Fréttir

Sauðfjársetrið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna!

Þau stórtíðindi bárust á sumardaginn fyrsta að Sauðfjársetur á Ströndum er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi. Einnig eru tilnefnd Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn og Þjóðminjasafn Íslands, fyrir ólík verkefni og þætti í safnastarfinu. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir aðstandendur Sauðfjársetursins. Í ítarlegum rökstuðningi dómnefndar segir:

Sauðfjársetur á Ströndum er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi.

Sauðfjársetur á Ströndum er mikilvæg og öflug menningarstofnun sem hefur haft gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum frá því það var sett á fót árið 2002. Sauðfjársetrið hefur staðið fyrir nýsköpun og uppbyggingu á sviði menningar og lista og aukið menningarlega fjölbreytni nærsamfélagsins. Safnastarf á Sauðfjársetrinu hefur á skömmum tíma vakið athygli fyrir öflugt rannsóknarstarf sem og frumlega og fræðandi viðburði eins og sviðaveislu og Íslandsmeistaramót í hrútadómum.

Starf safnsins tengir á áhugaverðan hátt náttúru og sögu samfélagsins. Náttúrubarnaskólinn á Ströndum hefur verið starfræktur síðan 2015. Hann byggir á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu. Í skólanum er boðið upp á margvísleg dags- eða helgarnámskeið fyrir börn, þar sem miðlað er fróðleik um náttúru og umhverfi, í listasmiðjum og með útivist og skemmtun. Í tengslum við skólann hefur þróast Náttúrubarnahátíð sem byggir á útivist, náttúrutúlkun og þjóðfræði.

Sauðfjársetrið hefur sinnt faglegu safnastarfi af krafti og safnað á skipulegan hátt munum, myndum og minningum Strandamanna og miðlað þeim með margvíslegum hætti, til dæmis með hlaðvarpsþáttunum Sveitasíminn.

Rannsóknarstarf Sauðfjársetursins hefur verið til fyrirmyndar. Það hefur allt frá stofnun staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum og útgáfustarfsemi á sögu og menningu íbúa svæðisins í samstarfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Þótt Sauðfjársetrið sé lítið safn á mælikvarða menningarstofnana er gildi þess fyrir samfélagið á Ströndum, mannlíf og menningu, langt umfram umfang starfsemi þess. Með starfi sínu hefur starfsfólk Sauðfjárseturs eflt menningarvitund og áhuga á sögu og menningu svæðisins langt út fyrir nærsamfélagið.