Fréttir

Framkvæmdaráð fyrir vetrarhátíðir

Stefnt er að því að halda þrjár vetrarhátíðir á Ströndum núna í byrjun ársins og hefur Arnkatla – lista- og menningarfélag umsjón með þeim. Þetta eru Vetrarsól sem verður haldin í janúar, Hörmungardagar í lok mars og Húmorsþing sem halda á síðustu helgi í mars. Allur undirbúningur miðast við að fylgja sóttvarnareglum, en halda á hátíðirnar hvort sem það verður á netinu eða í raunheimum.

Undirbúningsnefnd hefur verið skipuð fyrir tvær fyrri hátíðirnar og Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins er í henni, ásamt Esther Ösp Valdimarsdóttur tómstundafulltrúa, Önnu Björg Þórarinsdóttur framkvæmdastjóra Strandagaldurs, Dagrúnu Ósk Jónsdóttur formanni Arnkötlu og Jóni Jónssyni þjóðfræðing hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Sauðfjársetrið hefur jafnan tekið virkan þátt í bæjar-, lista- og menningarhátíðum í sveitarfélaginu og framhald verður á því.

Stefnt er að þátttöku í Vetrarsólinni, a.m.k. með dagskránni Bábiljur og bögur í baðstofunni og e.t.v. líka opnun á nýrri myndasýningu. Einnig er í umræðunni að hafa draugagöngu á Hörmungadögum og hörmungadagskrá og kaffi með í Sævangi.