Dagbókaskrif á Ströndum
Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, sem er einn helsti samstarfsaðili Sauðfjársetursins, hefur verið að vinna með gamlar dagbækur Strandamanna. Í maí 2024 var hluta af dagbók Halldórs Jónssonar frá Tind, bónda í Miðdalsgröf, komið á stafrænt form, en hann skrifaði dagbók á árunum 1888 til 1912. Halldór var 17 ára gamall þegar dagbókaritunin hófst og hann hélt henni áfram til dauðadags. Halldór drukknaði í Steingrímsfirðinum þegar bátur fórst í róðri úr Kirkjubólstanganum haustið 1912. Dagbækurnar sjálfar eru varðveittar á Handritadeild Landsbókasafns og margvísleg önnur skrif Halldórs og Níelasar bróður hans. Nokkur hluti dagbókarinnar var vélritaður upp og bundinn inn í bækur á síðari hluta 20. aldar, líklega í kringum 1970.
Sagnfræðingurinn Sigurður Gylfi Magnússon gerði Halldór og Níels bróður hans fyrst aðgengilega í bókunum Bræður af Ströndum og Menntun, ást og sorg, um síðustu aldamót. Í þessum bókum eru ýmis sýnishorn úr skrifum þeirra birt og fjallað um líf þeirra og störf.
Halldór hafði fyrir vana að gera dálítið yfirlit yfir liðið ár í dagbókina í lok hvers árs. Hér hafa þessi yfirlit verið sett inn, og eru þetta yfirlitin yfir árin 1898-1911, eftir vélritaða eintakinu. Þarna er að finna rúmlega 100 ára gamlar fréttir úr Tungusveit og frá Steingrímsfirði á Ströndum.
Við leysum úr skammstöfunum ef við erum viss um merkinguna og færum textann til nútímastafsetningar til að hann verði læsilegri.
[Yfirlit árið 1898]
Ég nenni ekki í þetta sinn að skrifa nákvæmt yfirlit yfir þetta ár sem nú er að kveðja, en þó ætla ég að geta þess helsta. Hvað veðráttufar snertir má það yfir höfuð heita í betra meðallagi, veturinn mátti kallast fremur harður, hey létt og mikilgæf og hrakin frá fyrra sumri. Fé gekk þó víðast fremur vel undan vetri, lambadauði mikill hér með sjónum, grasspretta í sumar var fremur góð og nýting bærileg, heyskapur þar af leiðandi með betra móti.
Afli brást með öllu hér við fjörðinn í haust, en á Gjögri í löku meðallagi. Veðurblíða ómuna góð þrjár síðustu vikur sumarsins en síðan hefur tíð verið mjög stirð, gerði snemma hagleysur, en nú um hátíðar komu aftur upp snöp. Verslunin hefur verið afar ill, útlend vara i háu verði, en íslensk, innlend í lágu verði, sú útlenda lækkaði þó heldur seinnipart ársins, kaupmenn gengu með harðasta móti eftir skuldum í haust svo bændur neyddust til að skera af fjárstofni sínum til stórskaða, er sauðfjáreign margra hér orðin sama sem engin, og útlit með bjargræði í vetur fremur ískyggilegt.
Af framfarafyrirtækjum [er] lítið að segja, byggja átti íshús í Húsavik sem þó ekki kláraðist. Tombóla var haldin i vor til ágóða fyrir lestrarfélag hreppsins og komu inn talsverðir peningar fyrir hana, blómgast það vel. Í skólanum eru fáir nemendur, og það sem verst er, ekki nema einn krakki hér úr sveit, svo það sýnist að hann komi ekki að tilætluðum notum fyrir sveitarfélagið.
Fundur var haldinn í fyrradag til að ræða um skiptingu á verslunarfélaginu og varð það útgert á fundinum að skipta því svo að Strandasýslubúar verði sér í félagi, þó er ekki víst um Hrútfirðinga né Bitrunga hvort þeir verða með eða ekki, ráðgert er að breyta því í kaupfélag ef inni eignir félagsmanna nást og til þess að koma i veg fyrir að skulda hjá kaupmönnum er ráðgert að panta matvöru með fyrstu ferð Skálholts í vor. Ég fer nú að hætta þessu rugli því það er svo illa skrifað hjá mér að ég get tæpast lesið það sjálfur. Vertu sælt gamla liðna ár, með öllum þínum tilburðum og breytingum. Þú hefur ekki verið neitt gleðiár fyrir mig að sumu leyti.
[Yfirlit ársins 1899]
Ég er svo latur að skrifa nú að ég nenni ekki að gera yfirlit yfir árið, eins og ég oftast hef verið vanur að gjöra, og verður því hver sem vill vita um það að leita í bókinni.
[Yfirlit ársins 1900]
Með þessum degi er þá árið, og öldin nítjánda á enda, ég læt mér ekki detta i hug að skrifa hér neitt í tilefni af aldamótunum, en aðeins minnast á eitt og annað sem mér þykir minnisverðast á liðna árinu hér í kring og þó allt í molum.
Hey gáfust mikið til upp víða, þó veturinn geti ekki harður kallast en fé alls staðar í góðu standi. Heyskapur gekk vel þar til 3 vikum fyrir leitir að brá til óþurrka og hraktist allt hey meira og minna eftir það og varð úti á sumum stöðum. Spretta var fremur góð, sumstaðar ágæt. Heimtur góðar á fé í haust. Afli með betra móti í haust, urðu um og yfir 100 kr. hlutir hjá nokkrum sem létu blautt.
Verslunin erfið eins og fyrr. Pöntun með minna móti, fé seldist fremur vel, en ull, kjöt og fleira óselt enn. Seinnipart sumars og haustið stormasamt, sérstaklega er mönnum minnisstætt veðrið sem gerði á sunnan og vestan 20. september. Gekk það yfir allt land og skemmdi alls staðar meira og minna. Reif hús og feykti heyi stórkostlega til skaða. Fauk sumstaðar nálægt 100 hestum, en manntjón varð ekkert hér um slóðir eða stórkostlegur skaði á húsum. Dagana 8.-10. nóvember gerði ákafan norðanbyl og fennti þá fé og hestar (18 hestar fenntu og hröpuðu og 50-60 fjár fennti til dauðs hér í nærsveitunum, kona varð úti í þeim byl, hinn 9., Kristín að nafni Hannesdóttir úr Saurbænum. Bátur brotnaði í spón í Kollafjarðarnesi, sem Sigurður á Broddanesi átti.
Það var sama daginn sem vestanveðrið mikla var, nefnilega 20. september, sem kjósa átti þingmann fyrir Strandasýslu, en þá var ófært veður svo að engir komu á kjörfund, og er því þingmannslaust hér. Það sem helst hefur verið að umræðuefni nú um tíma hér meðal almennings er kosningaleiðangur Ingimundar Magnússonar bónda í Snartartungu. Hann hefur nú farið sýsluna af enda og reynt að smala sér atkvæðum til þingkosningar með öllum mögulegum og ómögulegum hætti. Hefur honum orðið dálítið ágengt í sumum hreppum sýslunnar, til dæmis Árnes-, Kaldrananes- og Hrófbergshreppum, en í hinum eru atkvæðisloforð hans víst teljandi. Hann er að flestra áliti sem eitthvað skynbragð bera á málefnið alls óhæfur til þingmennsku, og héraðinu til stór hneisu að senda slíkan mann á þing, þar sem þó að líkindum er völ á miklu hæfari mönnum til þess starfa. En það er vonandi að hann komist ekki á þing i þetta sinn fyrir það fyrsta.
Með framförum má telja það, að 2 timburhús hafa verið byggð hér í stað torfbæja, nefnilega í Tröllatungu og í Stóra-Fjarðarhorni. Í Stórholti í Saurbæ var líka byggt stórt timburhús í ár.
Lestrafélögin hér Í Tungusveit og Kollafirði dafna heldur vel, en lítið orð fer af þeim í hinum hreppum sýslunnar, sem þau hafa verið stofnuð í, en þau þróast og dafna máske í kyrrþey. Unglingaskólinn á Heydalsá heldur áfram og eru á honum 10-12 nemendur, einna flest úr sveitinni, Tungusveit, sem verið hefur. Sigurgeir Ásgeirsson er þar kennari eins og fyrri.
[Yfirlit ársins 1901]
Þetta ár sem nú er að kveðja hefur þegar á allt er litið verið hagsælt og gott ár. Veturinn mátti heita mjög vægur, vorið raunar nokkuð kalt en stóráfallalaust og skepnuhöld góð, heybirgðir nægar hjá öllum og gekk því fé vel undan vetri. Vorlambadauði sama sem enginn. Sláttur var byrjaður sumstaðar t.d. í Bjarnarfirðinum í byrjaðri 11. viku sumars, en almennt var sláttur byrjaður hér við fjörðinn í endaðri elleftu viku. Spretta var með besta móti og varð heyskapur því mikill eftir ástæðum og nýting eftir því. Heimtur ekki rétt góðar í haust. Fé skarst vel. Fjárverð með langhæsta móti og kjötverð að sama skapi. Útlend vara öll í háu verði, en innlend vara flest stendur lágt.
Seint í ágúst, 24., fór fyrst að aflast hér við fjörðinn, en þá var beitulaust, mátti heita góður afli þar til viku eftir leitir. Hinn 11. september varð hér fyrst smokkvart, og kom svo eftir leitirnar ákaflega mikil gegnd af honum að önnur eins hefur ekki komið hér um langan tíma, og hélst hann fram eftir öllu hausti, var smokkurinn svo óður að ekki gagnaðist mönnum að beita út lóðir, því hann reif af alla beitu áður en hún komst til botns. Síld kom hér engin. En óminnilega mikil síldarganga kom á Hrútafjörð seint í haust, eftir að fiskur var farinn að mestu. Hér var reita út í Flóa meðan róið var, eða fram undir jólaföstu. Töluvert urðu lægri hlutir í haust en í fyrra. Hæstur hlutur mun hafa verið hér við fjörðinn um 90 kr. eftir leitir. Blautfiskstaka byrjaði hér lítið eitt í fyrrahaust, og í haust voru byggðir 2 fisktökuskúrir á Smáhömrum, annar fyrir Riis, en hinn fyrir Verslunarfélagið, og var tekið [á] móti blautfiski þar og svo á Kirkjubóli. Flestir létu mestallan afla sinn blautan, og var verðið, ýsupundið á 3 aura, smáfiskar á 4 aura og málfiskur 5 aurar.
Jarðabætur voru unnar með meira móti í vor en byggingar voru litlar. Timburhús var byggt á Hellu með kjallara undir. Sveitarþyngslin hér í hreppi fara heldur vaxandi alltaf, og er víst óhætt að fullyrða að Kirkjubólshreppur sé þyngstur hreppa í sýslunni nú sem stendur.
Kirkjurækni og húslestrar, í stuttu máli sagt allar guðræknisiðkanir dofna ár frá ári. Unglingaskólinn á Heydalsá heldur áfram nú eins og að undanförnu og er nú á kostnað kennarans sjálfs að mestu, Sigurgeirs Ásgeirssonar. 10 hafa verið í honum til hátíðanna, en verða eftir þær eins margir og húsrúm leyfir, eða um 20, fá færri en vilja.
Nokkrir Eyfirðingar komu hér í vor og ætluðu að stunda síldveiði; byggðu þeir á Hólmavík “skúe”, þeir fóru algerlega fýluferð, en húsið stendur eftir. Fremur er nú dauft yfir Lestrarfélaginu okkar hér, en það er vonandi að það hressi uppá sér aftur. Þá held ég nú að minnst sé á það markverðasta sem gamla árið flutti með sér fyrir grenndina. Dauðsföll og fæðingar nefni ég ekki hér, þess má leita að framan.
Þú ert horfið gamla ár: já, horfið að eilífu, eins og svo ótal mörg á undan þér, þú kemur aldrei aftur. Lofaður sé hinn algóði himnafaðirinn fyrir allt gott sem það færði okkur og hann biðjum við nú að gefa okkur hagsælt og blítt nýja árið sem rennur upp á morgun.
[Yfirlit ársins 1902]
Árið sem nú er að kveðja má óhætt telja í röð betri áranna þegar það er skoðað frá fleiri hliðum. Þó heybirgðir bænda væru með langmesta móti í fyrrahaust vannst svo að því að þær voru farnar að verða litlar hjá flestum þegar sumarveðráttan kom. Fénaður víðast tekinn snemma á gjöfm var svo umhleypingasamt framan af vetrinum, svo hélst stöðug norðanátt út allan veturinn, fyrsti bloti á sumardaginn fyrsta. Hafísinn rak inn i febrúar og var hér 100 daga landfastur, orðinn samfrostahella út í flóa svo ganga mátti þvert og endilangt alla firði. Hann fór i júníbyrjun. Þar af leiðandi kom sigling seint og bjargarvandræði orðin tilfinnanleg víða, hér var þó alltaf einhver píringur af matvöru fáanlegur. Eftir að hlýnaði mátti heita að vorið væri gott. En sumir voru búnir að reka skepnur sínar suður yfir fjall áður en skipti um, því útlitið var farið að verða ískyggilegt.
Skepnuhöld voru yfir höfuð bærileg. Spretta bæði á túnum og engjum slæm, víða 1/3 minni taða en í fyrra, og útheysslægjur sinumiklar. Nýting var ágæt því sama blíðviðrið mátti heita að héldist fram að árslokum. Raunar komu kafaldsköst í haust og um tíma voru rosar og hvassviðri sem gerði töluverðar skemmdir víða. Kýr voru ekki teknar inn fyrr en um veturnætur og fé lá víða úti framundir jól og þá ekki búið að kenna lömbum át sums staðar. Sláttur byrjaði um og eftir 20. júlí. Heyskapur varð miklu minni en að undanförnu og heyin reynast létt og ódrjúg, hafa víða skemmst í heystæðum í slagviðrunum.
Afli var með jafnbesta móti sem verið hefur nú í nokkur ár, varð fyrst fiskvart snemma í ágústmánuði og voru stundaðir róðrar af 2 bátum frá þeim tíma. En algjörlega byrjuðu róðrar fyrir og eftir leitir. Meðalhlutur mun vera nálægt 60 kr. eftir haustvertíðina. Einum sexæring var róið úr Grímsey i haust og varð hlutur á hann um 300 kr. að ófrádregnu salti. Formaður fyrir honum var hinn ötuli dugnaðarmaður Hrólfur Jakobsson Vatnsnesingur. Smokkgegnd ákaflega mikil kom eftir leitir sem alltaf dróst fram eftir öllu hausti. Síld fékkst stöku sinnum seinnipart sumarsins en aldrei stöðugt, var svo ekki lagt fyrir hana neitt að ráði eftir að smokkvart varð.
Jarðabætur voru fremur litlar því seint þiðnaði jörð og urðu þá önnur störf að ganga fyrir, en engir til vinnu á heimilum flestum nema bændurnir. Byggingar engar heldur sem teljandi eru hér í sveit. Skilvindur komu á 7 bæi hér í hreppi í vor, svo nú eru aðeins 4 bæir, Heiðarbær, Tungugröf, Arnkötludalur og Vonarholt, sem þær eru ekki komnar á, og eldavélar á 2 bæi.
Unglingaskólinn á Heydalsá er nú sóttur hvað best, eru á honum fyrripart vetrar um 20 nemendur. Kennararnir eru nú tveir, nefnilega þau systkinin Sigurgeir og Ragnheiður. Skólinn er á Sj. kostnað.
Verð á fé og kjöti var með langhæsta móti sem nokkurn tíma hefur verið, hæst verð á kjötpundi 20 aurar,18 og 16. Það var ekki svo sjaldgæft að lambhrútar yrðu á 9 kr. og á tíundu á fæti. 80-90 pd. Fleiri létu fisk sinn blautan og var verð á honum ½ eyri hærra en i fyrra pundið, 3½, 4½, 5½. Útlend vara í líku verði, sum heldur lægri.
Söludeildin vex óðum og nú var byggt verslunarhús fyrir hana á Hólmavík í sumar. Önnur söludeild, en miklu minni er stofnuð á Norðurfirði. Vörubirgðir er töluvert minni í kaupstöðum nú en í fyrra.
Ég tel þetta ár eitt af góðu árunum og óska að guð gefi okkur að árið sem í hönd fer verði gott og blessunarríkt fyrir alla.
Yfirlit ársins [1903]
Veturinn frá jólum mátti heita fremur kafaldasamur og oftast lítið um jarðir. Vorið kalt, því hafísinn rak hér inn viku fyrir sumar; þó ekki meiri en svo að varð fjarðafyllir og brydding norður með Ströndum. Fór eftir 5 vikna dvöl.
Nokkrir urðu hér heylausir og stöku maður rak fé sitt suður yfir fjall á haga. Kom það illa á að hjá sumum hér höfðu ær fengið fyrir mál og varð að skera undan þeim. Að öðru leyti voru skepnuhöld ekki slæm.
Skálholt komst hingað í annarri ferð sinni 19. maí og þá kom vöruskip til Riisverslunar á Hólmavík, mánuð af sumri. Hafísinn var þó ekki kominn lengra frá en svo að í 8. viku sumars lá hann fast upp undir Horn, svo litlu munaði að Skálholt kæmist þá ekki, og í 12. vikunni sást jakastrjálingur hér í flóanum. Kýr fóru út, um 6 vikur af sumri og var þá lítið farið að gróa.
Spretta varð í lakara lagi vegna kuldanna. Sláttur byrjaði í 13. viku sumars. Óminnilegir óþurrkar gengu í allt sumar, sífelld norðanátt, þokur og votviðri. Flestir hér inn í Steingrímsfirðinum náðu þó töðum lítið hröktum, en úthey voru bæði ákaflega sinumikil og hröktust mikið. Í Kollafirði og Bitru náðist meirihluti af töðum ekki fyrr en í september og norður í Víkursveit var þó enn verra, því þar urðu þær með öllu ónýtar á sumum bæjum og alls staðar stórskemmdar. Útheyskapur sama sem enginn, sem að notum varð. Tún voru sprottin hér í meðallagi, en útheysskapur varð með rýrasta móti.
Haustið kalt og snjóasamt, þó var oftast jörð til ársloka og þá búið hér fram til dala að gefa fé með sem svarar 2½ viku innistöðugjöf. Víða við sjó miklu minna. Kýr teknar inn viku fyrir vetur. Mikið fækkaði fé og sérstaklega nautgripum í haust hjá almenningi. Fyrir norðan má heita að yrði fellir á skepnum.
Hingað komu nokkrir Ísfirðingar o.fl. sem ætluðu að stunda fiskiróðra í sumar og haust, en þeir fóru að miklu leyti fýluferð, því þó fiskur og síld kæmi hér í sumar, þá varð það ekki neitt verulegt, og svo varð algjörlega fisklaust í haust og smokks varð ekki vart.
Hagur manna stendur því ekki vel; skuldir í kaupstað meiri en áður og matarbirgðir til vetrarins með minnsta móti heima, og vörubirgðir i kaupstaðnum litlar að sagt er. Hafa ekki fengist lánaðar vegna skuldanna, fyrr en ef það verður eftir nýár.
Heimtur á fé voru rétt góðar, en aftur fennti fé hjá stöku mönnum í haust. Kindur skárust fremur vel.
Verslun var þannig: að útlend vara sum heldur lækkaði miðað við í fyrra. Vorull stóð eins, haustull í hærra verði, á 45 aura pd. Kjöt féll, hæsta verð 18 aurar í 40 pd. skrokkum og þar yfir.
Jarðabætur voru talsverðar í vor hér í hreppi, því ráðnir voru 2 menn af Búnaðarfélagi hreppsins í allt vor, sem unnu að túnasléttun.
Íbúðarhús úr timbri voru byggð 4 hér í plássi, Steingrímsfirði í ár og 5 að mestu leyti.
1. Grímur í Húsavík 16×7 al. með kjallara undir, einloftað kjallaraloft.
2. Héraðslæknirinn okkar G.B. Scheving flutti í sumar frá Smáhömrum og byggði timburhús i Hólmavík 10×12 al. einloftað og kjallari undir því hálfu.
3. Ari Magnússon byggði íveruhús á Hólmavík 6×8 al. einloftað, kjallaralaust.
4. Guðjón alþingismaður á Kleifum byggði hús l0x6 al. kjallaralaust, einloftað
5. Þeir feðgar Magnús og Gunnlaugur á Hrófbergi byggðu hús, íveru, að mestu úr timbri, en ekki hef ég heyrt, hve stórt það er. Öll eru hús þessi járnklædd nema hið 3. í röðinni er pappaklætt.
Skólinn á Heydalsá er dável sóttur, eru nú á honum 16 nemendur. Hann er nú haldinn upp á eigin reikning. Kennarinn sami og áður, Sigurgeir Ásgeirsson og aðstoðarkennari Tómas Brandsson. Alltaf dofnar meir og meir yfir kirkjurækni manna, örsjaldan messað, og þegar það er, þá varla messufært fyrir fólksfæð.
Sveitarþyngsli hér í hreppi fara stöðugt vaxandi. Meðlög með ómögum um 100 kr. Hæst er útsvar Guðmundar G. Bárðarsonar á Kollafjarðarnesi 150 kr. Málaferli hafa verið hér töluverð út af líkskurði á Grími sáluga á Gestsstöðum og fleiru. Stórkostleg óánægja með héraðslæknirinn, og hefur verið send umkvörtun til yfirvaldanna. Hefur ekki gengið á öðru en stefnum og svardögum út af þessu.
Þetta liðna ár verður að teljast með lakari árunum, aðalgallar á því: grasleysi, óþurrkar, aflaleysi og kuldar.
Óska ég að guð gefi að árið sem í hönd fer verði betra og hagsælla okkur en þetta hefur reynst.
[Árið 1904]
[Ekkert yfirlit er um árið 1904 í vélritaðri uppskrift af dagbók Halldórs, ath. þarf frumritið á Landsbókasafni þegar færi gefst.]
Yfirlit ársins 1905
Veturinn frá nýári var fremur óstiltur og jarðleysur til febrúarloka. Síðari hluti vetrarins var einnig umhleypingasamur, en oftast var þó jörð þegar út gaf. Innistöðutími hér til dala var: Kýr 35 vikur. Lömb: 22 v. Roskið fé: 18½ vika. Hross 16 1/3 vika. Vorið kalt lengi frameftir og greri seint. Hafíshroði flæktist hér við vesturkjálkann, og lá við að teppti skipaferðir, rak hér inn hroða seint í vor, varð þó ekkert mein að.
Tún og engjar spruttu í meðallagi og víða betur. Óþurrkakafla gerði seint á túnslætti og hröktust töður hjá sumum. Sláttur var víðast byrjaður um helgina í 13. viku sumars. Útheyskapur varð með besta móti. Var góð heyskaparveðrátta þar til í byrjun september að skipti um til votviðra og krapaúrfellis. Hraktist hey sem þá var úti nokkuð, en náðist þó dagana fyrir leitirnar, því þá komu góðir þerridagar. Heybirgðir urðu nægilegar og töluverðar fyrningar hjá mörgum. 2 bændur urðu heylausir, nefnilega Finnur í Vonarholti og Guðbjörn i Tungugröf. Lambahöld og fénaður yfir höfuð voru ágæt. Þó misstu þeir Grímur í Húsavik og Björn á Smáhömrum mikið af lömbum. Kúm var beitt út í fardögum.
Fiskur var hér af og til frá því í ágúst og fram eftir öllu hausti, en kom ekki almennt að notum, mest vegna beituleysis. Síld kom hér engin og smokkfiskur ekki heldur. Róið var í sumar frá 2 bæjum, varð hlutarhæð ca. 80-90 kr. Eftir leitir var róið af 4 bæjum, hlutarhæð hér um bil 40-80 kr. Til beitu var höfð í sumar síld, sem sótt var norður á Reykjarfjörð, en í haust var mest beitt með skelfisk, krækling, og hann sóttur inn að Skriðnesenni og suður að Króksfjarðarnesi. Ísfirðingar heimsóttu okkur ekki í ár, og þykir það engin skaði.
Skip kom með vörur til beggja verslananna 13. mars, hefði annars orðið vandræði með bjargræði. Verslun hefur í ár verið með besta móti, hvað verð á flestri innlendri vöru snerti. Vorull á 90 aura, haustull 60-65 aura pd. Kjötverð sama og í fyrra, 15-16-18, gærur 42 aura pd. og vel gefið fyrir fé á fæti. Fiskur í hæsta verði. Allt látið blautt sem aflaðist hér. Útlend vara í háu verði, hærra en síðastliðið ár. Vörubirgðir eru mjög litlar hjá Riisverslun en nokkrar í Félagsversluninni. Kaupstaðarskuldir hafa víst minnkað töluvert.
Jarðabætur voru meiri í ár en nokkru sinni fyrr, tók Búnaðarfélagið plægingamann, Matthías Helgason, sem vann hjá félagsmönnum, þó varð minna úr því en ætlað var. Tók hann 3 aura á ferfaðm.
Haugshús 3 voru byggð í ár, á Smáhömrum og Heydalsá og Húsavík. Girt með Landsjóðsgaddavír í Heiðarbæ og Tungu. Haustið var frostasamt og því urðu haustverk fremur lítil, þó var veðrátta lengst af stillt og hægviðri fram undir áramót. Kýr teknar inn ½ mánuði fyrir vetur. Farið að hýsa fé seint í nóvember til dala. Hestar teknir inn um hátíðar, er víða lítið farið að gefa rosknu fé við árslok. Hér fram í dalnum mun innigjafatími fyrir roskið fé vera 22 vika, lömb 3 vikur, hestar 1 vika.
Heilsufar fólks hér hefur verið gott, enginn dáið nema unglingspiltur frá Kirkjubóli, Zakarías Halldór Aðalsteinsson, 6. júlí. Börn hafa fæðst mörg. Hvergi hefur orðið vart við fjárkláðann í haust og sýnist að baðanirnar í fyrra ætli að hafa góðan árangur.
Skólinn er fremur illa sóttur i ár, og stafar það ef til vill af ótta við tæringu, sem kom upp í kennslukonu, Ragnh. Ásgeirsdóttur í fyrravetur. Var þó rækilega sótthreinsað þar. Kennari er sami. Skólinn fær 400 kr. landsjóðsstyrk nú í fyrsta sinni.
Búnaðarfélagið telur 22 meðlimi, og nýtur styrks úr landssjóði. Lestrarfélagið kaupir árlega bækur fyrir 80-100 kr. sem eru jafnframt bundnar i gyllt band. Fjárhagur þess er þröngur. Bindatala þess er um 650. Sparisjóðurinn heldur að lifna við, er nú í sjóðnum ca. 1.900 kr. Sveitarþyngsli aukast aftur. Kirkjusameiningin býður eftir samþykki stjórnarráðsins.
Þetta liðna ár má yfir höfuð teljast gott, heilbrigði, góður heyfengur og gott verð á innlendri vöru. Enda ég svo línur þessar með innilegum þakklætis tilfinningum til gjafarans allra góðra hluta, og óska að hann af náð sinni gefi okkur að árið sem í hönd fer, verði farsælt og gott að öllu leyti.
Yfirlit ársins 1906
Vetrarveðráttan mátti kallast fremur góð yfir höfuð. Jarðir héldust fram í miðjan janúarmánuð og hross sumstaðar hér í plássi ekki tekin af haga, og er það óvanalegt. Eftir það mátti heita jarðlaust og óslitin innistaða fyrir allar skepnur fram yfir miðjan marsmánuð. Kom þá góð og hagstæð hláka, og tók ekki fyrir jörð algjört eftir það. En þó voru innistöður hjá fénaði töluverðar eftir það, vegna óstilltrar veðráttu og umhleypinga. Vorið var afar kalt, en þó oftast fannlítið, og eyddust mjög hey, því víða varð að gefa lambfé. Þó reyndust flestallir hér í hreppi vel byrgir með hey, fyrningar jafnvel með besta móti hjá nokkrum.
Skepnuhöld ágæt og lambadauði ekki teljandi hér í hreppi, nema á einum bæ. Hafís rak hér inn, fjarðafyllir, í byrjun maímánaðar eða tæpan hálfan mánuð af sumri, og lá hér mánuðinn út. Innigjafatími hér fram til dala mun hafa orðið hér um bil þetta: Sauðfé 18 vikur, hross 15 vikur og kýr 35 vikur.
Eðlilegar afleiðingar vorkuldanna urðu þær að mjög seint greri, en þó varð grasspretta vonum fremur góð. Sláttur byrjaði í 13. viku sumars. Um það leyti gerði norðan kulda kast og snjóaði ofan í byggð dag eftir dag, héldust þá óþurrkar um tíma, svo töður hröktust nokkuð, helst i útsveitinni. Í ágústmánuði geri góðan þerrakafla í hálfan mánuð, en oftast var kalt, t.d. nóttina milli 20. og 21. ágúst var -4° á C. Flestir hættu heyskap viku fyrir leitir því þá voru látlaus illveður, og hraktist hey talsvert, sem þá var úti og náðist víða ekki fyrr en hálfum mánuði eftir göngur. Heyskapur var í meðallagi. Haustveðrátta mjög rosa- og umhleypingasöm. Þó gengu kýr úti fram undir veturnætur. En er á leið haustið gerði kaföld og komu skepnur hér snemma á gjöf og hafa jarðir verið sama sem engar til árs loka.
Afli varð hér mjög rýr. Fiskur gekk hér inn á fjörðinn seint í ágústmánuði, og var oftast reita, ef beita hefði verið til, fram eftir öllu haust. Síldar varð vart lítilfjörlega, en smokkur kom ekki. Hausthlutur að meðaltali 40-50 krónur. Til beitu var höfð fryst síld og kræklingur sem sóttur var suður fyrir fjall.
Fé skarst fremur illa og hafa því valdið kuldar og illveður í sumar. Með mesta móti var látið af fé, dauðu og lifandi, í kaupstað.
Verslunin var í ár með besta móti. Flest innlend vara í háu verði, t.d. vorull á kr. 1.00. Haustull 0.60, 5 aurum lægri þó en í fyrra. Gærupundið á 0.48. Kjötverð 18 og 20 aurar. Fjárverð á fæti: Veturgamalt 100 pd. á 15 aura pd. Dilkar: 90 pd. 0.14½. Hrútar: 110 pd. á 0.14. Ær: 100 pd. á 0.12 aura. Fiskur í mjög háu verði. Ýsa 4½. Smáf. 5½. Málf. 6½ eyrir pd. blautt.
Útlend vara í líku verði og í fyrra, eða heldur lægri sumar vörutegundir. Því varla er teljandi lækkun við Riisverslun, þó nokkrar vörusortir væru lækkaðar, þar sem aftur á móti er sleppt prósentu, 10%, sem verslunin gaf öllum viðskiptamönnum sínum í fyrra, en verða nú engar að sagt er. Birgðir til vetrarins eru mjög litlar. Matvöruskortur hefur ekki orðið tilfinnanlegur í ár, því vörur komu með strandferðaskipi síðast í marsmánuði. Ef ís hefði þá tálmað, mundi hafa orðið stórkostleg vandræði.
Jarðabætur urðu næstum engar í ár hér i hreppi. Orsakir til þess eru aðallega tvær, nefnilega vorkuldarnir, og svo það að nú er enginn maður ráðinn af Búnaðarfélaginu til að vinna að jarðabótum hjá bændum. Hvergi er um aðra menn að tala á bæjum en bændurna, og verða þeir víða sjálfir að hirða fé sitt, sem þurfti mikillar umönnunar um sauðburðinn, og þegar tíðin loks breyttist til batnaðar, og sleppa mátti fénaði, þá var ekki tími til annars en venjulegra voranna. Haugshús eru nú komin á 7 bæi hér í hreppi af 16, nefnilega Kollafjarðarnesi, Smáhömrum, Heydalsá, Tind, Miðdalsgröf Húsavík og Tröllatungu, og er það mikilsvert framfaraspor, því góð áburðarhirðing er aðalundirstaða landbúnaðarins. Byggingar hafa engar verið, sem teljandi eru, eða aðrar framkvæmdir.
Heilsufar fólks hefur verið gott. Dáið hafa hér þetta ár: Jón bóndi Magnússon á Kollafjarðarnesi, á sjötugsaldri, Þóra Jörgensdóttir, ung stúlka, trúlofuð Ingvari Magnússyni á Hvalsá, og Benedikt sonur Jóns bónda í Þorpum, efnilegur unglingspiltur, varð bráðkvaddur? Bátur fórst úr Grímsey með 5 mönnum á. Þeir voru allir úr Reykjavík, nema einn af Selströndinni. Börn hafa fæðst mörg.
Unglingaskóli hreppsins er fremur illa notaður af hreppsbúum, en þó eru nú alls á honum 16-18 fyrripart vetrar. Búnaðarfélagið hefir 21 félaga og fékk í ár 200 kr. styrk úr Landssjóði. Lestrarfélagið á nú 700 bindi, skuldar talsvert, var þó safnað gjöfum á fundi, hér um bil 50-60 kr. Sparisjóðurinn hefur aukist um tæpar 2 þúsundir kr. er nú 3.500 kr. Sveitarþyngsli aukast talsvert aftur. Hæsta útsvar, 115 kr., B.H. Kirkjusameiningin er nú loks eftir langa mæðu komin á, í orði og á pappírnum, en verklegu framkvæmdirnar eru eftir.
Þetta liðna ár hefur ekki verið neitt verulegt framfara ár, að öðru leyti en því, að efnahagur manna lítur út fyrir að hafa heldur batnað lítilsháttar, og verður þegar á allt er litið að teljast dágott hvað bjargræðisvegi snertir, en með lökustu árum, ef það er skoðað frá sjónarmiði framfaranna. Þegar ég nú kveð þetta liðna ár get ég ekki annað en verið hálfóánægður yfir því hve lítil framfaraspor það skilur eftir hjá okkur hér, og lít til ókomna tímans, nýja ársins, með þeirri innilegu ósk og von að það verði ríkara í þessu tilliti.
Góður guð gefi okkur gleðilegt og farsælt nýtt ár.
Yfirlit ársins [1907]
1. Vetrarveðráttan var síðasliðið einhver sú lakasta er menn muna, sífelldir umhleypingar. Ýmist blotar með rokveðri útsynningsmold og norðan bylir. Óslitin innistaða fyrir allar skepnur víðast, frá því á jólaföstu og fram undir marsmánaðarlok, eða rúmlega 16 vikna skorpa. Vegna þessara sífelldu blota leysti alltaf öðru hverju aftur, þó fönn hlæðist niður, varð því fanndýpi aldrei mjög mikið. 25.-29. mars, fyrir páskana, kom hláka, og leysti þá vel svo jörð kom upp, og tók ekki fyrir hana eftir það.
2. Vorið var ákaflega kalt, en úrkomur mjög litlar. Kringum 20. maí voru nokkrir dagar vel hlýir, og greri þá furðu vel, og bjargaði sú gróðurnál víst margri skepnunni frá hordauða í sumum plássum landsins, í öllum þeim kuldum sem héldust vorið út. Hafís kom enginn, þó ótrúlegt virðist eftir veðráttufari.
3. Skepnuhöld urðu þó yfir höfuð góð hér í hreppnum og lambadauði ekki mikill. Heylausir urðu hér í sveitinni 4 bændur. Flestir hinna voru vel byrgir. Margir tóku meira og minna af kornvöru til skepnufóðurs, síðari hluta vetrar og einkum í vor, vegna heyskorts, þó var það ekki almennt eins mikið hér í hreppi sem víða annarstaðar.
4. Innigjafatími var hér fram til dala hér um bil þetta: Kýr 35 vikur, lömb 20 vikur, ær 19 vikur, hross 18 vikur.
5. Vegna þessara miklu vorkulda og sífelldu norðan þurrablástra sem héldust af og til allt sumarið, var grasspretta með lakasta móti, einkum á túnum, töðufengur víðast 1/3 til 1/2 minni en í góðu meðalgrasári. Útheyskapur betri, einkum vegna þess hve veðráttan var hagstæð til heyskapar stöðug norðanátt og þerrar. Hey eru því vel orðin, en víst fremur létt og mikilgæf. Sumarið var ódæma kalt, til dæmis var nóttina fyrir 1. sept. -4° og aðfaranótt 3. Sama mánaðar 6½° C. Sláttur var byrjaður síðustu daga júlímánaðar víðast, og sum staðar lítið eitt fyrri, og var verið við hann af flest- um til leita. Náðu svo allflestir inn heyjum litlu síðar lítið hröktum.
6. Haustveðráttan var æði mislynd, sérstaklega fyrri hluti þess. Norðan bleytukaföld og sunnan rok á víxl. Leitarmánudaginn 23. sept. var vonsku bleytukafaldsbylur, svo fjárleitir urðu gagnslitlar, fennti þá til sjóar. 6. nóv. var stórfellt rok og ódæma mikið illveður. Föstudag og laugardag 4.-5. okt. gerði eitt hið mesta norðan veður með bleytuhríð og frostbyl dimman síðari hluta hins 5. Þá fennti fé víða og hrakti í ár og læki, og fannst þá og síðar, bæði dautt og lifandi, er upp leysti fönnina. Kýr komu á gjöf í byrjun októbermánaðar. Síðari hluta haustsins var veðrátta fremur góð, og jarðir nægar, en beit létt. Alauð jörð og logn og bjartviðri fyrir og um hátíðarnar. Hestar ekki komnir inn í árslok, og á stöku bæ ekki farið að kenna lömbum át, upp í Kollafirði til dæmis.
7. Fiskiafli var varla teljandi hér þetta ár. Róið í haust aðeins frá 4 bæjum. Langhæstur hlutur hjá einum manni um 50 kr. fra því nokkru fyrir leitir. Hrognkelsaafli aftur á móti með langmesta móti utarlega við fjörðinn beggja vegna, en gengu ekki inn. Við síld varð lítið eitt vart, og eins smokkfisk, en hvorugt svo nokkurt verulegt gagn yrði að.
8. Fé skarst í löku meðallagi. Aldrei fyrr látið eins mikið af fé til kaupmanna og eins uppskorið. Verslun góð að því leyti að fjárverð var með hæsta móti. Vorull á 90 pd. Haustull 0.55. Fiskur í afar háu verði. En útlend vara hækkaði flest að mun, einkum síðari hluta ársins. Vörubyrgðir til vetrarins fremur litlar að sögn. Það hjálpar bændum nú orðið að kaupmenn eru farnir að fá skip hér inn að vetrinum með matvöru o.fl. sem gjarnan mætti bíða til vorsins, að minnsta kosti sumt.
9. Jarðabætur voru sama sem engar unnar í hreppnum í ár, nema hjá 3 bændum eða svo, sem teljandi eru. Ráðinn var plægingamaður til Búnaðarfélagsins, en það fórst fyrir að hann ynni, meðfram vegna vorkuldanna. Haugshús var byggt eitt í ár, nefnilega í Heiðarbæ. Vatn leitt inn á einum bæ, Gestsstöðum.
10. Húsabyggingar hafa verið þó nokkrar, sem veruleg bót er að, nefnilega: Byggt timburíveruhús með steinlímdum kjallara í Tungugröf. Þangað flutti í vor Jón Guðmundson trésmiður frá Ísafirði, tveir aðrir smiðir fluttu í hreppinn: Guðjón Jónsson frá Heydalsá og Ásgeir Ásgeirsson austan úr Hrútafirði. Hlaða byggð í Tröllatungu 20×62 Al. timbur að nokkru með járnþaki. Hlaða í Húsavík 15×7 al. undir járnþaki að nokkru úr timbri, og fleirstæðihús við með timburhlið, einnig undir járni. Timburhjallur einnig byggður í Húsavík undir járnþaki. Heiðarbæ timburhjallur 7×6 al. sömuleiðis undir járni. Aukið nýju einlyftu timburhúsi með kjallara, járnklætt, við skólabygginguna á Heydalsá, og gamla húsinu öllu breytt að innan. Á Kirkjubóli byggð baðstofa í 5 stafgólfum, vel vönduð að máttarviðum með timburhlið og stafni, pappatorfþak og pappaklædd. Víða hafa líka verið byggð dágóð hús á bæjum, helst fénaðarhús.
11. Heilsufar fólks hefur verið mjög gott, þó gekk væg landfarsótt, rauðir hundar, í vor. Kom ekki nema á suma bæi. Dáið hafa hér í hreppi þessar konur: 18/5 Sigurlaug Jónsdóttir, kona Guðmundar Ketilssonar í Tröllatungu. 18/7 Sólrún Sólmundardóttir sama stað, kona Guðbjartar Benediktssonar, og 3/10 Helga Zakaríasdóttir kona Björns gamla á Klúku, áttræð. Börn hafa fæðst mörg.
12.
a. Unglingaskólinn á Heydalsá er ekki vel notaður af hreppsbúum, verða fleiri á honum síðari hluta. Nemendur nú 10-15. Úr Landsjóði fékk hann 500 kr. byggingarstyrk.
b. Bindindisfélag ungmenna í Kirkjubólshreppi “Tilraun” að nafni var stofnað á þessu ári, meðlimir yfir 20.
c. Lestrarfélagið hefur dafnað vel í ár. Fjölgað meðlimir, eru nú um 30. Borgaði 100 kr. skuld er það var í við bókavörð, keypti þó talsvert af nýjum bókum.
d. Búnaðarfélagið hefur verið í einhverskonar dauðadosi síðastliðin 2 ár. Margir meðlimir þess sama sem ekkert unnið, stöku maður ekki fyrir árstillagi yfir bæði árin.
e. Kynbótabú var sett á fót á Tind hér í hreppi, til þess eru veittar árlega 300 kr., 100 úr sýslusjóði og 200 úr Landbúnaðarfélagssjóði.
f. Sparisjóðurinn hefur aukist mikið á liðnu ári, er nú nálega 5.000 kr. Varasjóður 266 kr.
g. Haldin var samkoma til skemmtunar á sunnudag milli jóla og nýárs í Skólahúsinu nýja á Heydalsá. Presturinn hélt þar fyrirlestur í tilefni af skólabyggingunni meðal annars. Þar var og leikinn dálítill sjónleikur. Sungið og dansað.
h. Geta má þess og að haldið var úti sveitablaði eftir nýár, sem nefndist “Gestur”. Kom það út einu sinni í viku. 14 blöð alls um 20 arkir. Ritstjóri Halldór Jónsson Miðdalsgröf. Lestur á því kostaði 25 aura á hverju býli. Var keypt af 20 manns lestur á því, en andvirðið var gefið í sjóð Lestrarfélagsins. Ræddi það ýms málefni er sveitarfélagið varða, og flutti sagnir, ljóðmæli og smávegis til skemmtunar.
i. Sveitarþyngsli hafa aukist mjög mikið á þessu ári, útsvör hækkuðu um 1/3 frá því sem var í fyrra. Hæsta útsvar í haust var 150 krónur. Svo er nú þetta “árið liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka,” í rauninni sé ég lítið eftir því, en þó hefur mér liðið að flestu leyti vel á því og heldur ef nokkuð er, á ég meiri efni við lok þess en í byrjun ef á allt er litið.
Í ársbyrjun 1907 átti ég eftir lauslegri ágiskun lifandi pening sem telst: kr. 1460.00. Þar að auki jörðina virta á 1.400 kr. með öllum húsum, og búshluti alla innan- og utanstokks, á að giska 700 kr. Alls: 3.560 kr. – skuldir 1.128 kr. = 2.432 kr. En nú við árslok á ég eftir sömu ágiskun lifandi pening að verði kr. 1.370.00. Jörðin með húsum 1.440 kr. Búshlutir hér um bil 440 kr. Alls: kr. 3.550 – skuldir kr, 979.00 = 2.571 kr. Gróði: Kr. 139.00 eða 5¾%. Þar að auki framfærsla 3 krakka og ¼ árs það fjórða. Og svo er nú það. Fleira gæti komið hér til greina, en sem ég sleppi að færa í letur. T.d. heyforði miklu minni.
Yfirlit ársins [1908]
1. Tíðarfar:
Góðviðri og ágætishagar fyrir skepnur, hélst fram yfir miðjan janúar, þá brá til rosa- og umhleypinga með fannkomu til skipta, og tók fyrir haga. Fanndýpi þó aldrei mikið, hélst það veðurlag fram í febrúar. Eftir það oftast við norðanátt með kafaldi að öðru hverju fram undir miðjan marsmánuð, síðan umhleypingar aftur, þó smáfelldari til mánaðarlokanna. Með aprílbyrjun, hinn 6., kom góð hláka með góðviðri og hæggerðri leysingu á eftir nærri hálfsmánaðar tíma. Kom þá upp nægileg jörð, sem ekki tók fyrir eftir það. Síðari hluta mánaðarins, hæglát norðan átt, úrkomulaust oftast og frostlítið. Snemma í maí gerði norðan kulda með nokkru kafaldskófi en hlýnaði svo aftur. Eftir það yfir höfuð ákjósanlegasta vorveðrátta svo að snemma greri. Sumarveðráttan var indælisgóð, mátti svo heita að heyfengur manna þornaði alltaf eftir hendinni. Haustveðrátta óminnilega góð fram yfir miðjan nóvember, svo ekki gat heitið að snjóföl kæmi fyrr á jörð. Eftir það óstillt veðrátta, blotar og norðan kaföld til skipta og varð haglaust af áfreða um desemberbyrjun víða til dala, en jörð ofast við sjóinn til ársloka. Hafísinn lét ekki sjá sig í ár, og grétu það víst fáir.
2. Heylausir
urðu 2 eða 3 búendur hér í hreppi en flestallir hinir áttu nokkrar, og sumir miklar fyrningar eftir í vor, mest á sjóarbæjunum. Innigjafatími til dala varð nálægt þessu: Kýr 34 vikur, 4 dagar. Ær: l7 vikur. Lömb: 19 vikur, 2 daga. Hross: 14 vikur. En við sjóinn miklu minna. Skepnuhöld voru góð og lambadauði enginn hér í hreppi nema á 3 bæjum fór talsvert af lömbum úr fjöruskjögri. Húsavík, Þorpum, 40, og Smáhömrum. Fénaður gekk vel undan vetri og tók snemma vorbata. Málnytupeningur gerði ágætt gagn í sumar og kýr mjólka með besta móti í vetur. Fjárheimtur almennt góðar og skarst fé með besta móti. Kýr gengu úti fram á veturnætur og á stöku bæ jafnvel lengur. Fé kom á gjöf á dalabæjum kringum 20. nóvember, og hross tæpri viku síðar.
3. Grasspretta
varð ágæt á túnum, en óskiljanlega léleg á úthaga víðast, nema þar sem margfornar slægjur voru til. Til dæmis á Heydal mátti sumstaðar saxa úr hálfmúgum. Töður því bæði miklar og góðar og nýting heyja yfirleitt ágæt til sláttarloka. Heyskapur að vöxtum í góðu meðallagi, og ágætur þegar tekið er tillit til þess hve heyskaparfólk er orðið fátt. Sláttur var byrjaður almennt kringum 10. júli og hætt viku fyrir og undir leitir.
4. Afli:
Hákarlsafli var lítill í vetur hér við fjörðinn. Hrognkelsaafli talsverður í vor utanvert við fjörðinn og fiskafli ágætur um tíma eftir leitirnar. Mátti því heita mokafli vikutíma, nálægt 20 kr. hlutur á dag. Var fram eftir öllu hausti dágóður afli. Síld fékkst engin, en smokkfiskur fékkst mikill um tíma. Hlutir um 100-150 kr. og hjá nokkrum nálægt 200 kr. hlutur.
5. Verslun
var þetta liðna ár með erfiðasta móti. Flestöll útlend vara mjög dýr, en innlend vara, einkum kjöt og ull, féll ákaflega mikið í verði. Vorull á 50 aura. Haustull 35. Kjöt 17-18 aura pundið. Lifandi fjárverð að sínu leyti betra. Var með flesta móti látið á fæti, bæði á markað og rekið í kaupstaðinn til slátrunar. Slátrun fékkst ókeypis við verslanirnar. Kaupstaðurinn er illa byrgur með matvöru til vetrarins, og kaffi, sykur, tóbak, steinolía og margt fleira sem menn þykjast ekki geta án verið, hefur verið ófáanlegt um tíma, og verður þar til í vetur, að von er á skipi, ef hafís þá ekki bannar. Verslunarskuldir almennt með langmesta móti vegna verðhækkunar á útlendri vöru en lækkunar á innlagðri og svo setja sumir ef til vill heldur fleiri skepnur á vetur en áður.
6. Jarðabætur
voru unnar með mesta móti í vor. Búnaðarfélagið hafði mann við jarðabótavinnu í allt vor, Odd Lýðsson, og svo var annar maður, J.H. Jónsson, tekinn af nokkrum til plæginga. Alls voru unnin af félagsmönnum 622 dagsverk. Haugshús var byggt eitt hér í hreppi, í Þorpum. Þau eru nú orðin 9 í hreppnum, eitt þó í óstandi.
7. Húsabyggingar
voru engar, sem teljandi eru, aðeins nauðsynlegar aðgerðir, en engar nýjar verulegar byggingar. Geta má um í sambandi við þetta að byggt var svonefnt slátrunarhús á Hólmavík við Söludeildarverslunina og á hennar kostnað. Var slátrað í því í haust öllu því fé er til þeirrar verslunar var látið.
8. Heilsufar fólks
hér í hreppi hefur mátt heita gott. Kvefsótt hefur þó gengið hér eins og venjulegt er í flestum árum, og lungnabólga stungið sér niður, en þó engir dáið úr henni. Barnaveiki fluttist í Staðarsveit með norskum verkamönnum, og dó hér úr henni Björn Jónsson, Björnssonar á Klúku, unglingspiltur í Húsavík og 2. dag nóvembermánaðar andaðist merkisöldungurinn Björn Björnsson á Klúku, á 100, aldursári, fæddur 8. ág. 1809.
9. Þá er víst óhætt að telja það með framförum, þessu héraði viðkomandi, að í ár var lögð símalína frá Stað í Hrútafirði, sem liggur um meirihluta hreppsins, áleiðis til Ísafjarðar, með stöð á Hólmavík. Hún, nefnilega símastöðin, er kostuð af verslununum og Hrófbergs- og Kaldrananeshreppum.
10. Kosning til alþingis
fór fram í fyrsta sinn eftir nýju lögunum, leynilegar kosningar, 10. september, hér eins og annars staðar á landinu, og höfnuðu nú Strandasýslubúar sínum gamla, og að mörgu leyti nýta þingmanni, Guðjóni Guðlaugssyni, orsökin til þess var aðallega sú, að hann tjáði sig vilja fylgja Sambandslagauppkastinu óbreyttu, sem leggja á fyrir næsta þing. Svo hefur víst sumum þótt hann hafa nægilegt starf fyrir höndum þó hann sleppti þessu. Kosinn var í hans stað cand.jur. Ari Jónsson með 99 atkvæðum. Guðjón fékk 87.
11. Heydalsárskólinn
laklega sóttur það sem af er þessu ári, 11 nemendur, en í fyrravetur voru stundum nálægt 20 nemendur. Kennari er sami og áður.
[12.] Lestrarfélagið
dafnar eftir vonum, meðlimir nálægt 30. Bætti við sig á árinu 14 bindum. Mikið bundið af bókum. Skuldar nú um 30 krónur. Er vátryggt upp á 1.000 krónur.
13. Verslunarfélagið
get ég lítið sagt um, því enginn fundur hefur verið haldinn í því fyrir þetta ár eða hið næstliðna. Síðastliðinn vetur var haldinn fundur á Heydalsá, til að ræða um ýmis málefni er snertu söludeild félagsins, var orsök til þess grein um Söludeildina í sveitablaðinu “Gesti.”
Á þeim fundi var ákveðið: 1. að byggja slátrunarhúsið sem nú stendur á Hólmavík. Var í því skini lagt fé í Stofnsjóð úr Kirkjubóls- og Fellshreppum, nálægt 500 kr. og annað eins var gert ráð fyrir að Hrófbergs- og Kaldrananeshreppar legðu fram. En svo fór að aldrei var því hreift í þeim hreppum, en mönnum í Kirkjubóls- og Fellshreppum er nú boðið upp á að færa sín stofnsjóðsinnlög yfir Í viðskiptareikninga þeirra við Söludeildarverslunina. Var ákveðið á fundi þessum að setja á stofn Sparisjóð við Söludeildina, og átti deildin að fá forgangsrétt að lántöku úr þeim sjóði fyrst um sinn. Sá sjóður er óstofnaður enn, og lítur út fyrir að muni ekki verða stofnaður fyrst um sinn. Hið 3. ákvæði fundarins var að Verslunarfélag Steingrímsfjarðar gengi Í Sambandsverslunarfélag Íslands. Það gat heldur ekki orðið. Samvinna milli mikils hluta viðskiptamanna Söludeildarinnar og forstjóra hennar er fremur stirð, einkum síðan kosningar til alþingis fóru fram í haust.
14. Bindindisfélag ungmenna
hér í hreppi, sem stofnað var í fyrra, leið undir lok nú nýlega. Það átti 40 kr. sjóð, sem skipt var til helminga milli Lestrarfélags hreppsins og Helgu gömlu á Kirkjubóli.
15. Kynbótabúið á Tind
hefur ekki starfað í ár, vegna þess að síðasti sýslufundur gerði sér það til vansæmdar að draga svo úr styrk til þess, að sínum hluta, að engin styrks von er frá Landsbúnaðarfélaginu til búsins. Hafði þó sýslunefndin enga ástæðu aðra fyrir þessu, en heimskulegan sparnað eða smásálarskap.
16. Búnaðarfélagið
hefur í ár sýnt dálítinn lífsvott, þar sem unnin hafa verið í því eins og áður er sagt 622 dagsverk. Sjóður þess nú 204 kr. Meðlimir 21. Landssjóðsstyrkur 123 krónur, og verðlaun til félagsmanna 20 aurar á dagsverk, Nú nýskeð voru ráðnir 2 menn til jarðarbóta hjá félagsmönnum á komanda vori.
17. Sparisjóðurinn
eykst árlega. Er hann nú nálægt 6.000 kr. Þó höfðu verið teknar út liðlega 1.000 kr. af innlagsfé. Umsetning hans á 12. þúsund.
18. Sveitarblaðið “Gestur”
hélt áfram síðastliðinn vetur, kom út einu sinni í viku frá veturnóttum til sumarmála, alls 23 arkir. Lestrargjald 50 aurar. Gekk það að nokkru leyti til Lestrarfélagsins. Ritstjóri blaðsins var Halldór Jónsson í Miðdalsgröf.
19. Sveitarþyngsli
svipuð og í fyrra, þarfir yfir 1000 kr. Hæsta útsvar kr. 160.00, Björn Halldórsson á Smáhömrum.
20. Ábúendaskipti
urðu hér í hreppi þessi: Sólveig Bjarnadóttir á Kollfjarðarnesi fór að Heydalsá í húsmennsku, en Magnús Jónsson, annar ábúandi á Kollafjarðarnesi fór að Hvalsá, en sr. Jón Brandsson byrjaði búskap á Kollafjarðarnesi. Friðrik Magnússon á Hvalsá flutti að Gestsstöðum, en Kristmundur Jónsson sem þar bjó flutti að Valshamri í Geiradal. Magnús Jónsson á Heydalsá hætti búskap og fór í húsmennsku að Kollafjarðarnesi. Bjarni Guðbrandsson í Arnkötludal fór suður að Miðhúsum til Odds læknis, en að Arnkötludal fór Finnbogi Björnsson frá Miðhúsum í Kollafirði. Finnur í Vonarholti hætti búskap, en þangað fór Þórólfur Jónsson Einarssonar. Jón Guðmundsson, trésmiður í Tungugröf tók þá jörð hálfa til ábúðar.
21. Hægt þokar áfram með nýju kirkjuna tilvonandi á Kollafjarðarnesi. Ráðinn maður til að keyra að mölina í steypuna. Guðmundur Felli. Verður, ef allt fer eins og áformað er, byrjað á byggingunni í vor. Áhuginn ekki almennur, langt fjarri því. Trúarlífið virðist dofna ár frá ári, margir ásáttir um að hafa hvorki prest né kirkju. Örsjaldan messað, er það þó ekki af því að prestinn vanti á kirkjustaðinn, heldur söfnuðinn. Haldinn var aftansöngur á aðfangadagskvöld jóla í skólahúsinu á Heydalsá, og messað á Jóladaginn í Tungukirkju. Fátt fólk við kirkju, hamlaði þó hvorki illt veður né ófærð.
Þá ætla ég að getið muni vera hins helsta af viðburðum ársins, og læt því hér staðar numið. Þetta ár var yfirleitt veðurblíðu- og farsældar ár fyrir þetta hérað eins og víðar, að undantekinni versluninni, því hún var með erfiðasta móti sem verið hefur nú um lengri tíma.
Yfirlit ársins 1909
1. Tíðarfar:
Með ársbyrjun gerði fannkomu af vestri og norðri, svo jarðlaust varð víðast hér um pláss, en frostlítið oftast. Í febrúar var veðráttan smáfeldari og blotar á milli, þó kom ekki upp jörð, svo veruleg not yrðu að fyrr en seint í mánuðinum. Með Góubyrjun. Í mars oftast með norðan stormi og kófkaföldum, talsverð frost. Var þá oftast innistaða fyrir fénað, þar til síðast í mánuðinum. Eftir það oftast beitt fram úr. Í aprílmánuði oftast góðviðri og úrkomulítið, síðast í mánuðinum austan blástrar, sjaldan frostlaust. Stöku dag mikill hiti 10-12° í skugga. Vorið kalt framan af, svo gróðrarnál, sem kom snemma um vorið kulnaði aftur. En er á vorið leið kom indælis vorblíða, þurrkar helst til miklir, 3-4 dagar sem vætu gerði allt vorið. Hafísinn kom hér ekki í þetta sinn. Framan af sumri voru þurrviðri og oft miklir hitar. Um miðjan júli varð votviðrasamara og hélst það af og til yfir sumarið, nema dag og dag í bili sem þerrir gerði. Haustveðrátta rétt óminnilega rosasöm og úrkomur miklar. Fannkoma þó sjaldan mjög mikil, eða vonskuhret. Úrfelli minni og hægviðri á milli er á leið haustið. Þessu líkt viðraði til ársloka, stundum frosthörkur um 20° frost C.
2. Heybirgðir og skepnuhöld:
Heybirgðir voru yfirleitt nægar í hreppnum, þó urðu 2 búendur heylausir nokkuð snemma. Skepnuhöld fremur góð, nema bráðapest drap á stöku bæ talsvert, þar sem fé var ekki bólusett. Lambahöld ágæt víðast og óvanalega margt tvílembt. Fjárheimtur ekki rétt góðar. Fé skarst lakara en næstliðið ár. Kýr fór út 1 6. viku sumars og teknar inn 3 vikum fyrir vetur. Farið að hýsa fé og lömbum kennt át, að minnsta kosti á dalabæjum, seint í októbermánuði. Jörð var oftast góð og fé beitt að öðru hverju til ársloka. Gjafatími síðastliðinn vetur varð á dalabæjum: Kýr 32 vikur, 3 daga, lömb 21 viku, ær 18 vikur, 6 daga. Hross: 15 viku, 5 daga. En miklu minna við sjávarsíðuna. Nú við árslok er innigjafatími hér í dalnum orðinn þetta: Kýr 13 vikur, 3 dagar. Lömb 5 vikur, 3 dagar. Ær 5 vikur, 1 dagur. Hrossum sama sem ekkert gefið.
3. Heyskapur:
Grasspretta varð góð og sums staðar ágæt, Þó brann af vegna hinna miklu þurrka og hita á harðlendum túnum, og harðvelli spratt líka þar af leiðandi lakar. Heyskapur með meira móti að vöxtum, hefði orðið fyrirtaksgóður, ef óþurrkar hefðu ekki dregið úr. Töður náðust ágætlega vel þurrar, og nokkuð fyrst af útheyinu, en megnið af heyinu frá síðari hluta sumars var meira og minna hrakið. Flestir hættu heyskap viku fyrir leitir, og sumir jafnvel fyrr.
4. Afli:
Hákarlsafli varð sama sem enginn í vetur á þessum 2 bæjum sem hann er stundaður hér í hreppi. Hrognkelsi veiddust snemma, og með mesta móti í vor. En lítið um net hjá flestum. Fiskur kom síðari hluta sumars, seint í ágúst, og síld. Var almennt farið að róa viku fyrir leitir. Þá kom hlaðafli um tíma, og smokkfiskur, dróst hann fram eftir haustinu. Ógæftir stöðugar drógu mikið úr afla, því tímum saman varð ekki róið, og þegar á sjó var farið oft lítið um næði, svo verulega væri hægt að bera sig eftir björginni Fiskvart nærri fram undir jól. Hingað komu 3 mótorbátar frá Ísafirði sem ætluðu að grípa hér upp mikinn afla, en höfðu sáralítið, því sjaldan gaf, lágu þeir hér lengi aðgerðarlausir og lá við sjálft að þeir ekki fengju heimferðarveður.
5. Jarðabætur:
voru unnar með meira móti, einkum túngirðingar. Voru tveir menn í vinnu allt vorið, ráðnir af búnaðarfélagi hreppsins við jarðabætur.
6. Húsabyggingar
engar teljandi. Verslanir hér flytja heldur engan við, svo þó einstakir menn vildu og treystust til að byggja, þá er við ekki að fá, nema þá að panta hann lengra að fyrir peninga, en þeir mega heita ófáanlegir um þessar mundir. Í sumar var byggð kirkja fyrir Tungusveit og Kollafjörð, á Kollafjarðarnesi. Hún er úr steini 152×10 al. Byggð hana 4 menn frá Reykjavík, og með þeim 2 menn hér úr plássi. Magnús Lýðsson og Jón Guðmundsson, trésmiður í Tungugröf. Tóku þeir Reykvíkingarnir að sér bygginguna að öllu leyti fyrir 7.050 krónur. Voru þeir við verkið frá seint í maí til ágústloka. Sunnudaginn 5.september var kirkjan vígð af prófasti Eiríki Gíslasyni, að viðstöddum fjölda manns, líklega um 400 og tók kirkjan ekki. Síðan hefur verið messað aðeins tvisvar, og varla messufært fyrir fólksfæð.
7. Verslun:
Öll útlend vara fer síhækkandi, en innlend vara hækkaði heldur aftur í verði. Vorull varð á 70 aura, haustull 40 aura. Kjöt 16 og 17 aura, gærur 35 aurar pundið. Lifandi fjárverð eitthvað lítið hærra, en síðastliðið. Skuldir hafa víst heldur minnkað hjá flestum. Verslanir hafa vantað margar nauðsynjavörur tímum saman, bæði snemma vetrar og síðari hluta sumars, og nú eru vörubirgðir litlar, og sama sem engar hjá Verslunarfélaginu okkar.
Riisverslun á Hólmavík byggði slátrunarskýli hjá sér, þó ómerkilegt sé, þá er það lakur skúti sem ekki er betri en úti. Kom það að góðu í haust eins illa og viðraði, að geta slátrað undir þaki í báðum verslunum. Ný verslun var sett á stofn á Hólmavík í sumar, eigandi hennar er Guðjón Brynjólfsson frá Broddadalsá. Er verslun hans í smáum stíl og aðeins með kramvöru. Samkeppni eykur hún ekki.
8. Sýning á búfé,
hin fyrsta Í Strandasýslu var haldin á Heydalsá 25. september. Tóku þátt i henni 3 hreppar: Fells-, Kirkjubóls- og Hrófbergshreppar. Á sýninguna komu 2 naut, 24 kýr, 3 graðfolar, 18 hryssur, 17 hrútar, 17 ær. Ísleifur á Tind fékk I. verðlaun fyrir kú, og Björn á Smáhömrum, 1. verðlaun fyrir naut undan sömu kú. Fyrstu verðlaun fyrir fé, Sigurður á Broddanesi fyrir hrút og aðrir fyrir 2 ær. Sýningin var fjölmenn. Þeir ráðanautarnir Sigurður Sigurðsson og Hannes héldu tölur.
9. Heilsufar fólks
hér hefur ekki verið rétt gott. Kíghósti gekk hér í börnum og barnaveiki stakk sér niður, dó þó ekkert úr því. Kvefsamt hefur líka verið með meira móti. Brjálsemi á fólki var líka óvenjumikil. Finnbogi í Arnkötludal varð svo um tíma, að slá varð utan um hann. Ragnheiður, vinnukona á Hrófá varð brjáluð um tíma, upp úr barnaveiki, Guðrún, kona í Heiðarbæ sömuleiðis eftir barnsburð. Jónína á Hvalsá. Fullorðnir sem dóu hér í hreppi voru: Elín Jónsdóttir, unglingsstúlka á Heydalsá, dó úr tæringu 18. febrúar. Ingibjörg Markúsdóttir, miðaldra kvenmaður, hafði verið brjáluð yfir 20 ár, sveitarómagi með 200 kr. meðlagi, hún dó 3. maí. Jónína G. Jónsdóttir vinnukona um 25 ára, á Hvalsá dó 31. maí, lá lengi. Þórður Jónsson, unglingsmaður á Heydalsá, hafði lengi verið veikur af magnleysi. Fékk krampa, dó 26. desember. Helga Jónsdóttir, sem lengi var í Gestsstaðaseli, nú á Kirkjubóli, orðin gömul og farlama aumingi dó á gamlársdag. Grímur Jónsson á Heydalsá barn á 8. ári, mesti aumingi alla stund, og flogaveikur, dó 30. desember. Börn hafa dáið 2 eða 3 í hreppnum þetta ár önnur, kornung.
Nú losaði dauðinn okkur við veslings gagnslitla læknirinn okkar, sem við höfum í fleiri ár þráð að færi á einhvern hátt, nefnilega G.B. Scheving. Hann veslaðist loksins út af eftir langa og þunga legu hinn 24.jan. Kroppurinn mátti ekki liggja í “Stranda”mold og var því fluttur suður til Reykjavíkur. Síðan hafa læknar hér verið á mestu hriplingabjörgum. Magnús Pétursson – Magnús Júlíusson – og Sigvaldi Stefánsson. Hinum fyrstnefnda veitt embættið, en varð að véla til fullkomnari lærdóms.
10. Félög og stofnanir:
a. Heydalsárskólinn er fáskipaður, nú um 10 nemendur. Fjölgar sennilega framúr nýári. Kennari sami, Sigurgeir Ásgeirsson. En skólahaldið hefur nú nýi bóndinn á Heydalsá, Ásgeir tengdasonur Björns á Smáhömrum. Skólinn fær 150 kr. styrk af hreppssjóði hér og svo styrk bæði úr sýslu- og landssjóði.
b. Lestrarfélagið: Á því varð töluverð breyting í ár, því er nú lagt af hreppssjóði 30 kr. og “Legatinu” 7.50. Tillög lækkuð úr 1.50-1.00-0.50, ofan í kr.1.00-0.50-0.25. Milli 10 og 20 félagsmenn nýir bættust við en einn krakki gekk úr því.
c. Verslunarfélagið vil ég sem minnst minnast á, það gengur lakar til með það en vera ætti. Enginn aðalfundur haldinn síðan 1906. Ekki endurskoðaðir eða lagðir fram reikningar fyrr en nú loksins seint í desember, að haldinn var fundur fyrir söludeildina, þá var sýndur reikningur fyrir árið 1907, þó óendurskoðaður. Mátti á honum sjá að varasjóður félagsins er uppétinn af óhöppum og sköðum ýmsum, sem Söludeildin þá tjáist að hafa orðið fyrir.
Enginn verslunararður útborgaður og umsetning söludeildarinnar mikið rýrnað. Verslunarfélagið er nú gengið í Sambandsfélagið, þó ekkert hafi það gott af því enn.
d. Stofnaður var Sparisjóður í sambandi við söludeildina, eða félagið á áðurnefndum söludeildarfundi, og samþykkt lög fyrir hann.
e. Kynbótabúið á Tind er nú aftur komið í gott horf, er það styrkt af Landbúnaðarfélagi og sýslusjóði, kr. 200 + 100. Keyptar voru í haust til búsins um 13 kindur og seldir nokkrir hrútar veturgamlir til kynbóta.
f. Búnaðarfélagið er gengið i Búnaðarsamband Vestfjarða, þó lítið sé í aðra hönd á móti 20 kr. tillagi, I kr. af hverjum félagsmanni. Unnin hafa verið í ár af félagsmönnum 700 dagsverk. Einn meðlimur gekk úr félaginu, nefnilega Jón Þorsteinsson á Heydalsá. Landssjóðsstyrkur kr. 129.24. Verðlaun 20 aurar á dagsverk. Sjóður félagsins minnkað úr 200 kr. ofan í 180 kr. En lakast er þó, að um 40 kr. af sjóðnum eru að líkindum tapaðar vegna hirðuleysis stjórnarinnar, það upplýstist á fundi 28. des. síðastliðinn. Nú er æði dauft yfir framtíðarhag félagsins, því ofan á þetta kemur, að enginn maður er ráðinn til að vinna hjá félagsmönnum á komandi vori.
g. Sparisjóður Kirkjubóls- og Fellshreppa, hefur talsvert vaxið í ár, þrátt fyrir það að mikið hefur verið tekið út af innlögum, og ekki síst vegna vaxandi peningaleysis. Innlög alls kr. 1.852.95, Úttekið innlagt fé kr. 979.50 Varasjóður nú kr. 3. Sjóður i reikningsárslok kr. 6.777.17 og umsetning á 12 þúsundi. Lögum sjóðsins mikið breytt. Reikningsár hans nú almanaksárið og færður gjalddagi og fleira.
11. Sveitarþyngsli
eru nú svipuð og næstliðið ár, þarfir á 13. hundrað króna. Þó losnaði hreppurinn við þyngsta þurfaling sinn, nefnilega “Vitlausu Imbu”.
En alltaf kemur eitthvað nýtt ef eldra hverfur,
það er okkar þrautaskerfur,
og þyngst að efnahagnum sverfur.
12. Ábúendaskipti
urðu þau ein í hreppnum að í ár sleppti Sigurgeir Ásgeirsson á Heydalsá jarðarpart þeim sem hann hafði, en við tók Ásgeir Ásgeirsson, og hefir hann íbúð á skólahúsinu.
13. Meira um kirkjuna:
Gömlu kirkjurnar voru seldar á 150 kr. hver. Var Tungukirkja svo rifin, en Fellskirkju breytt og höfð fyrir skemmu. Leitað var samskota til orgelkaupa handa nýju kirkjunni, og gekk það fremur vel, hér í hreppi, en lakari undirtektir í Fellshreppi. Enginn kirkjugarður er enn á Kollafjarðarnesi, og því jarðað á gömlu kirkjustöðunum fyrst um sinn. Mörgum fellur illa lagabreytingin með kirkju og prestsgjöldin, einkum hús- og vinnufólki, og erfið peningaborgun þegar hvergi fást peningar. Jafna varð líka niður auk lögskipaða kirkjugjaldsins sem svaraði 41 eyri, á hvern fermdan safnaðarmann. En því gjaldi þóttist sóknarnefnd jafna niður eftir efnum og ástæðum.
Nú hef ég getið hins helsta, sem frásagnavert er hér í hreppi á liðna árinu og ég get munað í svipinn. Árið má teljast yfirleitt meðalár að gæðum.
Yfirlit ársins 1910
1. Tíðarfar
Fyrri hluta janúar var veðrátta fremur góð, hægviðri og úrkomur litlar, en þó oft fremur frosthart. Blotar á milli. Tók algjört fyrir jörð um 11. þessa mánaðar. Nokkra daga norðan kafaldsköst með talsverðri fannkomu, mest 11. og 18. Síðast í mánuðinum hlóð niður lognfönn. Í febrúar var oftast við norðan og austanátt, bætti á fönn, en sjaldan blotar. Bylur í viku 15.-21.
Mars var umhleypingasamur, oftar þó við austan og norðanátt með fannkomu talsverðri, stundum útsynningar og svo blotar á milli, 12., 18., 22. og 25. Apríl var enn óstilltari, sinn daginn hvert veðurlagið, snjóaði og bleytti af öllum áttum til skipta, úrkoma þó ekki mjög mikil eða stórgerð. Kafaldsbylir stöku dag. Maí var einnig breytilegur að veðráttu, fannkoma þó lítil en blotar meiri og góðviðrisdagar nokkrir seinni hluta mánaðarins. Í byrjun þessa mánaðar kom upp jörð og tók ekki fyrir hana eftir það, en oft gaf fé ekki úti vegna veðurs. Hafði þá verið látlaus innistaða frá því snemma í janúar. Vorið var kalt og greri mjög seint. Hafíshroða varð vart, bæði í vor og sumar, en hvergi varð hann landfastur, svo ég hafi spurt.
Sumarið ekki stórúrkomusamt, og alltaf hægviðri, þar til í ágústlok eða hálfum mánuði fyrir leitir skipti um algjörlega, gerði þá vestan og sunnan rok og rigningu. Haustveðráttan framan af rosasöm. Með nóvember gerði norðan kaföld og viðraði fremur kalt eftir það og leysti lítið þó stöku sinnum gerði blota. Fannkoma þó sjaldan mikil. Gerði áfreða seint á jólaföstu, og tók þá algjört fyrir jörð. Frost mest kringum 10°c.
2. Heybirgðir og skepnuhöld
Þó heybirgðir væru með meira móti síðastliðið haust, nefnilega 1909, gáfu flestir hér í hreppi upp hey sín. Fyrning svo nokkru næmi aðeins hjá Jóni í Tungu og Grími í Húsavík, og nokkrir urðu heylausir – Vonarholt, Tungugröf, Tind, Gestsstöðum, Kirkjubóli, Þorpum. Engir misstu samt fénað úr hor, eins og kom fyrir of víða í öðrum hreppum sýslunnar, þó ekki væri mikið úr því gert af þeim, sem fyrir því urðu. Sauðburður gekk vel, lambahöld með besta móti. Bjarnfirðingar, Selstrendingar og Staðdælingar komu þar í móti með mikla lambaskinnabagga Í kaupstaðinn.
Kvillar í búpeningi með minnsta móti, bráðapest ekki orðin tilfinnanleg síðan almennt var farið að bólusetja fé gegn henni, og höfuðsóttin að mestu úr sögunni vegna þess að betur er hirt um sulli og hundar hreinsaðir á hverju hausti. Heimtur á fé fremur góðar hjá almenningi. Fé skarst í meðallagi. Kýr fóru út um miðjan júní, þó talsvert fyrri hjá þeim, sem heylausir urðu, Þeir sem hey höfðu gáfu þeim með fram í júnílok. Í haust voru þær teknar algjört inn um og fyrir veturnætur.
Innigjafatími varð með langlengsta móti, sem verið hefur nú í mörg ár að undanförnu. Á dalabæjum varð hann nálægt þessu: Kýr 38 vikur, lömb 23 vikur, ær 21 vika og hross 17-18 vikur. Farið að hýsa fé og lömbum kennt át snemma í nóvember, til dala, en við sjávarsíðuna lá það úti nærri fram undir jólaföstu, þó illa viðraði til þess stundum. Hestar gengu almennt úti þar til viku fyrir jól. Við árslok er gjafatími orðinn þetta: Kýr 13 vikur, fé 3 vikur og hross 2 vikur.
3. Heyskapur
Grasspretta varð í góðu meðallagi er áleið sumar, einkum á engjum. Töður víðast miklu minni en í fyrra. Fjallgras venju fremur seint. Sláttur var byrjaður seint, 16.-18. júlí, vegna þess hve seint greri, og svo varð sjálfhætt heyskap 2 mán. fyrir leitir vegna óveðráttu. Var heyskapur að vöxtum hér um bil í meðallagi. Taða þornaði seint og er því víða ekki rétt vel verkuð. Úthey nokkru betri, þó ekki rétt góð. Í haustrigningunum miklu hafa hey skemmst mjög mikið nema hjá þeim sem hafa járnþaktar hlöður. Er því að búast við að þau verði ódrjúg. Í rokunum fyrir leitirnar fauk sum staðar talsvert af heyi. Ásetningur mun nú vera með knappasta í hreppnum.
4. Afli.
Hákarl aflaðist talsvert á Smáhömrum, annarstaðar ekki reynt fyrir hann hér við fjörðinn. Hrognkelsaafli mikill beggja megin fjarðarins yst. Fiskur og síld kom seint í júlí, og var ágætur afli hjá þeim, sem róðra gátu stundað i sumar og framan af haustinu, og reita fram undir jólaföstu, en notaðist ekki vegna ógæfta og beituskorts upp á síðkastið. Smokkfiskur dróst um tíma. Þessi góði og óvanalega langvarandi afli notaðist þó ekki hérlendum eins og búast hefði mátt við, bændur gátu ekki almennt gefið sig við róðrum meðan heyskapur stóð yfir, svo kom til fjallskil og sláturtíð. En eftir leitir fór að draga úr afla og svo voru tíðar ógæftir. Ég veit ekki um hlutarhæð hjá mönnum hér, en mun hafa verið talsvert betri en í fyrra. Ísfirðingar o.fl. mökuðu hér vel krókinn í sumar, reru hér bæði árabátum og héldu úti mótorum, stundum 5 eða fleiri.
5. Jarðabætur
urðu með minnsta móti vegna vorkuldanna, og þess að skepnur þurftu mikla og nákvæma umhirðingu, en bændur flestir einyrkjar nú orðið. Húsabyggingar engar, aðeins gert við það nauðsynlegasta, nema sr. Jón byggði upp fjárhús stórt undir járnþaki og Sigurgeir á Heydalsá stækkaði hlöðu undir járnþaki með meiru.
6. Verslun.
Útlend vara hækkaði heldur frá því sem var síðastliðið ár en innlend hækkaði dálítið. Matvöruverð hjá kaupmönnum þetta, félagsverð á eftir: 100 p. Rúgmél 11.50, 9.16. Hveiti 13.00,11.60. Bygg 12.00, 9.42. Haframél 18.00, 15.49. Heilrís 16.00, 11.38, Flúnel 18.00, 14.49.
7. Heilsufar
fólks hefur mátt heita gott, lítið um landfarsóttir eða kvefveiki. Hálfbrjálaður varð einn maður, Finnur Jónsson á Gestsstöðum, hefur lengi verið veill á geðsmunum, skánaði aftur. Engir hafa dáið hér nema gömul kona á Gestsstöðum, Guðrún Ólafsdóttir, ekkja Friðriks Zakaríassonar. Dó úr ellilasleika.
8. Félög og stofnanir
Um þau er nú fátt að segja markvert, því að fremur hefur verið dauft yfir öllu þesskonar, og raunar öllum meiriháttar framkvæmdum þetta ár. Það kveður svo rammt að því, að enn eru sumir bændur ekki farnir að bera a völl.
a. Heydalsárskólinn var dável sóttur árið sem leið, bæði krakkanámskeiðin fyrst og síðast á vetri, og eins fyrir unglinga um miðjan veturinn. Nú er með flesta móti á skólanum, sem nokkurn tíma hefur verið. Kennari sami, Sigurgeir Ásgeirsson. Kennsla ókeypis. Skólinn mikið styrktur úr land-, sýslu- og hreppssjóði.
b. Lestrarfélagið: Um það er lítið að segja, en þó gott, það sem er. Efnahagurinn með besta móti. Talsvert keypt af nýjum bókum. Félagar líkt margir og í fyrra. Tillög félagsmanna eins. Fast tillag úr hreppssjóði 30 kr. og frá Legatinu 7.00.
c. Verslunarfélagið. Af því er ólíkt betra að segja en síðast. Nú í ár var haldinn aðalfundur og lagðir fram þriggja ára reikningar endurskoðaðir, allt klappað og klárt og furðugott útlits eftir allan trassaskapinn og ólagið, sem komið var á. Hagur félagsins mikið lagast þetta ár nefnilega 1909, sem síðasti framlagður reikningur nær yfir. Stofnsjóðsskarðið, sem komið var, fyllti aftur og varasjóður myndaður á öðru þúsundi, enda var enginn verslunararður útborgaður. Gengið betur eftir skuldum í ár, samkvæmt ákvæði síðasta aðalfundar. Vörubirgðir oft litlar. Sparisjóður félagsins vex nokkuð, útlán mest til þeirra, sem skulda söludeild félagsins. Vextir 4½ og 5%. Vörupantanir með meira móti eftir því sem verið hefur nú undanfarið.
d. Kynbótabúið á Tindi heldur áfram. Selt þar í haust til kynbóta margt af veturgömlum gimbrum á 14 kr. og nokkrir vetur gamlir hrútar á 20 kr. og dilkar. Ekki aðkeypt nema 1 hrútur í 3 vetur. Styrkur til þess sami og síðastliðið ár, nefnilega 300 kr.
e. Búnaðarfélagið: Yfir því hefur verið fremur dauft, margir félagsmenn ekki unnið fyrir tillagi sínu. Dagsverkatala 513. Aðalfund er enn ekki búið að halda. Einn maður var ráðinn í vor, Jón Lýðsson, sem vann að jarðabótum hjá félagsmönnum.
f. Sparisjóðurinn hefur aukist dálítið, Þó með minnsta móti, samanborið við það, sem verið hefur nú nokkur ár að undanförnu. Hann er nú 20 ára gamall. Innlög alls Kr. 2.008.00. Úttekið innlagsfé 1.580.59. Varasjóður orðinn 432.12. Innieign samlagsmanna 81 að tölu 6.823.06. Sjóðurinn í árslok kr. 7.257.18. Umsetning 13.370.58. Er sjóðurinn þetta hæstur frá upphafi sinna vega, og mest umsetning. Stjórn sama.
9. Sveitarþyngsli.
Útgjöld hreppsins eru lík og síðastliðið ár. Ómagameðlög eru nokkru lægri, en aftur er nú meira borgað af hreppssjóði til skóla og lestrarfélags. Voru því útsvör heldur hærri en í fyrra. Nú er útlit fyrir að þyngist næsta ár af nýjum sveitarlimum.
10. Hitt og þetta.
Ábúendaskipti urðu þau þetta ár í hreppnum að Samúel Guðmundsson fór að búa á Gestsstöðum, en Friðrik Magnússon fór í húsmennsku að Klúku. Magnús Guðmundsson er bjó í Þrúðardal [*Þuríðardal í vélriti] fór að Kirkjubóli í húsmennsku. Finnur Jónsson fór þaðan að Gestsstöðum. Í vor giftust Magnús Lýðsson frá Enni og Elín Jónsdóttir Tröllatungu, Oddur Lýðsson bróðir Magnúsar – Sigríður Jónsdóttir systir Elínar, og í haust giftist Jón H. Jónsson frá Tröllatungu – Matthildur Björnsdóttir Smáhömrum. Engar verulegar veislur haldnar og stofubrúðkaup.
Börn fæddust hjá sr, Jóni og Guðnýju, Magnúsi og Guðbjörgu Hvalsá, Júlíusi og Valgerði Þorpum, Halldóri og Elínu Miðdalsgröf og Jóni Guðmundssyni Tungugröf og Kristínu konu hans. Kirkjugjöldin þykja þung einkum húsfólkinu, aukagjald til kirkjunnar 70 aurar á hvert fermt nef. Sjaldan messað og þá fátt fólk. Manntal var tekið um allt land 1. desember síðastliðinn.
Sett var á hey bænda í haust, eins og áður var, nema árið 1907 og 8. Ásetningsmenn Grímur Stefánsson og Halldór Jónsson. Flestir böðuðu fé sitt í haust, og sumir báru í.
Haugshús byggði sr. Jón upp, sem hefur verið niðurfallið síðan þeir feðgar Jón Magnússon og Magnús voru þar, eru nú 9 haugshús í hreppnum.
Yfirlit ársins 1911
I. Vetrarveðráttan
fremur umhleypingasöm, setti niður mikla fönn í febrúar. Í marsmánuði gerði hláku svo jörð kom upp, sem aldrei tók algjört fyrir eftir það, en oft gaf ekki út fé vegna harðviðra einkum um miðjan apríl. Rak þá inn hafíshroða, sem var að flækjast hér fram á vor. Varð vart við ís um alt land að vestan, norðan og austan. Frost mest í febrúar 14 stig celsíus. Vorið var kalt og næðingasamt er á leið. Sumarið þurrviðrasamt. Haustveðrátta óminnilega góð einkum er á leið og veturinn til ársloka. Mátti heita að ekki hefði gert fönn á jólum, en jörð þó oftast dálítið freðin. Láglendi svellalaust og ár lögðu milli hátíða.
II. Heybirgðir
reyndust nægar hjá flestum hér í hreppi síðastliðinn vetur. Vantaði heldur á 3 bæjum, Hvalsá, Kirkjubóli og Tungugröf. Varð innistaða til dala nálægt þessu: Kýr 34, ær 17½, lömb 19 vikur, hross 16 vikur. Sauðburður gekk ágætlega, gat ekki heitið að nokkur missti unglamb. Kvillar í búpeningi mjög litlir, helst lungnaveiki og höfuðsótt á stöku bæ, Heimtur góðar hjá flestum. Fé skarst dável.
Kýr var farið að láta út síðari hluta maímánaðar og gefið með fram í júníbyrjun. Inn komu þær aftur algjörlega 2 mánuði til viku fyrir vetur. En víða gefið með frá leitum. Fé var farið að hýsa misjafnlega snemma, sum staðar í byrjun nóvember en á stöku bæ ekki fyrr en um jól. Á dalbæjum búið að gefa rosknu fé með sem svarar vikugjöf á jólum en lömbum nokkru meira. Hestar liggja víða úti nú í árslok, og hvergi búið að gefa þeim svo nokkru nemi.
III. Tún
spruttu víða í lakara lagi vegna vorkuldanna og sífelldra þurrka. Engjar voru nokkuð sprottnar er áleið sumar. Varð heyskapur í betra lagi vegna þess hve veðráttan var oftast hagstæð. Hægviðri og þurrkar nema kafala nokkurn í endaðan túnslátt. Hey voru því góð, auðvitað nokkuð sinumikil, þar sem fornar slægjur voru til. Sláttur byrjaður um miðjan júlí og hætt af flestum viku fyrir leitir. Ásetningur mun vera með betra móti í hreppnum. Skoðun gerð í haust af Grími í Húsavík. Áleit hann vanta hey í Tungugröf og á Heydalsá, Aðalsteinn.
IV. Um aflabrögðin
verð ég fáorður. Hákarlsafli með meira móti á Smáhömrum í vetur er leið. Hrognkelsaafla leit vel út með í vor, en hafíshroðinn spillti þeirri veiði. Fiskafli kom með seinna móti eða aflaðist ekki fyrr en beita, síld, fékkst seint í ágúst, þá ágætisafli um tíma. Eftir það var oftast heldur aflatregt, en varð þó vart við fisk fram eftir öllu hausti, en vantaði beitu. Notaður kræklingur þar sem hann fékkst. Hlutur mun hafa verið 100-140 kr. hjá þeim hæstu hérlendu formönnum yfir allan tímann. Ísfirðingar komu hér margir með báta og mótora og stunduðu fiskveiðar. Öfluðu vel.
V. Jarðabætur
voru litlar á árinu og bar þrennt til þess. Áhugi lítill, vorið kalt og enginn gagnlegur maður fáanlegur hér til að vinna hjá bændum. Húsabyggingar verulegar í hreppnum þær, að Jón Halldórs Jónsson á Heydalsá byggði timburhús 8×9 al, ein hæð með steyptum kjallara undir og járnþaki. Jón Þorsteinsson á Gestsstöðum reisti timburhjall með járnþaki og Grímur í Húsavík fjóshlöðu einnig undir járni. Aðalsteinn á Heydalsá byggði bæ, en það var mest af fornum viði úr gömlu baðstofunni og með torfþaki. Jón Þórðarson á Broddanesi byggði timbur íveruhús. Sigurður bróðir hans í Stóra-Fjarðarhorni jók við sitt timburhús. Svo hafa 3 hús verið reist á Hólmavik: Guðjón Brynjólfsson steinhús með kjallara. Sigurjón Sigurðsson timburhús og svo var reist Sjúkraskýli við Læknishúsið úr steini um stærð á húsum þessum man ég ekki.
VI. Verslunin
hefur verið óhagstæð í ár. Útlenda varan hækkaði síðari hluta ársins en innlend var í líku verði og í fyrra nema kjöt lægra. Sérstaklega hefur munaðarvara öll stigið í verði. Kaffi á 1 kr. sykur 37 aura. Kaupstaðarskuldir víst heldur vaxið. Matvara er nú talsverð á Hólmavík því kaupmenn hafa verið tregir að lána er á leið haustkauptíð. Flestir munu vera matvörulitlir mm. heimafyrir.
VII. Heilsufar
fólks hefur verið fremur góð, engar landfarsóttir gengið nema illkynjað kvef í vor, lagðist þungt á krakka. Brjósthimnubólga stakk sér niður og svo ellilasleiki í nokkrum gömlum konum. Tvær manneskjur dóu, nefnilega Magnús Magnússon unglingspiltur á Kirkjubóli 8/8 úr barnaveiki og Sólveig Rósmundardóttir á Gestsstöðum úr berklaveiki 26. des. Hún var 13 ára. Barn dó í Tungugröf. Fæðst hafa 4 börn.
VII. Þá er að minnast lítilsháttar á stofnanir og félög;
er þar fátt og lítið af að segja og síst í framfara áttina:
1. Heydalsárskólinn hefur aldrei verið fjölsóttari en veturinn 1910-11, en nú verður annaðhvort engin kennsla eða fyrir svo sem 8 krakka í jafnmargar vikur. Til hans er lagt úr hreppsjóði 13o krónur. Kennari var ráðinn húsfrú Guðbjörg Björnsdóttir með 50 kr. kaup á mánuði. Þau hjón, hún og Ásgeir búa leigulaust í skólahúsinu.
2. Lestrarfélagið get ég lítið sagt um. Bækur nokkrar hafa verið keyptar og bundnar. Fund í því hefur ekki verið hægt að halda vegna þess að fyrrverandi féhirðir þess og bókavörður er enn ekki búinn að gera grein fyrir efnahag þess eða afhenda allar bækur. Tillag úr hreppsjóði fær það 15 kr. og 7 kr. frá Legatinu. Stjórn óviss.
3. Verslunarfélagið er ég ófróður um. Það víst minnkað umsetningu en um hag þess veit ég ekkert, því aðalfundur hefur ekki verið haldinn. Vörur oft litlar. Pöntun talsverð. Sparisjóður félagsins hefur mikið aukist. Vöruverðsmismunur samanborið við kaupmenn nú minni en undanfarið, nefnilega í pöntun. Stjórnin er hin sama.
4. Búnaðarfélagið lifnar ekki enn úr deyfðardoðanum sem yfir því hefur verið. Maður var tekinn til jarðabótavinnu af félagsmönnum í nokkrar vikur, en hann var óvanur þeim verkum. Hér um bil rúmur helmingur félagsmanna lítið eða ekkert unnið. Fundur er ekki haldinn enn, og veit ég því lítið um efnahag þess. Stjórnin sama.
5. Kynbótabú sýslunnar á Tindi gengur rétt vel, en er of lítið notað. Fé þar orðið fallegt. Búið keypti nokkrar ær en engan hrút. Skoðað af fjárræktarmanni.
6. Sparisjóðnum liður vel eftir ástæðum, þegar þess er gætt að hann hefur nú keppinaut, þar sem sparisjóður V.S. á Hólmavík er með 2% hærri innlagsvöxtum. Innlög á árinu með vöxtum kr. 1725.78 en úttekið kr. 581.75. Sjóður i árslok Kr. 8459.17. Þar af er eign innlagsmanna kr. 7967.00 en varasjóður kr. 492.08. Í fyrra var sjóðurinn kr. 7257.18. Engir áfallnir vextir útistandandi nú í árslok, sem hefur ekki verið áður, og fyrirliggjandi peningar I kr. 37 aurar. Stjórn ókosin.
IX. Útgjöld hreppsjóðs
hafa þetta ár vaxið stórkostlega, bæði vegna þess að nýir ómagar bættust við, börn Guðmundar Maríussonar 5, og svo kom á þetta ár ýmsar útborganir frá fyrra ári. Hefði eiginlega þurft að leggja á 17 hundruð kr. en ekki tekið nema 15. Hæst útsvar hjá Birni á Smáhömrum eins og fyrri kr. 170.00. Hækkun að meðaltali 15% frá því sem var í fyrra. Útlit er fyrir fjölgun þurfalinga enn nú.
X. Hitt og þetta:
Ábúendaskipti urðu þau á árinu að Samúel á Gestsstöðum hætti búskap og fór vestur. En að Gestsstöðum flutti aftur Jón Þorsteinsson sem bjó á Heydalsá og kaupir hann 2/3 jarðarinnar af Legatinu. Finnur Jónsson Gestsstöðum fór inn að Ósi í Staðarsveit. Jón Halldórs Jónsson fór að búa á Heydalsá og Ragnheiður Zakaríasdóttir með Aðalsteini Halldórssyni sínum eiginmanni, sem nú hefur yfirgefið fylgikonu sína Ágústínu Sveinsdóttir. Margrét yfirsetukona flutti hingað í sveitina að Heiðarbæ. Þórólfur í Vonarholti sem talið hefur verið að væri þar i húsmennsku, og Grímur í Húsavík haft umráð jarðarinnar, fór að búa þar í vor. Sigurgeir Ásgeirsson var búinn að taka skólahundruðin 8 til ábúðar í vor, en breytti fljótlega ráði sínu, sagði lausri jörðinni að nokkru og skólakennslu og öðrum störfum hér að fullu. Flutti sig norður i Ófeigsfjörð og giftist þar Jensínu Guðmundsdóttir.
Koparþráður tvöfaldur var lagður til fullkomnunar símanum frá Borðeyri til Ísafjarðar í sumar. Hann slitnaði ákaflega mikið í haust á Stikuhálsi. Stálþráður er á hálsum eða fjöllum.
Hval, 20 al. milli skurða rak í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði 26. janúar. Var lítið selt af honum út úr hreppnum.
Í vetur var leitað samskota til minnisvarða Jóns Sigurðssonar forseta. Ég gekkst fyrir samskotum hér í hreppi og urðu þau kr. 69.15.
6. apríl reið Magnús á Hvalsá út í ósinn á Heydalsá, með flæði, var Elínborg á Þorpum með honum og sneri aftur í tíma en Magnús þvældist einhvern veginn með sínum hesti frá landi. Sást til ferða þeirra frá Heydalsá, og fóru bændur þaðan í mesta flýti á jullu til að bjarga Magnúsi. Var hann þá aðframkominn, en hesturinn dauður. Tóku þeir hnakkinn af honum og héldu til lands, en skrokkurinn flaut út á fjörð undan vindi. Nú nenni ég ekki að tína meira saman og slæ því botninn í.