eftir undanúrslitin var tekið hlé þar sem fólk hámaði í sig nammi, gos og kaffi af hjartans lyst og síðan tóku við skemmtiatriði sem voru hreint ekki af verri endanum. Ingimundur Jóhannsson, Kristján Sigurðsson og Bjarni Ómar Haraldsson spiluðu á gítar og sungu þrjú lög sem þeir höfðu “æft lítillega”. Hógværðin dugði þeim skammt því þeir voru klappaðir upp af miklum krafti. Höfðu menn orð á því að þetta tríó yrði að starfa saman áfram. Þegar þremenningarnir höfðu lokið spiliríinu drógu þau Hildur Guðjónsdóttir og Jón Ragnar Gunnarsson í aðgöngumiðahappdrættinu sem var í gangi allar keppnirnar. Þær Elfa Björk Bragadóttir og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir unnu í happdrættinu og hrepptu glæsilega vinninga frá Sauðfjársetrinu.

Úrslitaviðureignin var því á milli Strandagaldurs og Bitrunga. Hún var æsispennandi allt til loka og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Liðin fóru vægast sagt hamförum í hraðaspurningum og myndadæmum og staðan eftir þá liði var 21-21 – óhætt að segja að liðin hafi með sóma sannað rétt sinn á því að vera komin í úrslitin með ótrúlega háu skori. Nokkurt jafnræði var í bjölluspurningum og mikil barátta um bjölluna sem Strandagaldursmenn voru heldur hlutskarpari í. Þegar farið var í vísbendingaspurningar áttu Bitrungar enn möguleika á að ná sigri með því að svara báðum vísbendingaspurningum rétt í fyrstu tilraun. Spyrillinn fékk sting í hjartað í fyrstu vísbendingu fyrri vísbendingaspurningar – svarið við henni var ský en svar Bitrunga var ský…strókur. Keppnin fór að lokum þannig að Strandagaldur vann Bitrunga með 29 stigum gegn 24.

Bitrungum voru afhent bókaverðlaun og frítt kaffihlaðborð að gjöf fyrir að ná öðru sætinu en Strandagaldursmenn voru krýndir nýir viskubrunnar Strandamanna með miklum sóma, hlaðnir verðlaunum og fengu síðan að sjálfsögðu afhentan Viskubikarinn eftirsótta.

Í lokin var Jóni Ragnari Gunnarssyni og Bjarna Ómari Haraldssyni afhent ávísun á kaffihlaðborð fyrir ósérhlífið starf í þágu keppninnar og eftir það var Hildi Guðjónsdóttur stigaverði og Arnar S. Jónssyni dómara, spurningahöfundi og spyrli afhent glæsileg stafræn myndavél að gjöf fyrir umsjónina með keppninni og “vegna mikillar elsku við menningarlíf á Ströndum”, eins og Matthías Lýðsson komst svo skemmtilega að orði.