Rúnaleikur á Hólmavík
Núna um helgina verður í gangi skemmtilegur rúnaratleikur fyrir alla fjölskylduna, á meðan Vetrarsól á Ströndum er í gangi. Átta rúnir eru faldar víðs vegar um Hólmavík. Nú gæti verið skemmtilegt fjölskyldugaman að finna þær allar og síðan lausnarorðið og senda það inn til Náttúrubarnaskólans á natturubarnaskoli@gmail.com!
Hér koma nokkrar mjög erfiðar vísbendingar um staðsetningu rúnanna:
Við krossins hús á háum hól,
er eina rún að finna.
Margir fara þar um jól,
en nú skal leikinn vinna.
Hjá grænu húsi með góðum mat,
er næsta rún, það er ekkert plat.
Í gömlum bæ býr enginn lengur.
Bíður þar einn lukkufengur?
Þar sem galdragrös á sumrin spretta,
sérðu kannski táknið rétta.
Vatn rennur um listaverkið,
vel er falið næsta merkið.
Hér er stundum syfjað fólkið smáa
og sparkað oft í tuðruknöttinn knáa.
Þar sem ljósið blikkar löngum stundum,
í litlu húsi, eina rún við fundum.
Í stórum potti fólkið soðnar fljótt,
á bak við eyrun aðrir blotna skjótt
Átta táknum skal svo raða á réttan máta,
rúnaleiksins leysist við það gáta.
Vonandi skemmtiði ykkur vel! Fyrir leiknum standa Náttúrubarnaskólinn og Þjóðfræðistofa.